11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

88. mál, mannanöfn

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ætlun löggjafans, þá er hann setur lög um eitthvert efni, að þeim lögum sé framfylgt. Sú er og skylda framkvæmdavalds að sjá svo um, eftir því sem auðið er, að gildandi lagaákvæði séu framkvæmd. Hv. alþm. er vafalaust öllum ljóst, hver hætta er í því fólgin að hafa í lögum ákvæði, sem brotin eru svo að segja daglega. Vissulega sljóvgar það siðgæðis- og réttarvitund þjóðarinnar, þegar þegnarnir hafa það fyrir augum, að Alþingi setur lög, sem síðan er litið á sem hvert annað gildislaust pappírsgagn. Þarf naumast mörgum orðum að þessu að eyða.

Fyrir röskum 28 árum, vorið 1925, setti Alþingi lög um mannanöfn. Þau lög hafa verið í gildi síðan, óbreytt með öllu, að því er ég bezt veit. Lög þessi eru stutt, fremur ljós og glögg. Fyrir lagasetningu þessari beittu sér ágætir menn, sem í hvívetna báru fyrir brjósti veg og velferð íslenzkrar tungu. Fyrir þeim vakti það að stemma stigu við óþjóðlegum og afkáralegum nöfnum, sem spilla smekk manna og óprýða tunguna. Því miður hefur tekizt svo til um framkvæmd þessara þörfu laga, að mjög skortir á, að ákvæðum þeirra hafi verið framfylgt. Skal ég nú finna þessum orðum stað, eftir því sem takmarkaður tími minn leyfir.

1. gr. laga um mannanöfn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver maður skal heita einu íslenzku nafni eða tveim og kenna sig til föður, móður eða kjörföður og jafnan rita kenningarnafn sitt með sama hætti alla ævi.“

Hvernig er þessu farið? Ég fletti um daginn nokkrum kirkjubókum frá árunum 1930–44 og athugaði skírnarnöfn þar. Ég sleppti af ásettu ráði nöfnum barna, þar sem foreldrarnir voru erlendir, annar eða báðir. En af 500 nöfnum, sem ég athugaði, taldist mér svo til, að nálega 100 nöfn, eða tæpur fimmti hluti, gætu með engu móti orðið skilgreind sem íslenzk nöfn. Og þó að ég hafi ekki haft undir höndum kirkjubækur frá allra síðustu árum, 8 eða 9, hef ég enga trú á því, að þetta hafi breytzt til bóta. — Þá reyndist það ákvæði og brotið, að ekki megi skíra barn fleiri nöfnum en í hæsta lagi tveimur. Af þessum 500 skírnarnöfnum, sem ég kannaði, hétu 37 börn þremur nöfnum, 5 fjórum nöfnum og eitt hvorki meira né minna en fimm nöfnum, þar af voru tvö ónefni.

2. gr. laganna fjallar um það, að ættarnafn mætti enginn taka sér, eftir að lögin tækju gildi. Þetta ákvæði hygg ég að sé sniðgengið á þann hátt, að allmargir hafa tekið sér upp nöfn, sem þeir nota eins og ættarnöfn, þótt þau muni að vísu ekki viðurkennd í opinberum gögnum.

4. gr. laganna er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki mega menn bera önnur nöfn en þau, sem rétt eru að lögum íslenzkrar tungu. Prestar skuli hafa eftirlit með, að þessum ákvæðum sé fylgt. Rísi ágreiningur um nafn, sker heimspekisdeild háskólans úr.“

Ég leyfi mér að staðhæfa, að þessi lagagrein hefur þrásinnis verið brotin. Hvað segja hv. alþm. um nöfn eins og karlmannsnafnið Ramón, kvennanöfnin Telma, Alice, Iris, Sylvia, Evlalía, Oktavía, Bergmannía eða skírnarnöfn eins og Sísi, Lilly? Allt eru þetta skírnarnöfn frá tveim síðustu áratugum. Þannig mætti lengi telja. Má í þessu sambandi benda á nafnalista fermingarbarna, sem birtast í dagblöðum haust og vor. Þar gefur oft á að líta.

6. og síðasta grein nafnalaganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarráðið gefur út skrá eftir till. heimspekisdeildar háskólans yfir þau mannanöfn, sem nú eru uppi, sem bönnuð skulu samkvæmt lögum þessum. Skrá þessi skal send öllum prestum landsins. Skráin skal gefin út á hverjum 10 ára fresti að lokinni útgáfu hins almenna manntals.“

Skrá sú, sem samkv. l. er skylt að gefa út 10. hvert ár, hefur mér vitanlega aldrei séð dagsins ljós. Prestum landsins er því nokkur vorkunn, þótt þeir hafi ekki gengið ötullega fram til að koma í veg fyrir óíslenzk skírnarnöfn. Þeir hafa ekki haft sér til stuðnings þau gögn og þær leiðbeiningar, sem ráð var fyrir gert, að þeir fengju í hendur.

Nú skal ég ekkert um það segja, hvort einhverjum kann að þykja ástæða til að breyta gildandi lögum um mannanöfn. Vel kann að vera, að menn séu þeirrar skoðunar. Ég sé ekki þörf á því, sízt af öllu í þá átt að hliðra til fyrir erlendum nöfnum eða ónefnum. Með því væri verið að gefa spilltum málsmekk undir fótinn. En hvað sem því líður, þá tel ég víst, að hæstv. menntmrh. og hv. alþm. hljóti að vera mér sammála um það, að á meðan lög þessi eru í gildi, beri að framkvæma þau. Hitt er óviðunandi með öllu, að þau séu sniðgengin í mörgum greinum og menn fái jafnvel að haga sér eins og þau séu ekki til. Mér hefur þótt ástæða til að vekja athygli hæstv. menntmrh. á þessu og hef því leyft mér að beina til hans þeirri fsp.. hvort hann sjái sér ekki fært að láta framfylgja betur en gert hefur verið ákvæðum l. nr. 54 27. júní 1925, um mannanöfn. Vænti ég skilnings og góðra undirtekta af hans hálfu.