25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (3585)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. gerði flokksbróður sinum, eins og fyrri daginn, mesta ógagn með því að blanda sér þetta mál. Það er alltaf ógagn að því fyrir þann, sem hv. 3. þm. Reykv. ætlar að styðja. Reyni hann að leggja einhverjum manni lið með máli sínu, þá bregzt það varla, að hann gerir honum ógagn. Svo gerðist einnig hér áðan. Hann staðhæfði, að það ætti ekki að leggja saman tölurnar um kostnað verðgæzlunnar og verðlagsskrifstofunnar, endurtók það einum tvisvar eða þrisvar sinnum. Þetta er þveröfugt við það, sem hæstv. viðskmrh. játaði að ætti að gera. Ráðherrann skilur málið og kaus þann drengilega kost að játa missögn sína. Hann viðurkenndi; að það ætti að leggja tölurnar saman. Svo kemur flokksbróðir hans, lemur höfðinu við steininn og segir: nei. Það er rétt að láta þá flokksbræðurna um að deila um það, hvort þetta hafi átt að gera eða ekki. Allir aðrir en hv. 3. þm. Reykv., sem á málið hafa hlýtt, vita, að til þess að geta gert samanburð við kostnaðinn 1949 verður að leggja saman kostnaðinn við verðgæzluna nú og verðlagsskrifstofuna nú, því að þessi starfsemi var hvor tveggja innifalin og greidd af kostnaðinum fyrir 1949, sem hæstv. ráðh. nefndi.

Að öðru leyti lagði hv. 3. þm. Reykv. áherzlu á, að það væri engin eyðslusemi, sem kæmi fram í þessum tölum, sem hæstv. viðskmrh. hefði nefnt. Hann kallar það enga eyðslusemi, að það skuli enn kosta 788 þús. kr. að halda uppi verðlagsákvörðunum og verðgæzlu í landinu, að það skuli kosta 27 þús. meira nú að leggja á nokkur hámarksákvæði og halda uppi verðgæzlu en það kostaði 1949. Samt sem áður er í millitíðinni búið að afnema nær allt verðlagseftirlit og nær allar verðlagsákvarðanir. Ein höfuðröksemdin, sem fram var flutt, þegar skipulagsbreytingin var gerð á verðlagsmálunum, var sú, að það ætti að spara með þessu. Því var heitið, að það ætti að leggja niður gífurlegt skrifstofubákn, spara mörg hundruð þúsundir króna, og hver er svo niðurstaðan? Niðurstaðan er 27 þús. kr. hækkun á kostnaði. Auð'vitað hefur kaup hækkað nokkuð á þessum tíma, en starfsmannafækkunin hefði átt að vera svo mikil, miðað við verkefni, að heildarkostnaðurinn hefði átt að stórlækka. Þetta er mergurinn málsins. Það er þetta, sem ekki hefur tekizt, og það er þetta, sem ég leyfi mér að staðhæfa að sé óverjandi bruðl og eyðslusemi á opinbert fé.