09.12.1953
Efri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla nú ekki að segja mörg orð um þetta frv. á þessu stigi, enda ekki tími til þess.

Þegar hæstv. ríkisstj. boðaði, að hún hefði ákveðið að leggja fjárhagsráð niður, vakti það mikinn fögnuð meðal landsmanna. Þegar lögin voru sett, voru þau borin fram, eins og menn muna, með miklu yfirlæti. Í þeim fólst glæsilegt fyrirheit um fullnýtingu allra atvinnutækja landsmanna og tryggingu atvinnu handa öllum landsbúum, sömuleiðis, að vörur skyldu fluttar inn með svo hagkvæmu verði sem hugsazt gæti og að þeir, sem selja vörur sínar með minnstri álagningu, skuli sitja fyrir leyfum o.s.frv. Þetta voru allt saman ákaflega fögur heit. Sem sagt, með stofnun ráðsins voru gefin fyrirheit ekki aðeins um trygga atvinnu í landinu og auknar framkvæmdir, heldur og um lækkaða dýrtíð. En reynslan hefur vissulega orðið önnur, því að aldrei fyrr hefur atvinnulíf landsmanna verið lagt í slíkar viðjar eins og á því tímabili, sem fjárhagsráð hefur verið starfandi, og aldrei fyrr hefur dýrtíðin vaxið með slíkum ódæmum. Fá lög hafa verið sett, sem hafa orðið óvinsælli með þjóðinni. Og nú kemur hæstv. ríkisstj., fulltrúi þeirra sömu flokka, sem báru fram lögin um fjárhagsráð á sínum tíma með þessu mikla steigurlæti, sem ég var að lýsa, og telur nú eitt helzta afrek sitt að afnema þessi sömu lög. Fallvölt er heimsins dýrð.

Frv. þetta er borið fram til þess að láta líta út eins og það sé verið að láta undan þrýstingi fólksins um að afnema fjárhagsráð og hverfa frá þeirri stefnu, sem fjárhagsráð táknar. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Reykv., að þetta frv. sé einbert hégómamál. Nafni fjárhagsráðs er breytt, fjárhagsráð er kallað innflutningsskrifstofa og skal heita það eftirleiðis. Þetta er þungamiðja málsins, auk þess sem ráðið er þrengt þannig, að stjórnarfl. eru þar nú ótvírætt einráðir. En nú eru öll fögru orðin úr lögunum um fjárhagsráð, sem ég gat um áðan, látin niður falla. Og vegna hvers eru þau látin niður falla? Vegna þess að þau eru orðin að athlægi og viðundri meðal almennings.

Það má segja, að nokkurt undanhald felist í þessu frv. Það felst þegar undanhald í þessum sýndarráðstöfunum. Það sýnir í öllu falli, að ríkisstj. gerir sér ljóst, að öll stefna hennar í efnahagsmálum, sem er nátengd lögunum um fjárhagsráð, er fordæmd af þjóðinni. Ákvæðin í 8. gr. um frelsi til íbúðarhúsabygginga af ákveðinni stærð eru líka undanhald, enda þótt mikill vafl leiki á um það, hvort þessi ákvæði losa raunverulega um hömlur á byggingu íbúðarhúsa, því að hús verða ekki byggð, nema hægt sé að fá til þess lánsfé, en nú ríkir algert bann um lánveitingar til íbúðarhúsa, eins og kunnugt er. En þetta eru þó samt sem áður allt saman nokkrir tilburðir til undanhalds.

Þá er nýmæli í 9. gr., þar sem vald Framkvæmdabanka Íslands er ákveðið með lögum, þ.e.a.s. sett einnig inn í þessi lög það vald, sem bankanum er fengið með lögunum, sem sett voru á þinginn í fyrra. Yfirstjórn efnahagsmálanna á Íslandi skal vera í höndum þess banka, einmitt vegna þess, að þessi banki ræður yfir mótvirðissjóði, og þar með eru tengslin tryggð við yfirstjórnina í Washington.