11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

37. mál, smíði fiskibáta innanlands

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 39 till. til þál. um smíði fiskibáta innanlands. Till. er í tveim liðum. Fjallar fyrri liðurinn um litla, opna vélbáta, svonefnda trillubáta, en síðari liðurinn um stærri fiskibáta.

Það er alkunna, að áður en togarar og önnur stórvirk veiðiskip, íslenzk, en þó einkum erlend, spilltu aflabrögðum á grunnmiðum hér við land, voru litlir vélbátar farsælar fleytur og komu oft með góðan feng að landi. Eftir að hófst sú ördeyða á mörgum fiskislóðum, sem áður voru aflasælar, sem ógnaði svo mjög sumum útgerðarstöðvum og byggðarlögum, að við landauðn hefur legið, þvarr mjög öll smábátaútgerð og lagðist sums staðar niður með öllu. Nú er viðhorfið að því leyti breytt vegna hinnar stækkuðu fiskveiðilandhelgi, að aftur eru menn farnir að gera sér rökstuddar vonir um, að fiskgengd á grunnmið fari nú smám saman vaxandi. Margir eru ekki í neinum efa um það, að friðunarinnar er þegar tekið að gæta á sumum veiðisvæðum, og verður þó vonandi betur síðar. Í sambandi við þessi breyttu viðhorf hefur aukizt stórlega áhugi manna víðs vegar um land á útgerð lítilla, opinna vélbáta. Þess eru allmörg dæmi, að gamlir bátar, sem lengi hafa legið aðgerðarlausir og oft umhirðulitlir, hafa verið dregnir á flot, sumir dubbaðir eitthvað upp, aðrir næsta lítið. Er það raunar fullkomið alvörumál og áhyggjuefni að því leyti, að sjósókn á gömlum og lélegum fleytum er mjög áhættusöm, enda veit ég dæmi þess, að slíkir bátar hafa nú nýlega reynzt með öllu ófærir til sjósóknar, þegar til átti að taka, og naumlega tekizt að forða slysum, hafi það þá alltaf tekizt. Ég býst jafnvel við, að vaxandi útgerð smábáta mundi gera nauðsynlegt, að settar yrðu fastari reglur en nú virðast gilda um skoðun og eftirlit með þess konar fleytum, en séu þær reglur til, þá verði þeim a. m. k. betur framfylgt en nú virðist gert. Ég sá raunar í dagblöðum fyrir skömmu auglýsingu frá skipaskoðunarstjóra, þar sem eigendur trillubáta eru kvaddir með báta sína til skoðunar, og er það vel, hefði raunar mátt vera fyrr. En eitthvert allra öruggasta ráðið til þess að draga úr slysahættu af þessum sökum, jafnhliða ströngu eftirliti, sem sjálfsagt er, er það, að þeim mörgu mönnum, sem nú hafa hug á að sækja sjó á smábátum, sé gert kleift að eignast nýja og góða báta. Reynslan hefur sýnt, að útgerð smábáta gefur ágæta raun, þegar afli bregzt ekki á grunnmiðum. Stofn- og rekstrarkostnaður slíkra báta er að jafnaði lítill, en útgerð þeirra oft næsta arðvænleg. Bátar, sem róa á grunnmið og koma daglega með feng sinn að landi, afla hinnar beztu og verðmætustu sjávarvöru, veita verkafólki góða atvinnu og hafa oft verið einhver helzta lyftistöng margra sjávarþorpa. Hefur hv. þm. S-Þ. lýst því allgreinilega hér á Alþ. um daginn, hvert gagn sjávarþorpum getur verið að slíkri smábátaútgerð, og tek ég undir röksemdir hans.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, mun mega gera ráð fyrir, að opinn vélbátur af hentugri stærð kosti fullbúinn um 60 þús. kr. Mundu því 200 slíkir bátar kosta um 12 millj. kr. Þegar tekið er tillit til þess, að 200 báta floti mundi veita atvinnu á sjó og í landi um 800 manns, getur þetta engan veginn talizt há upphæð. Það fer að sjálfsögðu eftir aflabrögðum, hve miklum verðmætum 200 opnir vélbátar gætu skilað árlega í þjóðarbúið, en líkur benda til, að það verði á hverju ári til muna hærri upphæð en öllum stofnkostnaði nemur.

Þeir menn, sjómenn og aðrir, sem hug hafa á smábátaútgerð, eru fæstir svo efnum búnir, að þeir geti án aðstoðar keypt eða látið smíða nýja báta, einkum þegar þess er gætt, að lán út á slíka báta eru nú lítt eða jafnvel alls ekki fáanleg.

Skal ég þá fara örfáum orðum um síðari lið till., en þar er fram á það farið, að gerðar verði af opinberri hálfu ráðstafanir til smíði tuttugu allstórra fiskibáta. Er hér raunar um algert lágmark að ræða, ef Íslendingar ætla að halda við fiskibátaflota sínum, en að sjálfsögðu þyrfti hann heldur að aukast í stað þess að rýrna, eins og hann hefur gert nú hin síðustu ár. Innflutningur erlendra báta er að sjálfsögðu algert neyðarúrræði, og ber margt til þess. Útlendir fiskibátar, þótt nýir séu, hafa yfirleitt reynzt verr en íslenzkir bátar. Íslendingar gera meiri kröfur um styrkleika báta, frágang allan og gæði en flestar þjóðir aðrar. Íslenzku vetrarverðin eru grimm, og hér er sjór sóttur af miklu kappi, ekki sízt á vetrarvertíð. Hinir erlendu bátar eru ekki miðaðir við aðstæður hér. Þeir eiga ekki yfirleitt við íslenzkan veðraham. Íslenzkar báta- og skipasmíðastöðvar hafa margsýnt, að þær geta smíðað ágæta báta, sem reynast vel í vetrarveðrum hér við land. Það er einnig veigamikið atriði í þessu sambandi, að sjávarútveginum er það brýn nauðsyn, að hér á landi séu sem flestar og beztar bátasmíðastöðvar, svo að þær geti annað hinu mikla viðhaldi og viðgerðum, sem flotinn þarfnast á hverjum tíma, en reynslan hefur sýnt, að því aðeins getur þetta mikilvæga verkefni orðið vel af hendi leyst, að skipaviðgerðarstöðvar hafi einnig með höndum nýsmíðar báta og skipa til að vinna að á þeim tímum árs, þegar skipaviðgerðir eru litlar. Með því móti einu, að þetta tvennt haldist í hendur, viðgerðir og nýsmíðar, er skipasmíðastöðvum kleift að gegna sínu mikilvæga hlutverki svo sem nauðsyn ber til.

Fiskibátar, smíðaðir hér á landi, hafa, eins og ég áðan sagði, yfirleitt líkað vel. Þeir hafa þann mikla kost vegna vandaðs frágangs og styrkleika, að viðhald þeirra er minna og ódýrara en hinna erlendu báta, sem oft hafa þurft að fá gagngerða viðgerð, jafnvel þegar á öðru og þriðja ári. Reynslan hefur því orðið sú, að þrátt fyrir nokkru hærri smíðakostnað íslenzku bátanna hafa þeir raunverulega orðið kaupendum ódýrari en erlendir bátar. Innflutningur gamalla báta frá útlöndum er fullkomið óyndisúrræði, og ætti að minnsta kosti að gera ráðstafanir til þess, að ekki verði framhald þar á. Þær ráðstafanir eru að sjálfsögðu í því fólgnar að auðvelda smíði fiskibáta innanlands, og í því skyni er þessi þáltill. fram borin.

Ég hef ekki gert sérstakar till. um það, hvaða aðferð yrði viðhöfð til að leysa fjárhagshlið þessa máls, hvort heldur það yrði gert með eflingu fiskveiðasjóðs, sérstöku fjárframlagi í þessu skyni til stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands ellegar með enn öðrum hætti. Ætla ég hæstv. ríkisstj., ef til kemur, að velja þar um leiðir. Sú viðbára, að fé sé ekki til, ekki fáanlegt, er fánýt. Vissulega er hægt að afla þess og vissulega verður að afla aukins fjár til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Þeir fjármunir koma væntanlega fljótlega aftur í auknu atvinnulífi, aukinni framleiðslu.

Ég legg svo til, að þessari till. verði að lokinni fyrri umr. vísað til fjvn.