02.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

Rannsókn kjörbréfa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð út af einu atriði í ræðu hæstv. ráðherra, en það var þetta, að kjörgögnin núna, sem viðurkennast að hafa verið gegnsæ, hafi ekki verið lakari eða verr útbúin heldur en kjörgögn í mörg undanfarin ár við undanfarnar kosningar. Ef þetta er rétt, og þetta er borið fram af hæstv. ráðh. í varnarskyni, þá er málið enn þá alvarlegra. Þá hefur þetta viðgengizt fleiri kosningar í röð, og dómsmrh. veit að minnsta kosti nú um þetta, og þetta hefur samt verið látið endurtaka sig á slíkan hátt, sem raun ber vitni um nú. Þetta finnst mér gera málið stórum alvarlegra, en þess vegna fagna ég líka, að hæstv. ráðh. viðurkennir þessi mistök og hefur þegar lýst því yfir fyrir þingheimi, að hann muni gera ráðstafanir til þess, að mistökin endurtaki sig ekki hér eftir.

Um það atriði, hvort þetta hafi verið misnotað, skal ég ekki fullyrða, en það þarf ekki mikið hugarflug til þess að sjá það, að ef maður ætlar sér að bera fé á kjósanda og vera viss um það að vera ekki svíkinn í verzluninni, þá er honum það mjög mikilsvert, eftir að hann hefur gert við hann sitt samkomulag, að geta farið með honum á kjörstað, vera vottur við utankjörstaðaatkvgr., sjá, um leið og hann réttir kjörseðilinn frá sér aftur til kjósandans, hvernig hefur verið kosið, og sannfærast þannig um, að kjósandinn hafi staðið við sinn hluta af samningnum.

Ég þarf ekki að taka fleiri dæmi. Ég hef nægilegt hugarflug til þess að geta ímyndað mér það, að ósvífnir menn og lítt vandir að virðingu sinni gætu misnotað þetta, eftir að þeir vita, að kjörgögnin eru gegnsæ og þeir með því að fylgja kjósanda á kjörstað og gerast vottar og vera þannig vottar að öllu saman geti fengið tryggingu fyrir því, að mútufé sé t.d. borgað með atkvæði. Og það er þetta, sem er ekki á einum, heldur á mörgum stöðum tekið fram í kosningalögunum. Augljóslega til þess að fyrirbyggja möguleika til mútustarfsemi í þeim tilgangi að hafa áhrif á vilja kjósandans hefur þetta ákvæði verið selt, að kjörgögn skuli vera ógegnsæ og engum skuli neinar færar leiðir til þess að fylgjast með því, hvernig kjósandi hafi kosið.