18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar fyrrverandi hæstv. ríkisstj. afnam nær allt verðlagseftirlit, skömmu eftir að hún kom til valda, var því lýst yfir af hæstv: fyrrverandi viðskmrh., að ríkisstj. mundi fylgjast með því og gefa almenningi kost á að fá vitneskju um, hver áhrif afnám verðlagsákvæðanna hefði á álagningu og vöruverð, og þess vegna mundi ríkisstj. sjá til þess, að safnað yrði skýrslum um álagningu og vöruverð á þeim vörum, sem frjáls álagning væri á, og þær birtar almenningi. Þetta var og gert skömmu eftir að álagningarreglurnar voru afnumdar. Af þeim skýrslum kom í ljós, að álagning hafði stórhækkað, hafði hækkað svo mikið, að um hreint verzlunarhneyksli var að ræða, enda hlaut svo að fara, vegna þess að markaðinn hungraði eftir fjölmörgum vörutegundum, sem innflutningur hafði verið takmarkaður eða jafnvel alveg bannaður á um langt skeið, og nú þegar hann var skyndilega gefinn frjáls og verðlagsákvæði jafnframt afnumin, þá hlaut svo að fara, að þetta ástand yrði notað, enda var hægt að nota það til þess að okra mjög á ýmsum þessara vörutegunda.

Skýrslur hæstv. fyrrverandi ríkisstj., sem samdar voru af verðgæzlustjóra eða á skrifstofu hans, leiddu og tvímælalaust í ljós, að svo var. Þessar skýrslur urðu mikið umræðuefni hér á Alþ. og í blöðum, en á grundvelli þeirra mátti sjá, að álagning hafði margfaldazt, oft og einatt komizt upp í mörg hundruð prósent, og að heildarálagning á þær vörur, sem ekkert verðlagseftirlit var með, einkum og sér í lagi bátagjaldeyrisvörurnar, hafði hækkað um tugi milljóna króna. Eru ýmsum hv. alþm. upplýsingar um það vafalaust í svo fersku minni, að óþarfi er að rekja einstök töludæmi um það. Þessari skýrslusöfnun og skýrslubirtingu var síðan haldið áfram um alllangt skeið. En nú hafa hins vegar liðið nokkrir mánuðir, án þess að ríkisstj. eða verðgæzlan hafi birt nokkrar opinberar upplýsingar um álagningu á þær vörur, sem verðlagseftirlit er ekki með. Gera má að vísu ráð fyrir, að álagning hafi lækkað eitthvað, kannske talsvert, síðan á fyrstu mánuðunum eftir að verðlagseftirlit var afnumið, en almenningur á kröfu á því að fá að vita, hver álagning enn er á þær vörur, sem ekki eru háðar verðlagseftirliti, og þess vegna er það, sem ég hef leyft mér að spyrja hæstv. viðskmrh., hvort enn sé safnað skýrslum um álagningu á innfluttar vörur, sem ekki eru háðar verðlagsákvæðum, svo sem byrjað hafði verið á þegar verðlagsákvæði voru afnumin. Ef þetta er ekki gert, þá spyr ég, hvers vegna því hafi verið hætt. En ef það er gert, þá spyr ég, hvers vegna þær skýrslur séu ekki birtar eða niðurstaða þeirra. Hér er um að ræða mál, sem almenningur á heimtingu á að fá fyllstu vitneskju um. Það skiptir miklu máli fyrir raunverulegan kaupmátt launa, við hvaða verði menn þurfa að greiða þær vörur, sem fluttar eru til landsins eða framleiddar eru í landinu. Álagningin ræður verulegu um það verð, sem menn verða fyrir vörurnar að greiða, og þess vegna á almenningur í heilbrigðu lýðræðisþjóðfélagi heimtingu á að fá fulla vitneskju um það, hvaða hlut milliliðir ætla sér sem þóknun fyrir dreifingu vörunnar. Þetta eiga að vera algerlega opinber plögg, sem almenningur á að hafa fullan aðgang að.

Enn fremur hef ég leyft mér að spyrja um, hvaða breyting hafi orðið á kostnaðinum við framkvæmd verðlagseftirlitsins eða verðgæzlunnar frá 1949 og til 1952, en 1949 var sem kunnugt er verðlagseftirlit með nær öllum innfluttum vörum og nær öllum innlendum iðnaðarvörum og innlendri þjónustu. 1952 hafði hins vegar verðlagseftirlitið verið takmarkað við mjög fáar vörutegundir, þær einar, sem innflutningur var og er takmarkaður á. En svo hefur virzt sem kostnaðurinn við verðgæzluna hafi lækkað tiltölulega mjög lítið, a. m. k. mun starfsfólki við hana hafa verið fækkað mjög lítið. Það er því alveg augljóst mál, að ef það er rétt, að um það bil sami fólksfjöldi starfi að verðgæzlu nú og gerði meðan nær allar innfluttar vörur og öll innlend iðnaðarvara og þjónusta var undir verðlagseftirliti, þá ætti það lítið að kosta til viðbótar, þótt skrifstofan og starfsfólkið væri látið hafa fullt verkefni og allar innfluttar vörur og innlend iðnaðarvara og þjónusta væri enn háð verðlagsákvæðum. Um þetta vildi ég enn fremur fá nákvæmar upplýsingar, svo að unnt væri að gera sér sem skýrasta grein fyrir því, hversu mikið ríkisstj. hefur sparað á því að afnema verðlagseftirlitið. Hitt veit maður, að almenningur hefur tapað tugum milljóna á því, að verðlagseftirlitið skyldi hafa verið afnumið.