05.10.1953
Neðri deild: 2. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

Kosning fastanefnda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég kveð mér hljóðs til þess að styðja það eindregið, að fram fari kosning á nýjan leik, eins og hæstv. forseti hefur ætlað sér. — Ég hef ekki mikið nýtt að segja um þetta. Það hafa verið bornar fram þær ástæður, sem mæla með þessu. Ég vil aðeins leggja áherzlu á, að það getur engum orðið gert rangt til með því að láta kosningu fara fram aftur. Það er óhugsandi. Ef ætlun sex manna hér í hv. d. er sú að styðja lista Sósfl., þá munu þeir gera það við þá kosningu, sem færi fram hér aftur. Ef hins vegar hafa orðið mistök, þá leiðréttast þau. Það er þess vegna ekki hægt að finna nein frambærileg rök gegn því, að kosning fari fram aftur. Að A-lista standa þrír flokkar, en að B-listanum Sósfl. einn. Benda því allar líkur til þess, að hér hafi orðið mistök, en aðalatriðið í málinu er þó það, að það er ekki hægt að gera neinum rangt til með því að láta kosningu fara fram aftur. En hér gætu orðið viðurkennd mistök, ef kosning færi ekki fram aftur. Þetta er höfuðatriðið.