13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

125. mál, húsaleiga

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Eyf. (MJ), að það er með nokkuð kynlegum hætti, þegar fram koma fulltrúar úr sveitarkjördæmum og þess flokks, sem engan kaupstaðarfulltrúa á, og ætla sér nú að lagfæra þetta lítilræði: vandkvæðin í húsnæðismálunum fyrir kaupstaðabúana. Þetta vekur þeim mun meiri furðu sem saga Framsfl. fyrr og síðar í málefnum kaupstaðabúanna og alveg sér í lagi í sambandi við húsnæðismálin er með þeim hætti, að það eitt út af fyrir sig hlýtur að vekja ugg og grunsemdir, þegar fulltrúar úr þeim flokki eru að flytja mál, sem snerta sérstaklega hagsmuni kaupstaðabúanna, en vilja þó láta í veðri vaka, að það sé gert af góðum hug og til þess að bæta úr þeim málum, sem þar um ræðir.

Það er rétt hjá hv. þm. A-Sk. (PÞ), að það mál, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt, og það hefur ekki verið sérstakur ágreiningur manna á meðal um þann þátt þessa frv., sem fjallar um réttarsamband leigusala og leigutakanna almennt. En það er ágreiningur um hinn þátt málsins, heimildarkaflana svo kölluðu, þ. e. a. s. þau ákvæði, sem heimila svo og svo mikla réttar- og frelsisskerðingu gagnvart einstaklingunum, þegar mikil húsnæðisekla er í kaupstað eða kauptúni.

Ágreininginn, sem um þennan kafla er, ætti því í raun og veru fyrst og fremst að reyna að leysa og greiða úr með ráðstöfunum, sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir húsnæðisekluna og afnema orsakir þeirra vandkvæða, sem hér er verið að setja þvingunarráðstafanir um. Í raun og veru má segja, að þessum þvingunarákvæðum sé nær eingöngu stefnt gegn Reykjavík og Reykvíkingum, því að vegna þess, hvernig aðstaðan hefur verið í þjóðfélaginu og þjóðflutningar frá hinum dreifðu byggðum og til höfuðstaðarins, þá er það fyrst og fremst þar, sem húsnæðiseklan er. Nú koma fulltrúar Framsfl. og leggja á það megináherzlu að koma fram þeim þvingunarákvæðum, sem hér um ræðir, og það er þá þeirra innlegg til þess að greiða úr þessum vandamálum Reykvíkinga fyrst og fremst að setja ný og harðari þvingunarákvæði en áður hafa verið í lögum og jafnvel voru hér á stríðsárunum, þegar ástæða þótti til af þeim sérstöku ástæðum að viðhafa þær frelsisskerðingar í löggjöfinni varðandi húsaleigu, sem kunnugt er.

Það væri ekki óeðlilegt, að þeir, sem eru þekktir að því og eru kunnir að því að hafa lagt sig fram um að greiða úr húsnæðisvandamálunum, en hafa gefizt upp eða ekki getað orkað því að girða fyrir þau, kynnu sem neyðarráðstöfun að láta sér detta í hug að flytja ákvæði eins og þau, sem hér eru í X. og XI. kafla, en það er ekki eins skiljanlegt, hversu mikil áherzla er lögð á þetta af hálfu þeirra manna, sem aldrei hafa lagt sig fram um að greiða úr húsnæðiseklunni, fyrst og fremst í höfuðstað landsins, heldur þvert á móti, bæði í bæjarstjórn Reykjavíkur og á hv. Alþ. fyrr og síðar, staðið að löggjöf og tiltektum, sem miða að því að auka húsnæðisekluna í höfuðstað landsins og setja stein í götu þeirra manna, sem hafa verið að vinna að því að draga úr henni. Það þarf ekki annað en minna á það hér á stríðsárunum 1940 eða 1941, þegar hæstv. fjmrh. barðist hér um á hæl og hnakka gegn því, að leyft yrði að flytja inn byggingarefni til þess að byggja íbúðir í höfuðstað landsins og öðrum kaupstöðum, og talaði um, að ef þetta væri leyft, þá mundu þessi hús verða myllusteinar um háls þeirra, sem byggðu þau, og verðmætunum, sem í þau væri varið, væri kastað á glæ. Og ég man ekki betur en að aðalritstjóri blaðs Framsfl., Tímans, hafi sagt í janúarmánuði 1948 að það væri ósæmilegt frá alþjóðarsjónarmiði að leyfa nýbyggingar í Reykjavík til almennra íbúða. Menn, sem svona hafa talað, standa sannarlega höllum fæti, þegar þeir þykjast vera í málatilbúnaði hér að koma á löggjöf til þess að koma bættri skipan á húsnæðismál höfuðstaðarbúa og annarra kaupstaðarbúa. — Þessa sögu má rekja miklu lengra.

Á sínum tíma beitti formaður Sjálfstfl., Jón Þorláksson, sér fyrir því, að stórkostlega var efld veðdeild Landsbankans á árunum 1926–27 með erlendri lántöku, sem varð gífurleg lyftistöng í húsnæðismálum höfuðstaðarins og annarra kaupstaða og miðaði þess vegna að því í stórum dráttum að greiða fram úr þeirri húsnæðiseklu, sem þá var. Eftir að Framsfl. komst til valda hér á landi og var mikið til einráður á árunum eftir 1930, þá voru engar ráðstafanir gerðar í framhaldi af þessu til þess að viðhalda starfsemi veðdeildarinnar, og hefur hún af þeim sökum og öðrum verið lítt óstarfhæf hin síðari árin. En við sjálfstæðismenn höfum lagt fram till. um það og beitt okkur fyrir því, að þess yrði freistað að gera nýtt átak til þess að endurvekja starfsemi veðdeildarinnar og fyrst og fremst með það fyrir augum að vinna gegn húsnæðiseklunni og þeim vandkvæðum, sem henni eru samfara.

Í bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem Framsfl. hefur átt bæjarfulltrúa, er það svo, að á heilu kjörtímabili, 1946–50, flutti þessi bæjarfulltrúi Framsfl. þar enga einustu till. í húsnæðismálunum á öllu kjörtímabilinu til þess að greiða úr húsnæðiseklunni, en það eina, sem hann var við þau mál riðinn, var tillöguflutningur um að lækka bein framlög bæjarsjóðs til húsbygginga í Reykjavík. Núverandi bæjarfulltrúi Framsfl. hefur þó við og við í seinni tíð verið að flytja till. í húsnæðismálunum, sem hins vegar geta ekki skoðazt nema sýndartillögur, þegar maður verður var við það á hinu leytinu, hvaða hugarfari kaupstaðarbúar og Reykvíkingar mæta hér á Alþ. frá framsóknarmönnum og annars staðar, þar sem fulltrúar Framsfl. hafa ráðið og haft nokkur völd. Ég minni á byggingu Bústaðavegshúsanna hér í Rvík, sem er eitt stærsta átak í byggingarmálunum á síðari árum til þess að greiða fyrir almenningi til að eignast eigin íbúðir. Í þeim málum þurftu sjálfstæðismenn að standa í harðri baráttu við fulltrúa Framsfl. í fjárhagsráði, sem til lengstu laga vildu sporna við því, að Reykjavíkurbær fengi fjárfestingarleyfi til þess að hrinda þessu máli úr höfn, Reykjavík bað þá um fjárfestingarleyfi fyrir 200 íbúðum, en það vildu framsóknarmenn í fjárhagsráði þá takmarka við 40 íbúðir, og allan innflutning á byggingarefni á þessum árum, sementi og járni, vildu þeir tefja svo sem framast mátti verða, líklega með sömu forsendu og ég lýsti áðan eða því hugarfari, að þeir töldu þá, að það væri ósæmilegt frá alþjóðarsjónarmiði að leyfa nýbyggingar í Reykjavík til almennra íbúða.

Til þess að stemma stigu við húsnæðiseklunni hér í Reykjavík, fyrir utan þær beinu aðgerðir til að fjölga hér íbúðum, kemur náttúrlega fyrst og fremst til greina að breyta þeirri þróun mála, sem verið hefur, og snúa fólksstraumnum úr dreifbýlinu til Reykjavíkur aftur út til dreifbýlisins, senda eitthvað af þessum húsnæðisleysingjum í kjördæmi Páls Þorsteinssonar, hv. þm. A-Sk., og þm. Rang., meðflm., og vita, hvort þeir mundu ekki vera liðtækir í því að sjá þeim farborða. En sannleikurinn er sá, að Sjálfstfl. hefur fyrr og síðar — og ekki sízt í núverandi ríkisstj. — tekið höndum saman við Framsfl. í stórmerkum málum, sem einmitt miða að því að gera sveitir landsins byggilegri, eins og því máli, sem hér hefur verið til meðferðar á þinginu, stórauknum framlögum til raforkuframkvæmda, svo kallaðri rafvæðingu landsins. Enn fremur hefur Sjálfstfl. staðið með Framsfl. á undanförnum árum í hverju einasta af stærstu og helztu þjóðþrifamálum landbúnaðarins, sem miða að sama marki. Það er þess vegna næstum því furðulegt, hversu mikið ofurkapp fulltrúar Framsfl. leggja á það að koma í löggjöf ákvæðum varðandi húsnæðismál kaupstaðabúanna, vitandi það, að því er fyrst og fremst stefnt gegn Reykvíkingum og það er gegn vilja meiri hluta kjósendanna í Reykjavík, það er gegn ráðum þeirra manna, sem nú fara með meirihlutavald í bæjarstjórn Reykjavíkur að nýafstöðnum kosningum og er langsamlega stærsti flokkurinn og með um 50% kjósendanna að baki sér.

Ég hef áður lýst því hér á þingi í sambandi við vissa þætti húsaleigulaganna, að ég hef enga trú á þeim þvingunarráðstöfunum, sem í þeim voru og afnumdar voru, til þess að leysa þau vandkvæði, sem hér er um að ræða. Sannleikurinn er sá, að alveg eins og hin gömlu lögþvingunarákvæði húsaleigulaganna urðu þess valdandi, að það varð minna framboð á húsnæði til leigu heldur en ella hefði verið, þá er það skoðun mín, að meðferð þessa máls, flutningur þess hér og ofurkapp það, sem Framsfl. hefur lagt á framgang þess í blöðum sinum og á þingi, sé þegar farið að hafa alvarleg áhrif á framboð leiguhúsnæðis, og það mundi þeim mun fremur, ef þetta frv. yrði að lögum, eins og nú standa sakir, draga úr framboði leiguhúsnæðis, alveg með sömu rökum eins og hin eldri lögþvingunarákvæði gömlu húsaleigulaganna gerðu.

Ég vil þess vegna alvarlega vara menn við því að hrapa að því ráði að samþykkja þetta frv. eins og það nú liggur fyrir. Ég vil ekki á þessu stigi málsins gera sérstakar athugasemdir um þau almennu ákvæði þessa frv., sem fjalla um réttarsamband leigusalans og leigutakans, eins og ég vék að áðan.

Í hv. Ed. var gerð tilraun til þess, að ákvæði þessa frv., ef samþykkt yrðu, skyldu ná til sveitarfélaga, en ekki aðeins til kaupstaða og kauptúna, sem hefðu 500 íbúa eða fleiri. Það er næsta óskiljanlegt, að þeir, sem staðið hafa að þessu máli, snúist öndverðir gegn því, að þessi ákvæði heimildarkaflanna skuli einnig taka til annarra sveitarfélaga, sem hafa 499 íbúa eða færri. Ég vil þess vegna leyfa mér að freista þess að vita, hvort þroski hv. þm. í Nd. er ekki ívið meiri en hv. efrideildarmanna, með því að taka upp brtt. þess efnis, og leyfi mér að flytja hana skriflega. Það er brtt. við 48. gr., að hún orðist svo:

„Þegar mikil húsnæðisekla er í sveitarfélagi, getur sveitarstjórn ákveðið með sérstakri samþykkt, að koma skuli til framkvæmda í sveitarfélaginu að einhverju eða öllu leyti ákvæði þessa kafla.“

Þessi till. er flutt sem varatill., ef til þess kæmi, að maður sæi fram á það við atkvgr., að þetta mál ætti hvort eð er fram að ganga, og því fylgja þá aðrar till., sem leiðir af þessari brtt., þ. e., að orðið „bæjarfélagi“ í 4. málsgr. 49. gr. verði „sveitarfélagi“ — og orðin „kaupstöðum og kauptúnum“ í 5. málsgr. sömu greinar verði „sveitarfélögum“ — og í þriðja lagi, að orðin „kaupstað eða kauptúni með 500 íbúa eða fleiri“ í 70. gr. verði „sveitarfélagi“. Efnislega er þetta ein og sama brtt.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins, nema frekara tilefni gefist, orðlengja um þetta, en leyfi mér að leggja fram þessa till. og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.