13.04.1954
Efri deild: 88. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

Rannsókn kjörbréfa - varamenn taka þingsæti

forseti (GíslJ):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá Sameiningarflokki alþýðu — Sósfl.:

„Reykjavík, 12. apríl 1954.

Með því að Brynjólfur Bjarnason, 2. landsk. þm., er á förum til útlanda í nauðsynjaerindum, leyfi ég mér, með skírskotun til 3. málsgr. 144. gr. l. nr. 80/1942, um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður, Ásmundur Sigurðsson, taki sæti hans á Alþingi, meðan hann verður fjarvistum.

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. F. h. Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins,

Einar Olgeirsson.

Til forseta efri deildar.“

Ég vil því leyfa mér að bjóða hv. varamann 2. landsk., Ásmund Sigurðsson, velkominn hér á þingið. Ég hygg, að kjörbréf hans hafi verið athugað fyrr á þinginu, svo að það þurfi ekki að fara fram nein athugun á kjörbréfinu. Ég vil bjóða hann velkominn til þingsins.