10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2953)

206. mál, togaraútgerðin

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lét í frumræðu sinni orð falla eitthvað á þá leið, að sumir kynnu að telja, að ríkisstj. legði fram þessa þáltill. til þess að firra sig ámæli og koma af sér vanda. Ég hygg, að það verði ekki bara sumir, sem segi þetta, heldur verði það almannarómur, að þetta sé heldur klaufaleg tilraun til þess að firra hæstv. ríkisstj. ámæli og koma vanda af sér og á aðra aðila.

Það eru nú komnir fullir tveir mánuðir, ef ég man rétt, síðan þessum málum var fyrst hreyft hér á Alþ. og hæstv. forsrh., sem jafnframt er sjútvmrh., að því spurður, hvað ríkisstj. hefðist að til þess að afstýra stöðvun togaraflotans. Þá minnir mig, að hæstv. ráðh. léti í það skína, að ríkisstj. væri að hugsa um að setja menn þá þegar til þess að rannsaka greinargerðir og skýrslur togaraeigenda. Ég man, að hann taldi upp í því sambandi ýmsa ágæta menn sem hann hefði hugsað sér að fá í slíka nefnd. Tíminn hefur liðið síðan. Sú nefnd hefur ekki verið skipuð. Nú er komið fast að þinglokum, og þá er lagt til að skipa hér mþn. til þess að athuga málið, þegar fyrir liggja beinar yfirlýsingar frá togaraútgerðarmönnum, að togararnir verði stöðvaðir innan skamms, ef ekki séu gerðar stórfelldar ráðstafanir þeim til aðstoðar, og þegar er farið að leggja togurum, og vikulega bætist í hópinn. Það er augljóst mál, að verði þessi till. samþ. án annarra aðgerða, þá er ekkert hægt að gera af þingsins hálfu, löggjafans hálfu, til þess að breyta um eða bæta aðstöðu togaraeigenda, fyrr en næsta þing kemur saman, sem er yfirleitt ekki gert ráð fyrir að verði fyrr en á næsta hausti. Þetta er svarið við þeim yfirlýsingum, sem ég hygg að séu gefnar í fullri alvöru, að togaraflotinn verði stöðvaður hvað úr hverju og væntanlega að fullu í maílok, eins og einn forstöðumaður togaraútgerðar orðaði það hér áðan. Því segi ég, að þetta er heldur klaufaleg tilraun til þess að firra sig ámæli. Hér er ekki bent á eina einustu leið sérstaklega, sem sé rannsóknarefni, síður en svo.

Mér er ekki fullkunnugt um, hvað sérstaklega muni valda því, ef togararnir stöðvast nú þegar hver af öðrum, hvort það er fyrir skort á rekstrarfé, hvort það er fyrir vanskil á áföllnum greiðslum eða hvort það er aðeins mat á afkomuhorfum, sem veldur þessu. Um ekkert af þessu hefur hæstv. ráðh. upplýst nokkurn skapaðan hlut. Ég veit, að það hefur nokkrum sinnum verið til þess gripið, þegar haldið hefur við stöðvun hjá ákveðnum atvinnugreinum, að veita þeim „moratorium“ ákveðinn tíma, þannig að ekki væri hægt að ganga að þeim til greiðslu á kröfum og þannig stöðva rekstur þeirra. Ég veit ekki, hvort svo er ástatt um togarana, að það sé af slíkum ástæðum, sem þeir kunna að stöðvast nú, en hæstv. ríkisstj. hefði a. m. k. ástæðu til að kynna sér það, og þá mætti afstýra þeim voða með einföldum ráðstöfunum um að lögbjóða greiðslufrest á ákveðnum kröfum eða jafnvel öllum kröfum, ef það þætti nauðsynlegt. Slíkt hefur verið gert bæði fyrir landbúnaðinn, að ég held tvisvar sinnum, og fyrir bátaútveginn a. m. k. þrisvar sinnum, sem ég man eftir, einmitt til þess að afstýra stöðvun. Ég veit ekki, hvort þetta mundi duga. Það mundi duga, ef vandræðin stafa af þessum sérstöku ástæðum, sem ég nú hef nefnt.

Auk þess, að samþykkt þessarar till. er engin lausn á málinu, þá virðist mér till. sjálf svo úr garði gerð, að það sé auðséð, að það sé ekkert með henni meint. Hún er með talsvert óvenjulegum hætti. Nefndinni eru engin tímatakmörk sett. Nefndinni er ekki sagt, að hún eigi að skila neinum skýrslum. Verkefni hennar er talið í fyrstu málsgr. að athuga hag togaraútgerðarinnar. Í annarri málsgr. segir, með leyfi hæstv. forseti: „Sjái nefndin að lokinni rannsókn ástæðu til, skal hún benda á úrræði, sem hún telur að megi verða útgerðinni að einhverju gagni.“ Ríkisstj. á ekki að koma þarna neitt til sögunnar. Ef nefndin kynni að verða skipuð þannig, að hún sæi ekki nein úrræði. sem hún teldi að mundu verða að gagni, þá er ekkert að gera. Setjum svo, að nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti breytta löggjöf, ákvarðaða af Alþ., til þess að gera nokkuð, sem að gagni kæmi, þá getur hún að vísu bent á það, en það mundi þá kosta að kalla saman aukaþing, geri ég ráð fyrir, ef til slíkrar aðgerðar ætti að koma.

Ég mundi telja, að það væri fyllsta ástæða til þess, ef þessi till. er samþ., sem út af fyrir sig sennilega enginn verður á móti, þá segi hún nokkru nánar fyrir um verkefni n., setji því henni ákveðin takmörk. Eftir þeim yfirlýsingum, sem fyrir liggja nú, mætti það ekki vera seinna en um miðjan maí, sem hún ætti að hafa lokið sínu starfi, því að ekki er æskilegt, að togaraflotinn sé allur stöðvaður. Enn fremur teldi ég ástæðu til að taka fram, hvert hún á að skila sinni skýrslu, og ef ástæða þætti til, hvaða afbrigði hún skyldi rannsaka sérstaklega af þeim, sem hér hafa verið nefnd, við skulum segja t. d. olíuverð, vaxtakjör og annað slíkt.

Ég tók ekki eftir því, að hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því, að þessi till. færi til nefndar. Samkvæmt þingsköpum verða um hana tvær umr., og þetta er sú fyrri. Ég verð að segja það, að mér finnst fyllsta ástæða til þess, að þessi till. fari til nefndar og þar verði athugað orðalag hennar, hvort ekki væri rétt að marka nokkru skýrar verkefni nefndarinnar, þannig að nokkru ákveðnari sjónarmið kæmu fram heldur en finnanleg eru í þessari ályktun eins og hún er nú. Ég tók ekki eftir, að hæstv. ráðh. gerði till. um nefnd. Ég leyfi mér því að gera það að till. minni, að till. verði vísað milli umr. til hv. allshn.