27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (3562)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi málið, sem ég vakti athygli á. Ástæðan til þess, að ég bar þessa fyrirspurn ekki fram í venjulegum fyrirspurnatíma, heldur utan dagskrár, er sú, að það mundi hafa tekið eina viku og rúmlega það að fá fsp. svarað með þeim hætti. En tilgangur minn með því að vekja máls á þessu hér á þessum stað og á þessari stundu er sá, að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að það eru til menn á Alþingi Íslendinga, sem ekki láta sig það litlu skipta, hvernig atkvæði Íslands falla í slíkum málum sem þessum, ef hún vildi eitthvert tillit til þess taka, er málið kemur aftur til kasta Sameinuðu þjóðanna á sjálfu allsherjarþingi þess, sem væntanlega verður innan skamms. Hæstv. ráðh. gat ekki upplýst, hvernig atkvæði Íslands hefði fallið í allsherjarnefndinni, en það eru tilmæli mín til hæstv. ráðh., að það verði ítrekað við sendinefnd Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna, að haldið verði fast við þá ályktun, sem gerð var á sameiginlegum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Ísland var aðili að, um, að Íslendingar skyldu með atkvæði sínu á þingi Sameinuðu þjóðanna stuðla að því, að þessi hrjáða nýlenduþjóð í Afríku fái sjálfstæði sitt sem fyrst.