27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það er aðeins, herra forseti, út af þessari aðfinnslu hv. 2. þm. Reykv. um, að ráðherrar væru hér sjaldan. — Ég hugsa sannast sagna, að um suma ráðherrana megi segja, að þeir séu hér allajafna. Ég er ekki meðal þeirra, ég játa það. En nokkur afsökun er þó í því, að í fyrsta lagi eru ráðherrarnir, eins og menn vita, mjög önnum kafnir við ýmis önnur störf. Í öðru lagi eiga einstakir þm. og ekki sízt þessi hv. þm., 2. þm. Reykv., sök á því. Þeir eru eins konar hrossabrestir á ráðherrana hér. Þeir reka okkur eins og stóð úr túni, þegar við komum hér, því þó að mann langi til að sitja yfir ræðum þeirra og gefa allar upplýsingar, sem þeir biðja um, þá verður maður annaðhvort að vanrækja of mikið önnur skyldustörf sín eða að láta undir höfuð leggjast að gefa þær upplýsingar, sem um er verið að spyrja. Þessi hv. þm. er allajafna það langmáli, að það er ekki hægt að rækja þær skyldur báðar saman, að anna almennum ráðherrastörfum og hlusta á hann. Ég hef einu sinni sagt um hann, að hann minnti mig á langferðamann á hraðri ferð, sem hefði marga til reiðar og færi af baki til þess eins að skipta um hest, svo þeysti hann áfram, því að þegar þessi hv. þm. er kominn af baki af Unilever, þá fer hann á bak á Marshallhjálpina, síðan á Landsbankavaldið o. s. frv. En alls eru gæðingarnir 6 eða 7, eins og við öll könnumst við. Á þessu þreytast menn og hverfa til þarfari starfa. Þetta verður að vera dálítið okkur til afsökunar, sem þykjumst hafa ýmsar annir. Hv. fyrrv. þm. Ísaf. var að grípa fram i. Hann er náttúrlega miklu leiðinlegri ræðumaður, hv. fyrrv. þm. Ísaf., ég játa það, en hann talar langt líka og gæti hjálpað mikið til þess, að ráðherrarnir kæmust ekki yfir það að sitja í þinginu, meðan allar ræður eru fluttar.

Hitt skal svo játað, að það er mjög æskilegt, að ráðherrarnir gætu verið sem mest viðstaddir á þingfundum og gefið þær upplýsingar, sem þingmenn að eðlilegum hætti hafa tilhneigingu til þess að spyrja um. Það verður bara að velja á milli. Geti maður annað hvoru tveggja þá er það bezt, ef ekki, þá verður maður að velja það nauðsynlega.