09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

89. mál, olíueinkasala

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er satt að segja alveg forviða á því, hversu mikillar tregðu gætir af hálfu hv. stjórnarflokka að ræða olíumálin hér á hv. Alþingi. Sannleikurinn er nefnilega sá, að þeir hafa ekki alltaf verið jafntregir og nú til þess að ræða olíumálin.

Þau bar allmjög á góma í síðustu kosningabaráttu og með svo sérkennilegum hætti að fyllsta ástæða er til þess að rifja það upp og sjá, hvort ekki er hægt að endurvekja. í brjóstum einhverra hv. þdm., sem eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., eitthvað af þeirri hneykslun, sem þeir voru fullir af varðandi olíumál í hinum harða kosningabardaga, sem háður var á síðasta sumri. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að rifja upp fyrir hv. þm. örfá atriði úr kosningabardaganum í þeirri von, að það hrófli svolítið við samvizkunni, þ. e. a. s., að hún hafi ekki sofnað algerlega að unnum nokkrum sigri í kosningabaráttunni, þeim sigri, að fyrrverandi stjórn skyldi hafa verið endurreist með stuðningi sömu flokka og áður.

Það muna allir hv. þdm., að áður en kosningabardaginn hófst, vissu menn eiginlega ekki annað en að stjórnarheimilið væri sannkallað kærleiksheimili. Það hafði varla heyrzt um nokkurn kryt, nema þá helzt um veitingu vínveitingaleyfa og svo lítils háttar deilur milli frambjóðenda stjórnarflokkanna í Vestmannaeyjum um það, hvor þeirra hafi gerzt brotlegri við landslög undanfarin ár. Í sambandi við þetta lýsti flokksþing framsóknarmanna að vísu yfir vantrausti á dómsmrh. landsins og taldi honum á engan hátt trúandi fyrir réttaröryggi í landinu, en þetta allt saman tóku menn ekki svo sérstaklega hátíðlega. En þá var það, sem stórskotahríðin byrjaði fyrir alvöru. Morgunblaðið hóf nefnilega kosningabaráttuna hér í Reykjavík á því að skýra frá því, að Sambandið hafi verið í þann veginn að hafa 700 þús. kr. af sjómönnum og útvegsmönnum í sambandi við vöruflutninga til landsins. Tíminn þagði ekki við þessu. Hann svaraði um hæl, að Morgunblaðinu færist alls ekki að tala um þetta, því að Eimskipafélagið hefði nýlega grætt 125 þús. kr. á einum einasta áburðarfarmi. Þá færði Morgunblaðið sig enn upp á skaftið og minnti þjóðina á, — og nú byrja olíumálin að koma til sögunnar, — að Olíufélagið hafi verið dæmt fyrir að taka 1.6 millj. kr. í ólöglegan hagnað af olíuviðskiptum. Og um þetta skrifaði Morgunblaðið dag eftir dag. Við þetta espaðist Tíminn auðvitað enn. Hann sagði, að Eimskip hefði grætt 720 þús. kr. á fimm á!burðarförmum og Shell og B. P. — þarna koma olíumálin aftur — hefðu grætt rúmlega eina milljón á olíuflutningum til landsins á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem nú er að líða. Þetta stóð í málgagni þáverandi forsrh. og öðru aðalstuðningsblaði núverandi ríkisstj. Á tiltölulega skömmum tíma voru aðalmálgögn ríkisstj., Morgunblaðið og Tíminn, búin að koma upp um alls konar okur á almenningi og þá fyrst og fremst olíuokur, sem nam rúmum 4 millj. kr., og var olíuokrið rúmlega helmingur af þessari upphæð.

En þetta var nú bara byrjunin. Morgunblaðið minnti á, að sektin, sem Olíufélagið hafði verið dæmt til þess að borga, hafi numið 140 þús. kr. og það sé ein allra hæsta sekt, sem nokkurt fyrirtæki hafi verið dæmt til þess að borga. Og þá fékk nú Tíminn málið fyrir alvöru, því að hann skýrði frá því, að ólöglegur hagnaður einkaverzlana af verðlagsbrotum síðan 1938 hafi numið hvorki meira né minna en 1.8 millj. kr. og svo hafi Eimskipafélagið grætt hvorki meira né minna en 51.5 millj. á leiguskipunum, sem ríkisstj. útvegaði því á stríðsárunum, og af þessum gróða hafi svo Eimskip nýlega gefið Kveldúlfi 3–4 millj. kr. Þar með voru stjórnarblöðin búin að skýra frá því, að okurgróði ýmissa milliliða, m. a. olíufélaga, á almenningi hefði undanfarið numið 58 millj. kr.

Nú hallaði alvarlega á Morgunblaðið, en ekki vildi það gefast upp. Og til hvers greip það þá? Þá uppgötvaði það nýtt olíuhneyksli og skýrði frá því í stórum fyrirsögnum. Nú komst það sem sagt upp, — nú er Morgunblaðið heimildin, — að Sambandið hefði nælt sér í 200 þús. kr. milliliðagróða í Ameríku í sambandi við ein ekki mjög stór viðskipti. Þá tók Tíminn á honum stóra sínum og sagði, að miðað við gróða kaupfélaganna hefðu kaupmenn í landinu á undanförnum tíu árum grætt hvorki meira né minna en 120 millj. kr. Það er stærsta talan, sem nefnd var í þessum okurbrigzlum, sem fóru á milli stjórnarblaðanna fyrir kosningarnar. (Forseti: Ég vil mælast til þess, að hv. ræðumaður haldi sig sem næst því máli, sem er til umræðu.) Ég er að skýra hv. þm. frá þætti olíumálanna í þeim umræðum, sem fóru fram fyrir síðustu kosningar milli stjórnarflokkanna sjálfra. Það virðist nefnilega ekki ástæðulaust að minna á það, því að þeir virðast hafa gleymt þessu. Þeir virðast hafa gleymt, hvað þeir báru hvor öðrum á brýn í sambandi við olíuviðskiptin fyrir síðustu kosningar fyrir einum þremur til fjórum mánuðum, og þetta heyrir sannarlega til rökstuðnings fyrir því, að olíueinkasölu sé komið á og að olíuverzlunin sé þjóðnýtt, því að hvað eru rök fyrir því að taka olíuverzlunina í opinberar hendur, ef ekki það, að sjálf stjórnarblöðin hafa skýrt frá margra milljóna króna okri á olíuviðskiptunum? Ég get vel skilið, að hæstv. forseti ókyrrist svolítið undir þessum ummælum, því að hann er sterkur aðili í þeim félagsskap, sem einmitt málgagn núv. forsrh. bar hvað verstum brigzlum í sambandi við olíuviðskiptin, svo að ég get fyrirgefið honum ókyrrð hans.

Ef maður tók þessar upplýsingar saman, sem Morgunblaðið og Tíminn höfðu skýrt frá í sambandi við milliliðaokur, þá komst talan upp í 182 millj. kr. Með öðrum orðum: Kosningabardaginn á milli Morgunblaðsins og Tímans leiddi til upplýsinga um 182 millj. kr. milliliðaokur á almenningi, og voru olíumilliliðirnir einn stærsti aðilinn að þessu okri.

Nú hefði maður búizt við því, að þetta væri ekki allt saman gleymt og grafið, að menn myndu eitthvað af þessu, þó að kosningar væru um garð gengnar. En nú ber svo undarlega við, þegar kosningar eru um garð gengnar og ný ríkisstj. hefur verið mynduð, að allt þetta virðist gleymt og grafið. Það hlýtur að vekja mestu furðu manns. En mig langar að fá að vita, og það er eðlilegt, að þannig sé spurt: Var allt þetta, sem sagt var fyrir kosningar í Morgunblaðinu og Tímanum, markleysa? Eða var það allt saman rétt? Ef það var allt saman markleysa, hví leiðrétta þessir hv. stjórnarflokkar ekki þessi ummæli sin? Og ef það er allt saman rétt, finnst þeim þá eðlilegt að láta ekkert til sín heyra, þegar hér er flutt frv. um jafnmikilvægt mál og hér er um að ræða? Það er alveg sama, hvort þetta hafi allt saman verið kosningaáróður og kosningaósannindi eða það hafi allt saman verið rétt. Hafi þetta verið kosningaáróður og kosningaósannindi, þá skulda þessi blöð og þessir hv. flokkar almenningi í landinu leiðréttingar á því. En sé það allt saman rétt, sem þeir sögðu, þá dugir ekki að þegja, þegar slíkt mál eins og þetta er hér til umr.

Ég vildi að síðustu endurtaka það, að meðan Morgunblaðið og Tíminn hafa ekki tekið neitt aftur af því, sem þau skýrðu almenningi frá um olíuokur fyrir kosningarnar, þá hljóta sterkustu rökin fyrir olíueinkasölu nú einmitt að vera sótt í þessi blöð. Ein sterkustu rökin eru einmitt þessar upplýsingar, sem ég nefndi áðan og ekki hafa verið teknar aftur og ekki leiðréttar, um að í olíuverzluninni eigi sér stað ægilegt okur, líklega svívirðilegra okur en á nokkru öðru sviði íslenzkrar verzlunar, en það stendur eflaust í sambandi við það, að þessi verzlun er ekki íslenzk nema að litlu leyti. Eitt er það, að íslenzkir milliliðir okri á almenningi og íslenzkum atvinnuvegum, en enn þá hróplegra er þó auðvitað, er erlendir milliliðir okra á íslenzkum almenningi og íslenzkum atvinnuvegum.