05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2889)

59. mál, héraðsrafmagnsveitur ríkisins

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta er búið að liggja lengi fyrir. Það var afgreitt frá n. 16. des. fyrra árs, en sökum veikinda minna hefur það ekki verið tekið fyrir fyrr en nú.

N. athugaði þessa till. alveg sérstaklega og leitaði um hana umsagnar raforkumálastjóra ríkisins. Umsögn raforkumálastjóra til n. er dagsett 7. des. Í henni er tekið fram, að fastagjaldið af súgþurrkunarhreyflum sé ætlað til þess að hamla gegn því, að notaðir séu óhæfilega aflmiklir hreyflar, sem geti valdið truflunum á stólpaspennistöðvum og afltoppum aðalspennistöðva. Af þessu er augljóst, að aðalástæðan fyrir fastagjaldinu er ekki fyrir hendi, þegar um afllitlar vélar er að ræða, sem er langalgengast, t. d. 6 kw. eða minna, og þess vegna sér n. ekki, að það sé nokkur ástæða til þess að knýja notendur til þess að greiða jafnhátt fastagjald og gert er með þeirri reglugerð, sem nú gildir, af minni vélum, sem geta ekki valdið neinum slíkum truflunum. Eðlilegast telur n. þess vegna, að þessum notendum væri samkvæmt gjaldskránni gefinn kostur á að velja um, hvort þeir borguðu hóflegt fastagjald ásamt lágum taxta á kwst. eða eitthvert hærra gjald fyrir kwst. og þá ekkert fastagjald, og það færi þá eftir því, hve mikið ætti að nota hreyfilinn, hvern kostinn menn veldu. Loks getur raforkumálastjóri þess í bréfi sínu, að í undirbúningi sé gagnger endurskoðun á gjaldskrá héraðsrafveitna, og virðist þess vegna ekki úr vegi, að þessi ákvæði, sem hér er sérstaklega vikið að, séu endurskoðuð, og leggur n. því einróma til, að till. verði samþ.