19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3094)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Til skamms tíma var það skoðun flestra hér á landi, að við Íslendingar gætum haldið okkur algerlega utan við styrjaldarátök annarra þjóða. Á þessari skoðun byggðist hlutleysisstefnan, sem mörkuð var með sambandslögunum árið 1918.

Hlutleysisstefnan átti sér eðlileg rök bæði í legu landsins og fámenni þjóðarinnar, auk þess sem Íslendingar höfðu ekki svo öldum skipti vanizt vopnaburði.

Hinar stórfelldu framfarir á sviði samgöngumálanna, sem með ári hverju minnka fjarlægðina, ef svo má að orði komast, hafa fyrir okkur Íslendinga og raunar alla aðra leitt af sér gerbreyttar aðstæður frá því, sem áður var. Ekkert þjóðríki jarðarinnar getur nú lengur haldið sér einangruðu frá heiminum í skjóli fjarlægða og sízt af öllu í ófriði, ef ófyrirleitinn árásaraðili hagnýtir sér fullkomnustu tækni til þess að ná settu marki. Stríðandi herveldi getur á örskömmum tíma beint nokkrum morðtækjum sínum að fjarlægustu þjóðum og leitt yfir þær tortímingu, ef engar varnir eru fyrir hendi.

Þetta breytta viðhorf hefur ekki hvað sízt valdið röskun á högum okkar Íslendinga, röskun, sem við urðum fyrst verulega varir við í síðari heimsstyrjöldinni.

Fátt skiptir meiru í ófriði en greiðar samgöngur, að styrjaldaraðilar geti á sem allra skemmstum tíma flutt til lið og vistir og eins og nú er háttað úr einu landinu í annað, frá einni heimsálfunni til annarrar. Af þessu leiðir, að vegna legu sinnar úti í miðju hafi sem miðja vegar á milli tveggja meginlanda er Ísland nú tvímælalaust eitt af þýðingarmestu löndum Evrópu í ófriði.

Í heimsstyrjöldunum tveimur, sem hrjáð hafa mannkynið á þessari öld, fóru fram gífurlegir flutningar á mönnum og varningi frá Vesturheimi til Englands og norðurstranda Rússaveldis. Í bæði skiptin var allt gert, sem í mannlegum mætti stóð, til þess að hindra þessa flutninga. Að það tókst ekki, réð tvímælalaust úrslitunum í báðum styrjöldunum. Segja má, að verulegur hluti af þessum flutningum hafi farið um hlaðvarpann hjá okkur Íslendingum. Í fyrri styrjöldinni var samgöngutæknin ekki komin lengra áleiðis en það, að ógerlegt var fyrir styrjaldaraðila að ná fótfestu á Íslandi nema með herskipum. Þar sem brezki flotinn var þá allsráðandi á Atlantshafinu, gerðu Þjóðverjar ekki tilraun til árásar á Ísland, en bækistöðvar hér hefðu reynzt þeim ómetanlegar í baráttu við skipalestir vesturveldanna.

Í síðari heimsstyrjöldinni var viðhorfið í þessum efnum gerbreytt. Þá var framkvæmanlegt að hertaka Ísland úr lofti. Vörn brezka flotans var ekki lengur einhlít til þess að tryggja öryggi landsins. Eins og kunnugt er, vildu Bretar þá ekki hætta á, að Þjóðverjar yrðu fyrri til, og hernámu því landið. Meðan styrjöldin geisaði, höfðu Bretar og Bandaríkjamenn hér herstöðvar, sem auðvelduðu mjög baráttuna við kafbáta möndulveldanna. Á því er ekki minnsti vafi, að þýzkar bækistöðvar á Íslandi hefðu mjög torveldað flutninga yfir hafið frá Ameríku og því dregið styrjöldina á langinn.

Eins og kunnugt er, hefur samgöngutækninni enn fleygt fram nú síðustu árin, og þróuninni á því sviði virðast engin takmörk sett. Öllum ætti því að vera ljóst, sem raunhæft líta á hið nýja viðhorf, að einangrun Íslands frá umheiminum er nú lokið fyrir fullt og allt. Forsendan fyrir því, að við Íslendingar getum í skjóli einangrunar haldið okkur utan við styrjaldarátök stórþjóðanna, er því einnig brostin fyrir fullt og allt.

En hið nýja viðhorf hefur í engu breytt því meginatriði, að við Íslendingar erum enn sem fyrr hin sama friðelskandi þjóð, sem þráir það eitt að geta lifað í sátt og samlyndi við allar aðrar þjóðir. Að við teljum okkur ekki lengur skjól í hlutleysisyfirlýsingum, leiðir ekki af hugarfarsbreytingu, heldur af því, að kringumstæðurnar sjálfar og fengin reynsla hefur opnað augu okkar fyrir þeirri staðreynd, að ef til styrjaldar dregur á nýjan leik milli stórveldanna, verða óskir og vonir Íslendinga um að mega standa fyrir utan hildarleikinn að engu hafðar. Engum viti bornum manni á að geta blandazt hugur um, að komi til átaka, þar sem barizt verður um líf eða dauða milljónanna, muni styrjaldaraðilar láta sér í léttu rúmi liggja frómar óskir 150 þús. sálna hér uppi á Íslandi um að fá að vera í friði. Það er og jafnaugljóst, að vegna þýðingar landsins í hernaði muni árásaraðili gera tilraun til þess að ná hér fótfestu, en af því leiðir, að algert varnarleysi Íslands hlýtur beinlínis að bjóða hættunni heim.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu, varnarsamtökum hinna vestrænu lýðræðisríkja, hafði yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna gert sér grein fyrir þeim aðstæðum og hinu nýja viðhorfi, sem ég hef nú lýst. Ákvörðun þjóðarinnar leiddi af því, að úr því að þess var ekki lengur nokkur kostur að lifa í friði, ef til styrjaldar drægi milli stórveldanna, að úr því að hlutleysið átti sér ekki lengur stoð í veruleikanum, eins og reynslan hafði sýnt, þá ættum við Íslendingar nú ekki annars úrkosti en að velja okkur stöðu í hinum tvískipta heimi, ef við vildum á raunhæfan hátt leitast við að tryggja öryggi landsins. Og þegar svo var komið, var Íslendingum valið auðvelt, valið milli einræðis og ofbeldis annars vegar og jafnréttis og frelsis einstaklinga og þjóða hins vegar. Valið var á milli þess, sem allir sannir og óspilltir Íslendingar afneita í hjarta sínu, og þeirra hugsjóna, sem á sínum tíma stuðluðu að byggð Íslands og síðan hafa ríkt í vitund og geði þjóðarinnar, hugsjóna, sem frjálsir menn kjósa fremur að deyja fyrir en lifa án, eins og komizt hefur verið að orði.

Um það leyti, sem vér Íslendingar gengum í Norður-Atlantshafsbandalagið, vonuðu menn, að til þess þyrfti ekki að koma, að hér yrði erlendur her á friðartímum. En skömmu síðar sáust nýjar, uggvænlegar blikur á lofti, og að því kom, að ófriðarbálið brauzt út. Eldurinn gaus að vísu upp fjarri ströndum landsins, en Íslendingar höfðu sem aðrir fengið þá reynslu, að ófriðarbál getur brotizt út með margþúsundföldum hraða eldsins í sinunni.

Þegar svo óvænlega horfði um friðinn í heiminum og enginn vissi, hvaða hörmungar morgundagurinn kynni að færa, tóku Íslendingar mjög að ugga um sinn hag. Menn gerðu sér ljósa þá hættu, sem vofði yfir óvörðu landi, er vegna legu sinnar hlaut að verða hugsanlegum árásaraðila eftirsóknarverð bráð. Fulltrúar þjóðarinnar í ríkisstj. og Alþingi tóku þegar í stað að bera saman ráð sín um það, hvernig snúast ætti við hættunni og tryggja frekar öryggi landsins. Niðurstaða umræðnanna, er fram fóru á milli lýðræðisflokkanna um þetta mikla vandamál, varð sú, eins og kunnugt er, að gerður var um það samningur við Bandaríki Norður-Ameríku, að þau tækju að sér varnir landsins fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins.

Enginn þarf að ætla, að einn einasti þeirra þjóðarfulltrúa, sem ákvörðun tóku um varnarsamninginn við Bandaríkin, hafi gengið þess dulinn, að margvísleg vandkvæði hlaut að leiða af dvöl erlends varnarliðs í landinu. En þá var sem fyrr, að Íslendingar urðu að velja eða hafna. Vegna versnandi ástands í alþjóðamálum treystust fulltrúar þjóðarinnar ekki lengur til að taka á sig ábyrgðina á að hafa landið með öllu varnarlaust, ef til styrjaldar drægi í Norðurálfu. Þeir völdu þann kostinn fremur að mæta erfiðleikunum, sem óhjákvæmilega mundu hljótast af sambúðinni við varnarliðið, en að bjóða hættunni heim með því að hafa hér engar varnir. Í þessu máli áttu allir lýðræðisflokkarnir samleið, og allir fulltrúar þeirra á Alþingi fylgdust að sem einn maður.

Á það má benda, að raunverulega ber ekki að sakast við íslenzk stjórnarvöld vegna þeirra óþæginda, sem leiðir af dvöl erlends varnarliðs í landinu, heldur miklu fremur við þann aðilann, sem ábyrgð ber á ófriðarhættunni í heiminum. Ég á þar við einræðisríkið í austrinu, sem með ofríki hefur brotið á bak aftur frelsisþrá og sjálfstæði hverrar smáþjóðarinnar af annarri. Þetta sama stórveldi hefur með yfirgangi sínum knúið lýðræðisríkin til þess að bindast varnarsamtökum, og það er eingöngu vegna máttar þessara samtaka, að sigurganga kúgunarinnar hefur nú verið stöðvuð.

Vandkvæðin á dvöl varnarliðsins í landinu hafa ekki komið neinum á óvart. Þau eru mikil og margvísleg, eins og fyrir fram var vitað, þótt þau séu hvergi nærri eins mikil og fimmta herdeild Íslendinga og þjónar hennar vilja vera láta. Að sjálfsögðu hafa stjórnarvöldin allt frá öndverðu leitazt við að draga úr erfiðleikunum, sem stafað hafa af vist varnarliðsins, um leið og þeir hafa komið í ljós, og miklu fengið áorkað í þeim efnum, og auðvitað verður þeirri viðleitni haldið áfram. Allir góðviljaðir Íslendingar vona, að með því að hagnýta sér þá reynslu, sem fengizt hefur í samskiptunum við varnarliðið, megi enn takast að draga úr þeim vandkvæðum, sem vist þess hefur í för með sér, og þeirri röskun í þjóðlífinu, sem rekja má til þess. Ber mönnum að sjálfsögðu að stuðla að því, að allar slíkar tilraunir stjórnarvaldanna beri sem mestan og skjótastan árangur.

Þetta sem ég hef sagt, hlýtur að vera sjónarmið Íslendingsins í málinu. Hitt má svo engum koma á óvart, þótt fimmta herdeildin og þeir, sem etja kappi við hana um kjörfylgi „hinna nytsömu sakleysingja“, haldi áfram sinni fyrri baráttu. Það er jafneðlilegt, að þeir, sem telja Sovétríkin sitt eiginlega föðurland og miða allar sínar gerðir og tilburði við hagsmuni hins alþjóðlega kommúnisma, leitist við að gera varnarsamtök hinna frjálsu þjóða sem tortryggilegust, sem hitt, að þeir, sem ekki vilja búa við algert andvaraleysi, geri sitt til þess, að allt fari sem bezt úr hendi í varnarmálunum.

Milli þessara tveggja sjónarmiða hefur verið, er og verður barátta um stöðu og varnir Íslands, meðan lítt breyttar aðstæður ríkja í heimsmálunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega einstaka liði þeirrar till. til þál., sem hér er til umr. Ég vil bæta þessu við: Till. er hvorki merkari né ómerkilegri en önnur þau plögg, sem andstæðingar varnarsamtaka hinna frjálsu þjóða hafa lagt fram hér á hæstv. Alþingi og miða að því einu að þyrla upp sem allra mestu moldviðri um varnarmálin. Engan undrar framferði og ábyrgðarleysi kommúnistaleiðtoganna í þessum efnum. Þeir hafa annarlegra hagsmuna að gæta og óttast meir aðra húsbændur en íslenzku þjóðina. En marga furðar óneitanlega, að til skuli vera menn og jafnvel hér á Alþingi Íslendinga, sem viðurkenna ekki hina austrænu fjötra, en stefna þó vitandi vits að því að setja framtíð og frelsi þjóðarinnar í voða af þjónkun við sömu hagsmuni og kommúnistar bera fyrir brjósti.

Ein meginuppistaðan í áróðri kommúnista og fylgifiska þeirra hefur verið sú að gera þá menn sem tortryggilegasta í augum þjóðarinnar, sem mest afskipti hafa haft af varnarmálunum. Með látlausu niði og tilhæfulausum ósannindum er ætlunin að gera þessa menn óalandi og óferjandi í vitund þjóðarinnar. En mestur hluti landsmanna, sem raunhæft hugsar um þessi mál, veit betur og tekur ekkert mark á orðum þeirra. Almenningsálitið hefur þegar hér á landi sem annars staðar fordæmt allar aðferðir og tilgang kommúnista, og sá dómur mun ekki mildast. Og að því kemur fyrr en varir, að hinir grímuklæddu fylgismenn kommúnismans, hverju nafni sem þeir nefna sig, geta ekki lengur dulizt fyrir kjósendunum í landinu og verður skipað þar á bekk, sem þeir eiga heima.

Einn af þeim mönnum, sem vegna starfa síns fyrir íslenzku þjóðina hafa hvað mest orðið fyrir niði kommúnista, er Bjarni Benediktsson dómsmrh. Það var einmitt gæfa okkar Íslendinga á örlagaríkum tímum, að við áttum jafnmikilhæfum manni og Bjarna Benediktssyni á að skipa í sæti utanríkisráðherra. Og það er einmitt það, sem kommúnistum gremst mest.

Góðir Íslendingar. Til þessa hefur frelsisþráin og samúðin með varnarbaráttu lýðræðisaflanna í heiminum ráðið gerðum okkar. Er við gengum í Norður-Atlantshafsbandalagið, skipuðum við okkur í fylkingar hinna frjálsu og lýðræðisunnandi þjóða. Með því mikilsverða skrefi vildum við tryggja bæði okkur sjálfa og nágrannaþjóðir okkar fyrir hugsanlegri árás. Á viðsjárverðum tímum tók þjóðin á sig vandkvæði sambúðar við erlend varnarlið í því skyni að freista þess að tryggja enn frekar öryggi og sjálfstæði landsmanna. Ákvörðunin um herverndina var ekki tekin vegna breytts hugarfars eða breyttra skoðana Íslendinga á hernaði, heldur vegna ástands í heimsmálunum, sem íslenzka þjóðin sjálf hafði ekki átt minnsta þátt í að skapa. Með herverndarsamningnum staðfestu og viðurkenndu íslenzk stjórnarvöld þá sannfæringu yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, að algert varnarleysi landsins á róstutímum byði hættunni heim.

Flutningsmenn þeirrar till., sem hér er til umr. og fjallar um að vísa varnarliðinu úr landi, hafa hvorki í grg. fyrir till. né í málflutningi sínum komið með nein þau rök, sem leiði til þess, að nú sé ástæða til þess að breyta stefnunni, sem á sínum tíma var mörkuð í varnarmálunum af öllum fulltrúum lýðræðisflokkanna á Alþingi. Fyrir þessari till. mun því liggja að falla og flm. hennar hljóta þann sóma af málatilbúnaðinum, sem efni standa til.