25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (3583)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Forseti (JörB):

Hv. 1. landsk. þm. hafði á orði við mig í byrjun þessa fundar, að hann mundi kveðja sér hljóðs utan dagskrár til þess að koma að leiðréttingum. Ég lét þess getið, að í sjálfu sér hefði ég ekki á móti því, ef ekki leiddi af því umr. um málefnið, en það væri ekki til þess ætlazt í þessum tíma. (GÞG: Ég stofnaði ekki til þeirra.) Nú, má vera, að svo sé, en það leiðir hvað af öðru. Úr því að farið er að ræða málefni, einhverja þætti þess, þá býður það frekari umræðum heim. Nú er síður en svo, að ég amist við því, að þingmenn komi að leiðréttingum, ef um eitthvað slíkt er að ræða. En ég vil biðja hv. þm. nú að gæta þess að fara ekki að ræða málefnalega, þegar þeir kveðja sér hljóðs til að koma á smáleiðréttingum án þess að fara að rökræða málefni frekar en orðið er.