10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

131. mál, álagningar á nauðsynjavörur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér skilst nú, að hér sé komin ný fyrirspurn. og það væri nú æskilegt að fá tíma til að svara henni alveg sérstaklega og að hv. þm. bæri hana fram á venjulegan hátt, því að hér er um aðra spurningu að ræða en þá, sem liggur fyrir á þskj. 331. En það, sem þessi hv. þm. meinar. skilst mér sé það, að það hafi verið breytt til um útreikningsgrundvöll, álagningargrundvöll, frá því að samið var í des. 1952. En það er áreiðanlegt, að ef það er, þá er það ekki nema í örfáum tilfellum — og ef til vill alls ekki. Og eitt liggur nú alveg ljóst fyrir, og það er það, að álagningarprósentan hefur alls ekki verið hækkuð og að verðlag á þessum nauðsynjavörum, sem sérstaklega var samið um, hefur frekar lækkað en hækkað síðan samkomulagið var gert. Þess vegna geta verkalýðsfélögin vel unað þeirri framkvæmd, sem á hefur verið síðan samkomulagið var gert, vegna þess að verðlagið á þessum vörum hefur farið lækkandi og álagningarprósentan hefur ekki verið hækkuð og Verzlunarráð Íslands, Samband smásöluverzlana og Samband íslenzkra samvinnufélaga hafa með bréfum staðfest, að þau ætli enn um sinn að halda sig við þessa álagningarreglu, og hefur ríkisstj. þá tryggt það, að þetta verði framkvæmt áfram eins og verið hefur.