05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það er rétt, sem hæstv. forseti sagði, að samkv. þingsköpum er ætlazt til þess, að fsp. séu bornar fram í allt öðru formi en þessu, og síðan núgildandi háttur var tekinn upp, hafa hinar munnlegu fsp. mjög horfið. Ástæðan fyrir því, að sú aðferð var tekin upp, studdist mjög við slíkar fsp. sem hv. þm. bar nú hér fram, sem vitanlega eru þess eðlis og svo óljósar, að það er mjög erfitt að festa hendur á þeim. Ég vil hins vegar einungis nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, að ég hef ekki leynt neinu, sem ég hef fengið vitneskju um með þeim hætti, að ætlazt væri til, að undir aðra væri borið. Ég hef ekki leynt neinu í þeim efnum fyrir neinum, heldur jafnskjótt skýrt öllum þeim, sem heimilt var á hverjum tíma að skýra málið fyrir, frá því, sem fram hefur komið.

Nú er það þannig, að mér er sagt, — ég vissi ekki, hvort það var í útvarpinu eða ekki, — að forsrh. danski og menntmrh. hafi ekki viljað svara fsp., sem til þeirra var beint af hálfu þessa danska blaðs um þetta mál, — hvorki viljað svara af eða á, hvorki viljað játa né neita, að þessar till. væru fram bornar. Hér er um danskar till. að ræða, en ekki íslenzkar, og það er vitanlega dönsku stjórnarinnar að segja til um, hvenær og með hverjum hætti hún vill láta þær till. koma fram fyrir almenningssjónir, ef um till. er að ræða, — og ég hef þann fyrirvara á ef um till. er að ræða. Það er hennar að segja til um það.

Vitanlega hafði ég ekkert umboð til þess að semja um þetta mál við dönsk stjórnarvöld. Ég vil leggja áherzlu á það. Ég fór ekki til Danmerkur með neitt slíkt umboð af hálfu íslenzku stjórnarinnar eða Alþingis. Ég er ekki utanríkisráðherra, svo að málið sem samningsmál við aðra þjóð heyrir ekki undir mig. Allt það, sem talað kann að hafa verið um handritamálið við mig og mér er ekki falið að koma áleiðis, er því einungis rabb, sem ekki er frekar hægt að greina frá en öðru slíku rabbi, sem á sér stað. Ég hef því ekki leynt í málinu fyrir neinum, sem ég mátti segja frá, neinu, sem fram hefur komið, ekki reynt að fara á bak við Alþingi í málinu.

Það er ekkert furðulegt, þótt þetta komi fyrst fram í Danmörku, þar sem það eru danskar till., en ekki íslenzkar till. Íslenzk stjórnvöld hafa ekki á nokkurn hátt léð samþykki sitt hvorki við hugmyndinni né að neitt væri um málið birt, því að af hálfu íslenzku stjórnarinnar hefur ekkert gerzt sem gæfi tilefni til slíks. En ég vil fullvissa þingmenn um það, að að svo miklu leyti sem um mínar hendur berst eitthvað í málinu eða hefur borizt, verður notað allra fyrsta tækifæri til þess að láta það koma til vitundar þeirra, sem um það eiga að fjalla.