23.02.1954
Neðri deild: 52. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

148. mál, Sogsvirkjun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram frv. ásamt hv. 6. þm. Reykv. um lántökuheimild og ríkisábyrgð til virkjunar Efri-Fossa við Sog og sé þessi heimild bæði um lántöku og ábyrgð til handa stjórn Sogsvirkjunarinnar.

Ég hef að vísu flutt hér áður á þingi, og það mun liggja í n. nú, frv. um að heimila ríkisstj. að taka lán, allt að 90 millj. kr., í þessu skyni, og ég mun koma nokkru nánar inn á ástæðuna til þess, að ég nú flyt þetta frv. sérstaklega. Sú till., sem ég þá flutti, var í allstóru frv., sem hér var lagt fram og mjög margþættar framkvæmdir eru í. Það frv. liggur enn þá í nefnd, og ég veit nú ekki, hvenær það kemur úr henni, en í öllu falli veit ég, að um ýmislegt í því frv. mundu geta orðið nokkrar deilur og mismunandi skoðanir. Hins vegar hef ég kosið að taka þetta mál sérstaklega út úr og ásamt hv. 6. þm. Reykv. flutt það nú í þessu formi, sem það liggur fyrir. Ég skal taka það um leið strax fram, að þegar ég orða þarna stjórn Sogsvirkjunarinnar, þá geri ég það með tilliti til þess, sem ég síðar mun reyna að rökstyðja, að það sé, eins og sakir standa nú, heppilegast að veita henni þessa heimild, og geri ég það ekki, þó að ég sé sjálfur meðlimur í stjórn Sogsvirkjunarinnar, í samráði við stjórn Sogsvirkjunarinnar í heild, heldur án þess að hafa rætt við hana um það.

Ég held ég þurfi ekki að eyða neinum orðum að því, hvílík nauðsyn sé á því fyrir Reykjavík og Suðvesturland yfirleitt, að hafizt sé handa nú í ár, ekki seinna en í sumar, um virkjun efri fossanna við Sogið. Það er búið að ræða það mál hér oft, og ekki sízt kom það greinilega fram í ýmsum umræðum í síðustu bæjarstjórnarkosningum, að það væri alveg óhjákvæmilegt fyrir Reykjavík og allt Suðvesturland, að komin yrði upp ekki síðar en árin 1956–57 þriðja virkjunin, þ. e. virkjunin við efri fossana í Soginu. Það er vitanlegt, að ef það er ekki — og jafnvel áður en að því ári kæmi, þá getur verið komið næstum „katastrófu“-ástand hér í Reykjavík hvað rafmagnið snertir, en „katastrófu“-ástand kalla ég það, ef það verður að fara annaðhvort að skammta aftur rafmagnið eða þá að það verður að fara að setja olíustöðina inni við Elliðaár í gang og keyra hana svo og svo mikinn hluta sólarhringsins og framleiða kwst. á 30, 40, 50 aura í nettókostnaði, þegar áburðarverksmiðjunni er selt samsvarandi á rúman einn eyri. Það er þess vegna að öllu leyti alveg óhjákvæmilegt, að þessi virkjun sé til eftir 2–3 ár, og hún verður það ekki, nema því aðeins að það fáist heimild nú á þessu þingi og sé hægt að vinna í því undireins að útvega þetta lán.

Ég vil enn fremur taka það fram, eins og ég hef áður gert, að frá hendi stjórnar Sogsvirkjunarinnar er það náttúrlega óþolandi ástand að vera af ríkisstj. knúin til þess að gera samning við áburðarverksmiðjuna um 15 ára sölu á rafmagni með ákveðnu verði, án þess að hafa tryggingu fyrir því að vera búin að koma upp þriðju Sogsvirkjuninni innan þriggja ára Það er óþolandi ástand fyrir Sogsvirkjunina og hennar eigendur, ríkið og Reykjavíkurbæ, að standa lögfræðilega ábyrg fyrir því, þó að þau geti raunverulega ekki verið siðferðilega ábyrg, að láta áburðarverksmiðjunni í té rafmagn eða þá hins vegar að verða að standa frammi fyrir því að skammta rafmagnið við áburðarverksmiðjuna þannig, að hennar framleiðsla meira eða minna eyðileggist. Ég vil aðeins minna á þetta, ég ætla ekki að endurtaka það, ég hef svo oft minnzt á þetta hér áður, og því hefur ekki verið á móti mælt, að það sé alveg nauðsynlegt, að þriðja virkjunin við Sogið sé kláruð ekki seinna en 1956–57.

Þá er hitt, sem er aðalatriðið, og það er spurningin um getuna til að fá lán. Það liggja nú þegar fyrir nokkurs konar bráðabirgðaáætlanir um þriðju virkjun Sogsins, þar sem rætt er um, að hún muni kosta 90–100 milljónir, og þess vegna er upphæðin miðuð við það.

Hæstv. ríkisstj. gaf út yfirlýsingu, þegar hún tók við, þar sem hún sagði, að hún mundi vinna að því að reyna að útvega lán til þriðju virkjunar Sogsins. En hún tók fram í þeirri yfirlýsingu, að a. m. k. tvennt mundi ganga á undan, annars vegar lán til sementsverksmiðju, hins vegar lán að upphæð um 100 millj. kr. eða allt að því til raforkuvera úti um land, og þá sérstaklega til Austur- og Vesturlands, sem skortir alveg tilfinnanlega rafmagn. Með þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. var þess vegna raunverulega sagt: Útvegun láns til Reykjavíkurbæjar eða til Sogsvirkjunarinnar verður af hálfu ríkisstj. látin sitja á hakanum fyrir þessu tvennu. — Þó að ríkisstj. náttúrlega ekki að neinu leyti annars skorti vilja til þess að vinna að því að útvega lán handa Sogsvirkjuninni, þá er það hennar álit, að þetta tvennt verði að ganga á undan, og ég ætla engan veginn og síður en svo að deila á það.

Nú mun ríkisstj. þessa fimm mánuði, sem hún hefur setið að völdum, hafa verið nokkuð að athuga um sinn gang í þessum málum. Og árangurinn af fimm mánaða setu ríkisstj. og umhugsun hennar um þessi mál liggur fyrir í yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. í morgun, yfirlýsingu, sem gefin er í Morgunblaðinu og ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í. Hann segir um sementsverksmiðjumálið, að „samkv. beinni uppástungu minni,“ segir þarna orðrétt, „hefur því verið samþ. í ríkisstj., að eftir þessu ákvæði stjórnarsamningsins skuli ekki farið, heldur tekið tillit til breyttra aðstæðna og fjár aflað til annarra stjórnarframkvæmda, eftir því sem auðið þykir.“

Að vísu er þetta ekki mjög nákvæm yfirlýsing, en af henni virðist þó a. m. k. mega ráða, að það sé nokkur snurða hlaupin á þráðinn viðvíkjandi sementsverksmiðjumálinu, — ég veit ekki, hvaðan sú snurða kemur, hvort hún kemur t. d. vestan að, hvort það hafi þurft að spyrja um leyfi til þess að fá lán, og það fæst nú kannske skýrt, hver snurðuna hefur sett á þráðinn, — þá virðist a. m. k., að nokkur frestur muni verða viðvíkjandi lánamálinu til sementsverksmiðjunnar. En þó er þetta það óljóst orðað, að e. t. v. gæti þetta líka verið öfugt og hugsað væri um að afla þessa fjár með einhverju öðru móti, þannig að það kæmi kannske fram í þessum umræðum. Ég vil þó skjóta því fram, að ég vil leyfa mér að vona, að hæstv. ríkisstj. sé ekki að tengja þá samninga, sem núna standa yfir, um endurskoðun hernámssamningsins, við neinar lánaumleitanir um þessi mál, sementsverksmiðjuna eða raforkumálin, og ég vil leyfa mér að vona, að þessi yfirlýsing, sem nú kemur allt í einu fram, á meðan þessir samningar standa yfir, standi ekki í neinu sambandi við endurskoðun þessa samnings. Hins vegar væri það mjög æskilegt, að þegar svona yfirlýsingar eru gefnar frá hæstv. forsrh., þá sýni hann Alþ. þá virðingu að leyfa Alþ. stundum að heyra svona hluti, áður en þetta kemur í hans flokksblaði. Það virðist þó að einhverju leyti liggja nær, að hæstv. ríkisstj. léti Alþ. fylgjast með, hvernig gengur með uppfyllingar á hennar loforðum, og léti ekki bara flokksblöðin flytja þetta, án þess máske einu sinni að ríkisstj. sé þá sjálf til staðar á Alþingi til þess að gefa alþm. nánari skýringar á þessu.

Þá segir hæstv. forsrh. enn fremur í þessari yfirlýsingu, sem birt er í Morgunblaðinu í morgun, eftirfarandi viðvíkjandi lántökunum til raforkuframkvæmda, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi raforkuframkvæmdirnar sérstaklega er það að segja, að Landsbankinn hefur tekið tillögum ríkisstj. um fjáröflun til þeirra treglega, og hefur stjórnin enn þá ekki ákveðið, hvort hún á þessu stigi málsins vill setja löggjöf um þessa fjáröflun, enda þótt það kynni að vera á móti vilja Landsbankans, eða hvort reynt skuli að afla alls þess fjár, sem þarf til fyllstu framkvæmda á þessu ári, og þess síðan freistað að ná heildarsamkomulagi við Landsbankann og aðra íslenzka banka, en leggja frv. um endanlega lausn málsins fyrir Alþ. á komandi hausti.“

Svo segir hæstv. forsrh. Mér skilst sem sé, að það mál sé nú þegar komið á dagskrá í ríkisstj., hvort það eigi að fresta að leggja fram frumvörp um endanlega lausn á raforkumálunum þar til næsta haust. Það er eftirtektarvert, að þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh. skyldu ekki koma fyrir bæjarstjórnarkosningar. Þá var ákaflega mikið um það talað, hve gífurlegan vilja ríkisstj. hefði í þessum efnum, og ekki sízt borgarstjórinn í Reykjavík gaf yfirlýsingar um það, hve óhætt Reykvíkingum væri að treysta því algerlega, að ekki aðeins hefði ríkisstj. góðan vilja, heldur hefði ríkisstj. og líka mikinn mátt, sem hún vissulega hefur, því að náttúrlega hefur ríkisstj., sem hefur meiri hluta hér á Alþ. á bak við sig, ekki neinar afsakanir fram að færa um, hvernig gangi að semja við einhverjar stofnanir ríkisins. Það er ekki til neins að vera að bjóða alþm. upp á slíkt. Og hvað snertir það, sem þarna er talað um Landsbankann, þá hefur nú ríkisstj. upp á síðkastið fyrst og fremst talað við okkur um Framkvæmdabankann, sem hún hefur sjálf afhent mótvirðissjóðinn, þannig að hún getur ósköp vel ráðstafað þessum málum eins og henni þóknast og hefur enga afsökun fram að færa í sambandi við þessi mál.

Nú vil ég hins vegar leyfa mér að segja það, fyrst ríkisstj. á í þessum erfiðleikum viðvíkjandi raforkuframkvæmdum og lánum til þeirra úti um land, til fjórðunga, sem þurfa þess eins mikið með og Austurland og Vestfirðir, að ég álít, ef ríkisstj. á í svo miklum erfiðleikum með lán til raforkuframkvæmda fyrir þessa fjórðunga, sem vissulega þurfa þeirra með, að það komi fyllilega til mála, að Reykjavíkurbær geti klárað sín mál sjálfur, án þess að ríkisstj. þurfi að vera að útvega lán handa Reykjavíkurbæ eða Sogsvirkjuninni. Og ég álít a. m. k., að fyrir Reykjavík og Suðvesturland sé það svo brýnt, að ráðizt sé í virkjun Sogsins nú þegar í ár og engin töf verði þar á, að svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess nú þegar að segja, að meðan þetta þing stendur muni hún útvega þetta lán, þá sé betra að gefa Sogsvirkjunarstjórninni réttinn og valdið til þess að vinna að því að útvega lánið og hefja virkjunina. Ég álít, að það væri algerlega ófært, ef frumvörp um raforkuframkvæmdirnar fyrir Austurland og Vestfirði ættu að bíða til hausts og leggjast fyrst fyrir Alþ. eftir 9. okt. í haust og frv. um lántöku handa Soginu ætti að koma þar á eftir. Ég álit, að sá dráttur yrði alveg óþolandi og allt of dýr. Þess vegna hef ég flutt frv., og það er að mínu leyti ekki skoðað sem neitt vantraust á ríkisstj., heldur þvert á móti sem aðgerð til að reyna að hjálpa henni í þeim erfiðleikum, sem ég þykist vita að hún eigi í, m. a. í sambandi við að útvega þeim fjórðungum, sem ég nefndi áðan, það, sem þeir þurfa til framkvæmdanna, — þá álít ég, að það sé rétt og nauðsynlegt, að Alþ. ræði nú, hvort ekki væri rétt að gefa stjórn Sogsvirkjunarinnar heimild til þess að taka lán innanlands og utan.

Ég verð að segja það, að hæstv. ríkisstj. og ríkisvaldið hefur ekki beinlínis verið neinn léttur baggi að bera í sambandi við þær virkjanir, sem framkvæmdar hafa verið. Og sannleikurinn er, að ríkisstj. og hennar afskipti þarna hafa orðið ægilegur baggi á Sogsvirkjuninni. Sogsvirkjunin sjálf upp frá og leiðslurnar hingað niður eftir kostuðu 165 millj. kr. Ríkisstj. tók í söluskatt og aðra tolla af vélunum til Sogsvirkjunarinnar yfir 20 millj. kr., sem sé í beinan gróða til sín af vélunum til Sogsvirkjunarinnar. Enn fremur tekur ríkisstj., og það er það eina, sem fer fram úr áætlun í sambandi við Sogsvirkjunina, 9 millj. kr. í vexti af því fé, sem hún lánar, bara meðan verið er að byggja Sogsvirkjunina sjálfa, — 9 millj. kr. í vexti, með þeim okurvöxtum, sem ríkisstj. ákvað með lögum hér á Alþ., sem ég barðist mjög mikið hér á móti að sett væru á og ríkisstj. lætur reikna allan þennan virkjunartíma, án þess að nokkurn tíma hafi verið gengið út frá því í virkjuninni og þveröfugt við allt, sem menn höfðu gert sér vonir um. Það eru um 30 millj. kr., sem ríkisstj. í söluskatti, tollum og vöxtum, meðan á byggingunni stendur, hefur tekið af þeim 165 millj. kr., sem kostaði að koma upp Sogsvirkjuninni. Það er anzi langt gengið. Og ég vil skjóta því til þeirra hv. þm., sem af eðlilegum ástæðum hafa sérstakan áhuga á að koma upp virkjunum og að þeim sé hraðað fyrir ýmis byggðarlög, ekki sízt eins og Austurland og Vestfirði, að það er anzi hart fyrir þau fátæku byggðarlög að verða að greiða tugi milljóna króna bara í söluskatt og þannig gróða til ríkisstj. af vélum til þessara fjórðunga, ef það ástand er látið haldast áfram.

Ég held nú þess vegna með tilliti til þess —og ríkisstj. hefur ekki fengizt til að breyta neinu í þessu — þá ætti ríkisstj. að láta sér nægja að taka 15–20% af virkjunarkostnaðinum á Íslandi í gróða til sín og vera ekki að skipta sér af því meira, að fólkið á þessum stöðum fái lán. Ég álít sem sé, að Reykjavíkurbær og eigendur Sogsvirkjunarinnar geti aflað sér sinna lána sjálfir. Nú er að vísu ríkið meðeigandi í Sogsvirkjuninni, og undarlegur meðeigandi, því að öll afskipti ríkisvaldsins þannig hafa aðeins komið fram í því, að ríkið hefur heimt til sín stórfé af Sogsvirkjuninni, en ekki lagt sjálft fram einn einasta eyri til hennar. Ég álít þess vegna, að það sé lífsspursmál, að í þessu tilfelli bæjarfélag Reykjavíkur fái leyfi til þess — og þá ríkið — að reyna sjálft um lán til Sogsvirkjunarinnar. Ég vil í því sambandi minna á, að ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að þegar Ljósafossstöðin var reist, þá gerði Reykjavíkurbær það einn og var einn eigandinn. Það var á krepputíma, og það var ekki ríkisábyrgð, a. m. k. var það ekki upphaflega, vegna þess, eins og menn muna, að 1934 setti Hambros Bank bann á það, að ríkisstj., sem þá settist að völdum, fengi að veita ríkisábyrgðir fyrir slíku. Þess vegna varð fyrst viðvíkjandi hitaveitunni og Sogsvirkjuninni að vinna að því án ríkisábyrgðar, þótt að lokum hafi svo fengizt ríkisábyrgð fyrir nokkru af þessu. En ég álít, að við stöndum betur að vígi en við stóðum þá. Okkar aðstaða er öll betri efnahagslega en þá var fyrir okkur, þegar hitaveitan og Sogsvirkjunin voru í undirbúningi, og þess vegna er gefið, að nú ættu að vera möguleikar á því fyrir okkur að útvega þetta lán til handa Reykjavíkurbæ og Sogsvirkjuninni, án þess að ríkisstj. þyrfti endilega að hafa þar milligöngu.

Ég veit, að það er eitt, sem kemur mjög mikið til greina í þessu sambandi, og það eru spursmálin um gjaldeyrisgreiðslurnar. Af 90100 millj. kr. virkjunarkostnaði við efri fossana í Soginu mundi líklega útlendi gjaldeyririnn vera milli 45 og 50 millj. kr. Það mun láta nærri að vera upphæð, sem samsvarar því, sem fjórir af togurum bæjarútgerðar Reykjavíkur geta framleitt á einu ári, ef þeirra fiskur væri allur saman unninn hér innanlands. Reykjavíkurbæ mundi þess vegna ekki, ef hann að einhverju leyti fengi að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem togarar hans afla, verða nein skotaskuld úr því meira að segja sjálfum að standa ábyrgur fyrir því að láta í té gjaldeyrinn, sem þyrfti til þess að borga erlendis þær vélar, sem teknar væru að láni. Ég álít þess vegna, að svo framarlega sem ríkið að sínu leyti veitir ríkisábyrgð, þá mundi vera hægt fyrir stjórn Sogsvirkjunarinnar og Reykjavíkurbæ að útvega sér sjálf lán til þessara hluta. Og ég álít, að það sé nauðsynlegt, að þetta sé reynt. Ég geri þetta ekki endilega vegna þess, að ég viti ekki, að svo framarlega sem ríkisstj. ynni að þessu, þá mundi þetta vafalaust ganga fljótar, — ég veit, að það er lítill vandi fyrir ríkisstj., ef hún einbeitti sér að því, að útvega slíkt lán, ef hún hefði fullan vilja á því. En ríkisstj. er búin að lýsa því yfir, að hún láti flest annað ganga á undan, og það liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstj., að það séu dálitlir erfiðleikar með þetta tvennt, sem eigi að ganga á undan. Ég álít hins vegar, að virkjun efri fossanna og það að byrja hana þoli ekki bið. Þess vegna álít ég, að það væri ekki nema rétt, að Reykjavíkurbær og stjórn Sogsvirkjunarinnar reyndu fyrir sitt leyti að útvega þessi lán. Auðvitað þyrfti ríkissjóður, sem líka er þarna meðeigandi að sínu leyti, að ábyrgjast, en starfið að því að útvega lánin mundi þá hverfa til þessara opinberu stofnana.

Ég tek ekki Sogsvirkjunina neitt sérstaklega út úr hvað þetta snertir. Ég álít, að þetta ætti ekki að vera neitt einstætt dæmi. Ég vil satt að segja lýsa því yfir, að ég álit, að það væri heppilegt, að bæjarfélögin á Íslandi fengju meira frelsi en þau hafa haft til þess að mega vinna að því að útvega lán erlendis og taka lán erlendis til nauðsynlegra framkvæmda, ekki sízt framkvæmda, sem skapa gjaldeyri, eða að öðru leyti í þarfar og nauðsynlegar framkvæmdir. Frá því að l. voru sett út af Bretton Woods samningunum, sem bönnuðu bæjarfélögunum eða opinberum stofnunum að taka lán, án þess að ríkisstj. samþykkti það, hafa verið lögð alveg óhæfilega — liggur mér við að segja — mikil höft á bæjarfélögin í þessu skyni, og ég veit, að það eru nú þegar vel stöndug bæjarfélög í landinu, sem gjarnan vildu vinna að því að útvega sér lán einmitt til aukinna framkvæmda, bæði arðbærra framkvæmda og framkvæmda, sem gæfu gjaldeyri, ég veit, að þau geta fengið lán erlendis, og það stendur aðeins á því, að ríkisstj. leyfi þeim að taka lánin. Ég held þess vegna, að það sé óheppileg stefna, sem framkvæmd hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstj., að hefta svo frelsi bæjarfélaganna, sem eru að reyna að auka hjá sér framleiðslu, eins og gert hefur verið. Við munum það allir, sem þekkjum til dálítið fyrir það, að haftatíminn skall á hjá okkur 1934, að allan þann tíma, þ. e. fyrsta þriðjung aldarinnar, er það algengt fyrirbæri, að bæjarfélögin á Íslandi taki lán erlendis með eða án ríkisábyrgðar, t. d. í Danmörku, til hinna og þessara framkvæmda hjá sér og hafi fengið jafnvel lán til margra áratuga — stundum með sæmilegum kjörum — og flest þessara lána eru nú borguð upp, en sum mun jafnvel enn þá verið að greiða. Það er þess vegna alveg gefið, að það hefur verið stórkostleg lyftistöng fyrir ýmis bæjarfélög á landinu, sem hafa verið að brjótast í þeim miklu erfiðleikum, sem þau eiga í, að hafa frelsi til þess að taka lán. Ekki sízt þegar um er nú að ræða einmitt, að venjulega eru þetta um leið bæjarfélögin, sem framleiða mestan gjaldeyrinn sjálf og taka máske einmitt lánin til þess að útvega sér framleiðslutæki, þ. e. togara eða báta, þá virðist nú satt að segja, að frelsi bæjarfélaganna mætti gjarnan vera nokkuð mikið hvað þetta snertir.

Ég álít þess vegna, að þessi till., sem hérna liggur fyrir, ef hún næði samþykki, ætti ekki að vera neitt sérstakt undanlát af hálfu ríkisvaldsins gagnvart Reykjavíkurbæ og Sogsvirkjuninni, með tilliti til þess, að Reykjavíkurbær sé auðugasti bærinn í landinu og sá, sem hefur náttúrlega langsamlega mesta möguleika þess vegna til lánsöflunar. Ég álít þvert á móti, að það ætti að fara inn á þá leið að leyfa bæjarfélögunum að reyna að bjarga sér sjálf meira með þessu móti og ekki hvað sízt þeim bæjarfélögum, sem nú eiga sjálf t. d. togara og bæjarútgerðir, framleiða sjálf heilmikinn gjaldeyri og geta þess vegna sjálf að mörgu leyti staðið ábyrg fyrir þeim gjaldeyrislánum, sem tekin væru. Sannleikurinn er, að miðað við þá miklu framleiðslu, sem við höfum, Íslendingar, þá eru allar þessar rafvirkjanir og það, sem við þurfum til þeirra í útlendu fé, svo hlægilega lítið, að það er satt að segja undarlegt, að nokkur ríkisstj., sem nokkurn vilja hefur á að vinna eitthvað í þessum efnum, skuli standa uppi í vandræðum með þetta. Það var gert hér á nýsköpunarárunum það eina skynsamlega, sem hægt var að gera til þess að leggja grundvöll að því, að hægt væri að vinna af viti að byggingu raforkuvera á Íslandi, og það var að kaupa nógu mikinn fiskiflota handa Íslendingum, til þess að við gætum framleitt þann gjaldeyri, sem nauðsynlegur var til þess, að við gætum keypt vélarnar í okkar raforkuver. Og hver einn af okkar nýsköpunartogurum getur framleitt, ef unnið er úr því í fiskiðjuverunum hér innanlands, fyrir yfir 11 millj. kr. á ári, og þá sjáum við, að við erum ekki lengi að vinna fyrir þeim gjaldeyri, sem við þurfum til þess að reisa raforkuverin, svo framarlega sem við notum rétt þau framleiðslutæki, sem við höfum. Ég vil ekki sízt benda á það þeim hv. þm., sem ég veit að bera alveg sérstaklega fyrir brjósti sín heimkynni í þessum efnum, ekki sízt eins og Austurland og Vestfirði, að bara togararnir, sem gerðir eru út frá þessum stöðum, eru ekki lengi að afla þess gjaldeyris, sem þarf til þess að reisa raforkuverin á þessum stöðum.

Við þurfum ekki að betla um neitt gjafafé í raforkuverin á Íslandi, og við þurfum ekki heldur að fara að gera neina samninga nú, ef hæstv. ríkisstj. væri að hugsa um það, neina niðurlægjandi samninga, til þess að útvega okkur lánsfé í slíku sambandi. Við höfum fulla möguleika til þess að vinna okkur fyrir þessu sjálfir, og við höfum fulla möguleika til þess að taka lán erlendis og fá lán erlendis án allra pólitískra skilyrða í þessum efnum. Meðan hins vegar hæstv. ríkisstj. heldur þessu eingöngu í sínum höndum og aðrir fá ekki aðstöðu einu sinni til þess að reyna, þá fást staðreyndirnar ekki fram í dagsljósið, þá fæst ekki úr þessu skorið.

Þess vegna þætti mér mjög vænt um, ef hæstv. ríkisstj., ekki sízt út frá yfirlýsingu hæstv. forsrh., vildi segja okkur nokkuð hér á Alþingi, hvernig til stendur með þessi mál. Ég býst við, að það sé mikill áhugi hjá þm. að heyra nánar um þetta heldur en í tilkynningu til Morgunblaðsins. En ég vildi enn fremur, ef hæstv. ríkisstj. ekki nú við þessa umr. málsins treystir sér til þess að gefa þá yfirlýsingu, að hún muni sjá til þess, að auk þeirra mála, sem hún hefur sagt að ættu að ganga á undan Sogsvirkjunarmálinu, — auk þess sem það væri í lagi, þá mundi hún sjálf sjá um, að þessi heimild til þriðju virkjunar Sogsins yrði afgreidd nú á þinginu, — þá vildi ég leyfa mér að óska þess, að hæstv. ríkisstj. gæti orðið mér sammála um að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, og gefa stjórn Sogsvirkjunarinnar — og það þýðir Reykjavíkurbæ og ríkinu sem eigendunum — réttinn til þess að leita sjálf eftir því að fá lán í þessu skyni.

Ég verð að segja, að það er ákaflega hart, ef ekki er hægt að fá hæstv. ríkisstj. til þess að ræða þessi mál hér á þinginu. Ég veit, að það eru ekki önnur mál, sem meira er hugsað um heldur en þessi lánsfjármál, bæði þessi hvað snertir raforkuna og fleiri, og ríkið er sá aðili, sem ákveður alla lánspólitíkina. Það er enginn einkabanki hér í landinu að neinu leyti, sem hefur nokkur áhrif þar um. Ríkið sjálft ákveður að öllu leyti lánspólitíkina, sem rekin er, þannig að það er ríkisstj. og ríkisstj. ein, með því valdi, sem hún hefur á Alþ., sem ræður því, hvert lánað er. Hún þarf ekkert að segja neitt við okkur um það. Það er hér, sem„ það er ákveðið, hvort þessir bankar eru til eða ekki. Þeir eru ekki til öðruvísi en samkvæmt l. frá Alþ., og þeir starfa ekki öðruvísi. Og hvað snertir það, sem snýr að gjaldeyrishliðinni, þá er það sannarlega ekki mál, sem ætti að standa í Íslendingum að ráða við, eins og ástandið er nú í landinu. Það er þess vegna raunverulega það minnsta, sem við þm. getum heimtað af hæstv. ríkisstj., að hún segi okkur hér, hvernig stendur um þessi mál, og svo framarlega sem við getum ekki fengið að vita, — og það vildi ég segja a. m. k. fyrir mína hönd og okkar flm. sem þm. Reykv., — ef við getum ekki fengið að vita, hvort útlit muni vera fyrir, að ríkisstj. sjálf geri ráðstafanir til þess, að á þessu þingi verði samþ. frv. um lánsheimild viðvíkjandi Sogsvirkjuninni, þá álít ég, að það eigi að samþ. þetta frv., sem við nú höfum lagt hér fyrir.

Ég vil svo leyfa mér að lokinni þessari umr. að óska þess, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.