24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2862)

108. mál, vegastæði milli Siglufjarðar og Skagafjarðar

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. þá, sem hér er til umr. og er á þskj. 190, þar sem lagt er til, að Alþ. feli ríkisstj. að láta athuga, með hvaða hætti Siglufirði verði helzt komið í varanlegt vegasamband við Skagafjörð, og að athugun þessari verði lokið fyrir 1. okt. 1954.

Fjvn. hefur leitað um mál þetta álits vegamálastjóra, og hefur hann mælt með því, að þessi athugun færi fram. Að vísu telur hann ljóst, að það muni verða hér við margvíslega erfiðleika að etja og þegar á sínum tíma hafi verið rannsakað vegarstæði milli Siglufjarðar- og Skagafjarðar, þá hafi ekki verið talið fært að fara þá leið, sem sérstaklega er vikið að í grg. þáltill., heldur hafi verið það úrræði tekið, sem mönnum er kunnugt, að vegur var lagður yfir Siglufjarðarskarð. En reynslan hefur sýnt, að þessi vegur kemur að mjög litlu haldi og er aðeins opinn mjög stuttan tíma ársins, oftast ekki nema tvo til þrjá mánuði yfr hásumarið, þannig að af þessu eru ákaflega takmörkuð not fyrir Siglufjörð, sem vitanlega hefur þess mikla þörf að komast í vegasamband við sveitir Skagafjarðar og suður yfir, því að samgöngur einar á sjó eru auðvitað, eins og nú er háttað málum, algerlega ófullnægjandi. Það er vitanlegt, að síðan þessi vegur var lagður, hafa ýmsar umbætur orðið og nýjar leiðir opnazt varðandi vegalagningu. Af þeim sökum telur vegamálastjóri, að vel geti komið til mála, að rétt sé að athuga þessa leið að nýju, og tiltækilegt kynni að verða, þótt það yrði vitanlega allkostnaðarsamast, að leggja slíkan veg með þeim tækjum, sem nú er yfir að ráða, og af þeim sökum sé eðlilegt, að það verði kannað á nýjan leik, hvort tiltækilegt væri að leggja leiðina út fyrir Stráka, sem kallað er, en það mun vera sú leið, sem höfð er í huga með flutningi þessarar þáltill.Fjvn. vill fyrir sitt leyti mjög stuðla að því, að þessi athugun fari fram, og mælir með því einróma, að till. verði samþykkt.