12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

198. mál, fiskveiðasjóður

Frsm,. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja nú til viðbótar því, sem ég sagði, þegar ég reifaði hér þetta mál.

Þessari till. hefur verið vel tekið og um hana rætt allmikið, og skal ég ekki fara út í þær umr. Það var aðeins mjög leiður misskilningur, sem kom hér fram á því, sem í till. þessari felst, hjá hv. 5. landsk. (EmJ), sem ég vildi leiðrétta. Hann sagði sem sé, eins og rétt er, að í lögum um fiskveiðasjóð er, heimildin til lántöku bundin við 4 millj. kr., og hann lagði, að því er virtist, þann skilning í þessa till., að þó að hún væri samþ., þá væri ekki til þess ætlazt, að hærra lán yrði tekið. Þetta er ákaflega mikill misskilningur og mjög einkennilegt, að honum skuli skjóta upp hjá hv. þm., m. a. af því, að í greinargerð þeirri, sem till. fylgir um þetta efni, er svo að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það mun vera nauðsynlegt samhliða þeirri ákvörðun, sem tekin yrði með samþykkt þessarar till., að breyta samtímis lögunum um fiskveiðasjóð á þann veg að hækka verulega þá heimild til lántöku sjóðnum til handa, sem þar er nú.“

Það er að sjálfsögðu meining þessarar till., að það þurfi að auka mjög verulega þá lánsheimild, sem í lögunum felst nú, ef á að mæta þeirri miklu eftirspurn, sem er eftir stofnlánum og ég gerði hér grein fyrir í fyrradag, þegar ég reifaði þetta mál, að mikil og rík og brýn þjóðarnauðsyn væri á að gerðar yrðu ráðstafanir á þessu þingi til að mæta. Ég býst við því, að það þyrfti að minnsta kosti að margfalda þessa upphæð með fjórum eða það þyrftu að vera fjórum sinnum 4 millj., sem sjóðnum áskotnuðust til sinnar starfsemi núna næstu árin, og er það miðað við þær miklu umsóknir, sem fyrir sjóðnum liggja nú, og þá breytingu, sem orðin er um aðstöðu til bátaútgerðar í landi þessu, eins og ég gerði hér grein fyrir í gær.