04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

159. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Aðalrök Samábyrgðarinnar fyrir þessum breytingum á lögunum eru þau, eins og kom fram í athugasemd hennar með frv., að skipin hafa farið stórum stækkandi á undanförnum áratug eða á undanförnum 16 árum, síðan lögin voru samþykkt. Og þar sem talið er nauðsynlegt að hafa skyldutryggingu á öllum fiskiskipum á stærðinni að 100 smálestum, er ekki nema eðlilegt, þegar skipin fara stækkandi, að lágmarksákvæðið sé einnig hækkað. Ég tel því, að óskir Samábyrgðarinnar í þessum efnum séu eðlilegar, og það er skoðun mín, að það muni vera fiskiskipaflotanum í heild til góðs, að þessi hækkun eigi sér stað. Og ég svara því enn til, að þar sem það er í lögunum, að það sé skylda að tryggja hvern dekkaðan bát upp að 100 smálestum, þá er ekkert óeðlilegt, þar sem skipin fara stækkandi, að lágmarksákvæðið sé hækkað upp í 150 smálestir, eins og farið er fram á í þessu frv.

Það má ef til vill lengi deila um það, hvort það sé rétt að hafa skyldutryggingar. En ég held, að þeir menn, sem bezt eru kunnugir þessum málum, álíti, að það mundi horfa til vandræða, ef Samábyrgðin og þau ábyrgðarfélög, sem eru starfandi innan hennar, störfuðu ekki með þeim hætti, sem nú á sér stað. Ef þetta væri allt á frjálsum markaði, þá mundi sýna sig, að minni skipin mundu sæta margfalt lakari tryggingarkjörum en þau eiga nú við að búa, margfalt erfiðari, svo að ég vil enn taka það fram, að ég tel hér stefnt í rétta átt fyrir heildina með þeirri breytingu á lögunum, sem frv. kveður á um.