14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

39. mál, stóreignarskattur

Björn Ólafsson:

Hv. 3. landsk. hefur talið sér sæmandi hér úr ræðustól á þingi að gera það mjög greinilegt fyrir þingheimi, að ég hafi ekki borgað stóreignaskatt minn. Ég ætlast til, að hv. þm., ef hann vill ekki verða að minni manni, sanni þetta fyrir þeim þingheimi, í hvers áheyrn hann nú fullyrðir það. Ég lýsi þetta ósannindi frá rótum. En ef hv. þm. á við það mál, sem hæstv. fjmrh. var að skýra áðan, þá er hér allt öðru máli að gegna. En þessi hv. þm. gerir nú eins og hann er vanur, að loka augunum fyrir sannleikanum og hafa það, sem rangara er, ef það hentar honum betur í málafærslu hans. Það er ekki gott að deila við menn, sem aldrei viðurkenna sannleikann, ef hann hentar þeim ekki. Augsýnilega hentar ekki sannleikurinn í þessu máli hv. þm. Þess vegna heldur hann ekki honum á lofti, heldur hamrar blákalt það, sem rangt er í málinu, og það versta við það er, að hann veit að það er rangt, sem hann segir. Hann kemur hér upp í ræðustól og segir það, sem hann veit að er rangt, hann segir það vísvitandi. Í sjálfu sér á ekki að vera að deila við slíka menn. Það er sama og að elta skuggann sinn.

Ég hef raunverulega engu við að bæta það, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta mál. Hann sagði allt, sem þurfti að segja. Hér var um að ræða skattgreiðanda, sem reyndi að ná rétti sínum gagnvart því opinbera, vegna þess að skatturinn hafði verið ranglega á hann lagður. Hæstiréttur hefur staðfest það, að skatturinn á umrætt fyrirtæki var ranglega álagður, vegna þess að eignin lá undir kvöð. Enginn heilbrigður maður gat talið rétt að meta eignina á það verð, sem hún er metin til skattsins. Það getur vel verið, að hv. skattanefnd, ríkisskattanefnd, hafi talið sér skylt samkv. lögunum að meta slíkar eignir sem væru þær kvaðalausar, og í sambandi við þessa eign kveður hún upp þennan dóm, vegna þess að eignin hafði lóðarréttindi daginn, sem stóreignaskatturinn er miðaður við, eða 31. des. 1950. En kl. 12 um kvöldið var eignin lóðarréttindalaus, svo að hér var um eign að ræða eins og margar aðrar eignir, sem hafa komið til stóreignaskatts og voru virtar til stóreignaskatt, á miklu hærra verði en skynsamlegt eða eðlilegt var. Dómur sá, sem fallinn er í hæstarétti í sams konar máli, er út af eign, sem hafði mjög takmörkuð lóðarréttindi. Dómur hæstaréttar gengur út á það, að um slíkar eignir skuli ekki ákvæði laganna gilda, heldur skuli þær metnar að nýju með tilliti til þeirra kvaða, sem á þeim hvíla. Er það þá nokkuð einkennilegt, þótt skattgreiðandi, sem þannig er með farið, sem áður er greint, notfæri sér það ákvæði l. að mega afhenda eitthvað af hinni skattlögðu eign upp í skattinn? Ef eignin er svona mikils virði fyrir skattgreiðandann eins og skattanefndin vill vera láta, þá hlýtur hún að vera það líka fyrir ríkissjóð. Ef svo ríkissjóður heimtar fullan stóreignaskatt af viðkomandi skattgreiðanda af eign hans, sem á er sérstök kvöð, þá er ekki nema eðlileg leið, að eignin fari á fullu verði til ríkissjóðs, sem samkv. l. er skyldur að taka á móti henni.

Vegna þess áróðurs, sem hefur farið fram í vissum blöðum hér í bænum út af þessu máli, með ádeilu bæði á mig og hæstv. fjmrh., hef ég gert grein fyrir þessu máli í einu dagblaðanna í dag, svo að hið rétta mætti koma fram. Ég geri ráð fyrir því, að hver einasti maður, að undanteknum þeim tveimur mönnum hér inni, sem hafa það að atvinnu að rægja menn á slíkan hátt sem þeir hafa gert í þessu máli, muni viðurkenna og skilja, hvernig í málinu liggur. En þessir menn, sem hafa haldið uppi róginum, vilja vitanlega ekki viðurkenna það, að þeir hafa haft á röngu að standa, alveg eins og hv. 3. landsk. gerði nú í sinni ræðu.