12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á þau rök hjá hv. 7. þm. Reykv., að það þurfi að fara saman, að þessir skúrar séu fluttir burt og að gerðar séu teikningar og veitt fé til nýrra bygginga hjá Alþingi. Ég sé ekki, að Alþingi þurfi að láta setja sér neina slíka kosti til þess að hreinsa þessa skúra burt af lóðum sínum. Það er mál, sem Alþingi ákveður sjálft, hvað það gerir í því efni, og þarf ekki að spyrja eigendur eða notendur þessara húsa um neitt í því efni.

Ég vil benda á, að listamannaskálinn fékk réttindi til fimm ára, ef ég man rétt, þegar hann var byggður, til þess að standa á lóðinni. Gert var ráð fyrir því, þegar sú heimild var gefin, að skúrinn eða skálinn stæði ekki lengur á lóðinni en þann tíma. Svipað er að segja með góðtemplarahúsið. Eins og ég gat um áður, þá var lóðin keypt með því skilyrði, að húsið væri flutt í burtu, en af góðvild var húsinu lofað að vera á lóðinni til bráðabirgða. Þetta hefur verið framlengt, ef svo má segja, frá ári til árs. Það vakti fyrir mér með þessari till., að flutningurinn yrði bundinn við n. k. áramót. Einnig það, að í eitt skipti fyrir öll væri skorið úr því, að þessi hús yrðu flutt í burtu og ekki væri látið viðgangast frá ári til árs og áratug eftir áratug, að þessir skúrar stæðu á lóðunum í fullkomnu heimildarleysi. Ég get vel tekið undir með hæstv. dómsmrh., að sanngjarnt væri að veita þeim frest, sem ætla mætti að þeim entist til þess að koma þessum húsum í burtu, án þess þó að sá frestur yrði svo langur, að nokkur hætta væri á því, að húsin kæmu til að standa hér annan áratug í viðbót í heimildarleysi.

Ef hv. 7. þm. Reykv. er í vandræðum með að koma þessum húsum fyrir, þá skal ég gjarnan endurtaka það, sem ég skaut að honum hér niðri áðan, að það væri þjóðráð að flytja listamannaskálann á háskólalóðina. Þar er nóg landrými sem stendur. Þar gæti hann sómt sér vel. Svo mætti taka góðtemplarahúsið og setja það í hljómskálagarðinn. Þar er líka ágætt landrými fyrir það og þar væri það í miðjum bænum, svo að ekki þyrftu þeir, sem húsið nota, að kvarta undan því.

Ég vænti, að hv. þm. taki þetta til athugunar, því að það kynni að geta leyst málið.