11.12.1953
Efri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

5. mál, stimpilgjald

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Á þessu ári tóku tryggingafélögin hér í Reykjavík upp nýja tegund trygginga, þar sem atvinnurekendum og öðrum er gert kleift að tryggja sig fyrir skaðabótum, sem þeir kunna að verða skyldaðir til þess að greiða vegna tjóns, sem þeir eða starfsmenn þeirra valda öðrum mönnum og þeir eru í ábyrgð fyrir.

Í stimpillögunum voru ekki ákvæði um, hvernig stimpla skyldi slík skírteini, sem gefin væru út fyrir þessum tryggingum, en einsætt þótti, að stimpla bæri þau eins og önnur vátryggingarskírteini. Fjmrn. taldi í samráði við umboð tryggingafélaganna, að sanngjarnt væri að stimpla tryggingarskírteini þessi með 8% af fyrsta árs iðgjaldi, og voru gefin út brbl. um það efni, sem fjhn. leggur einróma til að verði staðfest á þessu þingi. — Ég skal geta þess, að í stimpilgjaldalagafrumvarpinu, sem nú liggur hér fyrir d., er lagt til, að sams konar ákvæði verði um stimpilskyldu slíkra vátryggingarskírteina, en þar sem nú þykir útséð um, að það frv. nái fram að ganga fyrir áramót, er lagt til, að þessi lög verði samþykkt.