18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3407)

219. mál, olíumál

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör, sem ég hygg að séu skýr og greinargóð og fari ekkert á svig við það, sem um var spurt. Hins vegar ætla ég ekkert að þakka honum fyrir það, þó að það yrði nú af því, að hann svaraði, því að nú bar málið þannig að, að hann átti engrar undankomu auðið með að svara, og get ég því ekkert um það vitað, hvort honum var það ljúft eða leitt. Svo mikið er víst, að hæstv. ráðh. svaraði ekki fyrr en hann varð að svara, en það var mjög eðlilegt, að hann hefði svarað þessum mjög svo eðlilegu spurningum í umr. um það mál, sem spurningarnar voru bornar fram í sambandi við í hv. Nd.

Við höfum sem sé fengið upplýst, að þarna hefur ekki verið samið um fast verð á olíunum, heldur eiga Íslendingar að sæta, að mér skildist, lægsta heimsmarkaðsverði á hverjum tíma, sem samningurinn gildir fyrir, og það tel ég fyllilega vera tæmandi svar við fyrirspurnarliðnum. — Það er alveg óyggjandi svar líka, sem ég hef fengið við 2. tölulið, að olíufélögunum þremur hefur verið framseldur samningurinn óbreyttur eins og ríkisstj. gerði hann og ríkisstjórn Íslands er aðili að samningnum við viðskiptalandið. En í framhaldi af því vildi ég þó máske spyrja: Voru olíufélögunum þremur engin skilyrði sett um álagningu eða verðlag á olíunum, þegar þeim var framseldur þessi hagstæði heildarsamningur íslenzka ríkisins, engin skilyrði til þess að vernda viðskiptamennina?

Af þriðja svari hæstv. ráðh. við þriðja tölulið er ljóst nú, að olíusamlög útvegsmanna og sjómanna fá ekki að ganga inn í þennan samning milliliðalaust og án milliliðakostnaðar. Það er talið, að þau þurfi að taka þessa olíu aftur hjá olíufélögunum, og þykir mér það heldur miður, að þeim skyldi vera gert þarna lægra undir höfði en olíufélögunum, þessum samtökum útgerðarmanna og sjómanna, þ. á m. togaraeigendunum, sem eru stærstu notendur olíunnar í landinu. Sum olíusamlög eru eigendur að tönkum og hafa þannig aðstöðu til að taka við nokkuð verulegu magni af olíum. Það er mér kunnugt um, og get ég því ekki fallizt á, að það sé alveg eins sjálfsagt og hæstv. ráðh. vildi láta skína í, að þessir aðilar kæmu ekki til greina. Mér finnst því, að framsal hæstv. ríkisstj. hafi verið nokkuð fortakslaust og tillitslaust við atvinnurekendurna sjálfa að því er þetta snertir.

Við fjórða töluliðnum svaraði hæstv. ráðh. því, að þessi olíukaup, þó að þau þættu stór á okkar mælikvarða, væru raunar smá á heimsmælikvarða. Ég get nú ekki skilið, að það sé beint svar við því, hvort við höfum ekki orðið þarna aðnjótandi hagkvæmari farmgjalda, því að þar er um það að ræða, hvort þarna var um að ræða magn, sem væri meira en svo, að það kæmist í hin stærstu tankskip. Allt hvað magnið var meira en 16–20 þús. eða 30 þús. tonn, og þetta er margfaldlega það, — þá gat verið um að ræða hina stærstu tankskipaflutninga, og undireins og það nam t. d. 30 þús. tonnum, þá var þarna komið að því, að við höfðum aðstöðu til að flytja olíuna inn á hinn hagkvæmasta hátt í hinum stærstu tankskipum, og þá hefði ég vænzt, að hagur væri af svo stórum innkaupum og að sá hagnaður yrði með einhverjum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. látinn koma notendunum beint til góðs. Það er alveg áreiðanlegt, að magnið er svo mikið, að þarna er um marga stórskipafarma að ræða á heimsmælikvarða.

Fimmtu spurningunni var svarað á þann veg, sem nokkur rök eru til, að það sé rangt að bera saman við sérstaklega hagkvæm innkaup, vegna þess að innkaup íslenzka ríkisins séu ekki stór á heimsmælikvarða. En þau eru þó þrefalt stærri en magnið hjá hverjum hinna þriggja aðila, sem hafa keypt olíu inn hingað til, og hefði því mátt búast við, að heildarinnkaup íslenzka ríkisins, sem eru jafnmikil og innkaupin af því magni, sem keypt hefur verið inn af þremur aðilum áður, hefðu verið hagkvæmari nú en hjá þeim í þrennu lagi.