22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

214. mál, atvinnubætur o. fl.

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. félmrh. mjög glögg og greinargóð svör við minni fyrirspurn. Að sjálfsögðu get ég ekki að svo stöddu myndað mér skoðun um það í einstöku atriðum, hver nauðsyn hafi verið á því að veita frekar þessum stöðum og þessum aðilum hjálp en ýmsum öðrum, sem enga aðstoð fengu. Skýrsla hæstv. ráðh. er fullnægjandi eins og vænta mátti af honum, sem svar við fsp. svo langt sem hún nær. En hann veitti engar upplýsingar um, hverjum hefði verið synjað um aðstoð, og getur það gefið tilefni til nánari athugunar síðar.

Mér þykir leitt, ef hæstv. ráðh. hefur tekið sér nærri þann umvöndunartón, sem hann kvað verið hafa í ræðu minni. Ég get þó ekki á það fallizt, að tónninn hafi verið sérstakur umvöndunartónn. Hitt er rétt, að ég lagði á það áherzlu, að ég teldi brýna skyldu ríkisstj., þar sem um svo sérstæðar heimildir er að ræða, að gefa við fyrsta tækifæri Alþingi skýrslu um, hvernig hún hefði notað þessar heimildir. Það hefur hæstv. ráðh. gert, glöggt og greinilega, og er ég honum mjög þakklátur fyrir það. Hitt verður að játa, að hann gaf ekki upplýsingar um þörf eða nauðsyn annarra aðila og staða, sem ekkert fengu. Um það verð ég því að leita upplýsinga annars staðar.