08.02.1954
Neðri deild: 42. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

125. mál, húsaleiga

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég mun ekki fara að tala langt mál hér við 1. umr. þessa frv., sem er nú ekki nýr gestur hér á Alþ., því að það hefur tvisvar áður í svipuðu formi legið fyrir Alþingi, annað skiptið fyrir þessari hv. d. og í hitt skiptið fyrir hv. Ed. Ég ætla ekki heldur að fara að rekja forsögu þessa máls, sem er alllöng í raun og veru, og ekki heldur ræða um þau nefndarstörf, sem eru undanfari frv. En það voru einkum tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. 2. þm. Eyf., sem komu mér til þess að segja hér örfá orð.

Hv. 2. þm. Eyf. viðurkenndi, að þörf væri sérstakra húsaleigulaga, sem væru þá hliðstæð við ábúðarlög, — ég meina um réttindi og skyldur húseigenda og leigjenda á sama hátt og ábúðarlögin eru um réttindi og skyldur leigutaka og eigenda jarðeigna. Það skal viðurkennt, eins og hann tók fram, að það er margt óskylt með þessu tvennu, svo að það er ekki hægt að draga fullar hliðstæður af því, en grundvallaratriðin eru þó þau sömu, þ. e. að koma heilbrigðri skipan á þessi mál, eftir því sem unnt er, þannig að réttarstaða þessara aðila sé í meginatriðum mörkuð í lögum.

Ég hygg, að það sé rétt, eins og hv. 2. þm. Eyf. líka viðurkenndi og tók fram í raun og veru, að það muni vera mjög lítill meiningarmunur meðal þeirra, sem um þetta frv. hafa fjallað, bæði við undirbúning þess, og hið sama hefur mér virzt koma fram í umræðum hér á Alþingi, að það væri ekki neinn verulegur ágreiningur um hin almennu ákvæði þessara laga, svo að það virðist hljóta að vera grundvöllur fyrir því að afgreiða frv. hvað þau atriði snertir. Og ég tel, að það sé miður farið, ef Alþ. gæti ekki nú sem allra fyrst og ég vil segja á þessu þingi náð samkomulagi um það. En það, sem aðallega gerði það að verkum, að hv. 2. þm. Eyf. virtist mæla gegn frv., a. m. k. í þeim búningi, sem það er nú, eru heimildarákvæðin í X. og XI. kafla laganna. Nú vil ég taka það fram, sem raunar þarf ekki, að þetta eru aðeins heimildarákvæði. En mér virtist, og það var það, sem kom mér mjög ókunnuglega fyrir sjónir og er svo algerlega andstætt minni skoðun á málinu, hv. 2. þm. Eyf. telja, að það væri þá betur farið, að þau ákvæði, sem felast í þessum köflum, væru ekki heimildarákvæði, heldur bein skylda að framkvæma þau, ef það ætti að setja þau í lög. Þessu er ég algerlega andstæður. Ég hefði aldrei fylgt því, að svona ákvæði væri sett inn í frv. og lögfest þar algerlega. Það hefði mér ekki dottið í hug, og það veit ég nú reyndar að hv. 2. þm. Eyf. hefði ekki heldur gert. En mér finnst aftur á móti mjög rétt og eðlilegt, að sveitarstjórnir fái tiltölulega víðtækar heimildir til þess að beita þessu ákvæði, þegar þeim finnst ástæða til. Og það er ekkert annað, sem hér er verið að gera. Ég skal viðurkenna, að þær heimildir, sem felast í þessum köflum báðum, eru allvíðtækar og það er vitanlega hægt að nota þær harkalega. En ég hef nú þá trú á okkar lýðræði og því skipulagi, að sveitarstjórnir mundu alls ekki nota þessi ákvæði, nema brýn þörf væri til, og það sé þess vegna ekki nein áhætta að leggja í hendur þeirra allvíðtækt vald á þessu sviði. Ég er ekki að segja, að það þurfi endilega að vera öll þau ákvæði, a. m. k. ábreytt, sem lagt er til hér í X. og XI. kafla frv. að lögfest séu sem heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir. Það geta verið nýir hlutir, sem ætti að setja þar inn, og það getur vel verið, að það ætti að fella eitthvað af þessu burt. En þetta er mín skoðun, og þess vegna er ég á því, að það megi ganga alllangt í að leggja slíkt vald í hendur sveitarstjórna. Mér fannst eins og hv. 2. þm. Eyf. teldi, að sveitarstjórnir væru settar í allmikinn vanda með því að fá slíkt vald í hendur, það væri þá betra að ákveða þetta fyllilega, að þetta væri hrein lagaskylda, en ekki láta þær hafna eða velja. Þetta finnst mér mjög einkennilegt, vegna þess að það getur verið mikil þörf á að beita sérstökum ákvæðum vegna ástands í einu sveitarfélagi, þótt það sé engin ástæða til að gera það í fjölmörgum öðrum. Vegna þess eru heimildarákvæði yfirleitt sett, hvort sem það er varðandi þetta mál eða önnur, að þá er reiknað með því, að það henti ekki fyrir allt landið eða allt ríkið, að þessum ákvæðum sé beitt, heldur sé smærri heildum þjóðfélagsins heimilt að nota það, þar sem ástæður eru þannig. Nákvæmlega út frá þessu grundvallarprinsipi, sem ég er alveg samþykkur og finnst eðlilegt og rétt, er það, að þessi heimildarákvæði eru sett hér inn í þetta frv.

Nú skal ég viðurkenna, að það er vel hægt að hugsa sér þá leið til þess að leysa þetta mál, að frv. þessu væri skipt í tvö frv., annað væri almenn ákvæði um húsaleigu, sem sennilega er tiltölulega lítill ágreiningur um, og hitt væri þá aftur viss heimildarákvæði, sem sveitarstjórnir gætu beitt í einstökum tilfellum, þegar þeim þykir ástæða til. Það væri hægt að leysa málið þannig og afgreiða þá strax þann hlutann, sem kannske er ekki nokkur verulegur ágreiningur um, en slást þá um hinn og vita, hvernig vilji Alþ. er gagnvart því máli. En ég verð að játa, að mér fannst eðlilegt, að þetta væri í sama frv., og ekkert athugavert við það að neinu leyti út frá því grundvallarsjónarmiði, sem ég nú hér hef lýst, að það sé mjög eðlilegt, að sveitarstjórnir fái vald, sem þær geta beitt, þegar þannig eru ástæður, að þörf þykir, án þess að Alþ. þurfi að koma þar til ráða að öðru leyti en að velta heimildina í eitt skipti. Ég hef enga trú á, að það sé hætta á því, að sveitarstjórnir mundu misnota þetta; síður en svo. Ég gæti meira að segja frekar óttazt það, að þær í ýmsum tilfellum mundu kannske draga að nota þetta vald, þannig að það væri dregið úr hömlu að gera hluti, sem nauðsynlegt kynni að vera að gera í húsnæðismálunum vegna alvarlegs ástands í þeim þar.

Ég ætla ekki að fara að tala um einstök atriði frv., hvorki um hin almennu ákvæði, sem níu fyrstu kaflar frv. fjalla um og svo síðustu kaflarnir í raun og veru líka, né heldur um einstök ákvæði í þeim köflum, X. og XI. kafla, er fjalla um þessar heimildir. Það á nú ekki við heldur við þessa 1. umr. að gera það. En ég vil aðeins taka það fram, af því að ég hef átt töluvert mikinn þátt í undirbúningi þessa frv. og það hefur verið lagt hér fram áður og er lagt hér fram enn, að ég lít svo á, að hér sé eyða og það stór eyða í okkar löggjöf, sem verði að fylla sem fyrst. Meina ég þar almenna húsaleigulöggjöf. Þess vegna mun ég, meðan ég er í sæti félagsmálaráðherra a. m. k., eftir því sem ég sé mér fært, ýta á það, að Alþ. sinni þessu máli, og mun leita að leiðum eftir því, að samkomulag náist um að afgreiða það. Mér dettur ekki í hug að halda fram, að það geti ekki verið til bóta á þessu frv. ýmislegt, sem fram kæmi, og ég er mjög fús til samvinnu við alla aðila um það. Það er siður en svo, að ég áliti, að það muni ekki vera. Ég gæti einnig verið til viðtals um það, að frv. væri skipt, en ég mundi frá mínu sjónarmiði fylgja jafnfast, þótt það væri gert, að bæði frv. yrðu afgreidd, út frá þeirri skoðun minni, að það sé hollt og heilbrigt að veita sveitarstjórnum yfirleitt töluvert mikið vald í þessum efnum, sem þau geta beitt eftir því, sem ástæður eru fyrir á hverjum stað.

Ég taldi rétt, að þessi skoðun mín kæmi hér fram við 1. umr. frv. og þá ekki sízt út af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Eyf., en ég veit raunar, að það er afar margt, sem við erum algerlega sammála um í þessu máli, eins og ég heyrði líka á hans ræðu áðan.