08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

1. mál, fjárlög 1954

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. í þessu máli, fjárlögunum.

Fyrri brtt. mín er H. liður á þskj. 280 og er við brtt. hv. fjvn. á þskj. 242 um endurbyggingu þjóðvega. Fyrir nokkrum dögum sá ég þessu þskj. hv. fjvn. útbýtt, og þá man ég ekki betur en að þessi liður hjá hv. n. væri 5 millj. kr. En það mun því miður hafa verið prentvilla, því að nú hefur þskj. verið prentað upp og þar stendur aðeins 500 þús. kr. Ég hefði talið hitt við hæfi og verið vel ánægður með, að það hefði verið raunveruleg till. n., 5 millj. kr. í þessu skyni. Samt sem áður er ég hv. n. þakklátur fyrir að hafa tekið upp sérstakan lið um þetta efni, endurbyggingu þjóðvega.

Mér er kunnugt um, að það stendur sums staðar svo á, að elztu akvegirnir, sem lagðir hafa verið hér á landi, eru að verða ónýtir, enda er það ekki nema eðlilegt, því að í fyrstu voru þeir byggðir með allt önnur not fyrir augum heldur en nú er. Þeir voru m.ö.o. byggðir aðeins fyrir hestvagna, en ekki fyrir bifreiðar, og þar að auki voru þeir byggðir til þess að hægt væri að aka hestvögnum eftir þeim á sumrum og þegar autt væri á vetrum, en alls ekki ætlaðir til þess að hægt væri að aka vögnum eftir þeim yfirleitt á veturna, nema einstaka sinnum. Þetta voru vegir, sem lagðir voru fyrir aldamót og nokkur ár fram eftir þessari öld, sem við nú lifum á. Í mínu héraði er akbraut t.d., sem var að langsamlega mestu leyti byggð á þessu tímabili, meðan ekki var hugsað til þess og engan dreymdi um það neitt verulega, að hér á landi kæmu bifreiðar. Hins vegar hefur þó einmitt í þeim héruðum, sem elztu vegirnir liggja um, atvinnulífið verið byggt upp þannig, að það krefst daglegra bilferða, þ.e.a.s. mjólkurflutninga. Þess vegna er nú komið svo, að sum þau héruð, þar sem akvegir voru fyrst lagðir, eru að verða einna verst sett um samgöngur á landi oft og tíðum. Það er reynt að halda þessum vegum við, — ég skal játa það, - en það kostar líka peninga og er aftur á móti gagnslítið.

Till. mín um helmingshækkun á þessum lið, úr 500 þús. kr. upp í eina millj., væri því ekki nema að nokkru leyti aukin útgjöld, þó að samþykkt væri. Samt sem áður er það ekki ætlun mín, að þessi till.samþ. nú við þessa umr., og ég mun taka hana aftur til 3. umr. Og það er ekki heldur ætlun mín vegna þess, að ég geri mér ljóst, hvað hæpið er að fjárl. verði afgr. á þann hátt, sem ég tel forsvaranlegt, að þessi till. mín verði til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs eða útgjöldum fjárl. Till. er borin fram til athugunar fyrir hv. fjvn., og vona ég, að hún taki það til nýrrar athugunar, hvort ekki sé hægt að hækka þennan lið, þótt ekki sé upp í 5 millj., eins og ég var að vona um tíma, þá a. m. k. eins og till. mín fer fram á. En í staðinn finnst mér að það mætti lækka fjárveitinguna til viðhalds vega, beinlínís vegna þess, að þessi liður, hvort sem hann verður nú 500 þús. kr. eða 1 millj., verður til þess að létta á viðhaldskostnaði vega, því að þá mundu verða byggðir upp einhverjir verstu vegakaflar, sem alltaf er verið að káka við að reyna að halda við, en þó ekki auðvitað fullnægjandi. Ég vil mjög óska ettir því, að hv. fjvn. taki þetta til nýrrar athugunar, hvort hún sjái enga möguleika á því að hækka þennan lið, því að 500 þús. kr. í þessu skyni held ég að geri að vísu gagn, en því miður ákaflega litið gagn, samanborið við það, sem þyrfti að vera. — Till. er þá tekin aftur til 3. umr.

Þá hef ég leyft mér að bera fram aðra brtt. á sama þskj., en hún er smávægileg. Það er IV. liður á þskj. 280, við 14. gr. frv. B. XIV. 7, um fyrrv. barnakennara, að fyrir 47500 kr. komi 49 þús. kr. Ég skal strax geta þess, að þessi till. mín er borin fram af sérstöku tilefni og vegna ákveðins manns. Gamall kennari norður í Ólafsfirði heitir Grímur Grímsson. Hann varð fyrir því óláni, áður en hann varð verulega gamall, að missa svo til alveg heyrnina og varð að láta af kennslustörfum þess vegna. Og þar sem langt er síðan hann fékkst við kennslustörf, þá eru það sáralítil eftirlaun eða lífeyrir, sem hann hefur úr lífeyrissjóði barnakennara, því að hans starf var aðallega fyrir þann tíma, sem sá sjóður varð til, og voru þá alltaf mjög lág kennaralaunin, en eftir þeim er lífeyririnn reiknaður, eins og menn vita. Eins og ég sagði, er þessi maður orðinn gamall, heilsulítill og heyrir ekki eða sama og ekki neitt, og af þessu leiðir það, að hann getur ekki unnið fyrir sér. Ég hef loforð fyrir því hjá fræðslumálastjórninni, að verði þessi brtt. mín samþ., þá muni hann verða aðnjótandi þessarar hækkunar. Þótt ég játi það fyllilega, að þeir, sem vilja bera ábyrgð og taka að sér að bera ábyrgð á afgreiðslu fjárl., eigi helzt ekki að bera fram brtt., sem nokkru nema, þá finnst mér þó, að þetta sé svo lítið, að það mundi ekki raska afgreiðslu fjárl. að öðru leyti, þó að þessi litla brtt. yrði samþykkt.

Ég finn ástæðu til að segja nokkur orð út af ræðu hv. 3. landsk. þm., frsm. 1. minni hl. fjvn. Hann er vist ekki viðstaddur í þinginu, en þar sem ég býst tæplega við að tala aftur, þá verð ég að segja þessi orð eins fyrir því, þó að ég hefði frekar kosið, að hann hefði á þau hlustað. Hann var m.a. í ræðu sinni að gera lítið úr og draga dár að ýmsum tilraunum og rannsóknum í þágu landbúnaðarins. Hann komst m.a. svo að orði, að bændur í nágrenni þessara stöðva gerðu grín að þeim og teldu þær einskis virði. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það, hvort hv. þm. kunni að hafa hitt einhvern bónda, sem svo hefur talað, en varla hafa þeir verið margir og alls ekki meginhluti bænda eða allir bændur, eins og hægt var helzt að heyra á honum að mundi vera. En meðal dæma um þetta nefndi hv. þm. fjárbeiðni Nautgriparæktarfélags Eyfirðinga, og það er út af því, sem ég vildi segja þessi orð til hv. þm., en um þetta sérstaka efni get ég fullyrt, að þm. getur ekki fundið einn einasta bónda í Eyjafirði, sem gerir lítið úr þeirri starfsemi, starfsemi Nautgriparæktarfélags Eyfirðinga, og því siður að hann geri grín að henni.

Umsókn Nautgriparæktarfélags Eyfirðinga um framlag úr ríkissjóði, sem var um 1/2 millj. kr., eins og þm. sagði, hefur þm. annaðhvort misskilið eða snúið út úr viljandi. Það var helzt að heyra á þm., að þetta ætti að vera árlegur rekstrarstyrkur til afkvæmarannsókna. En svo er ekki, heldur er þarna farið fram á styrk til stofnkostnaðar. Ég er hv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún hefur, þótt í litlu sé, sinnt þessu máli, þar sem hún hefur borið fram till. um að veita Nautgriparæktarfélagi Eyfirðinga og Nautgriparæktarfélagi Árnesinga nokkurn styrk, sem helzt kynni að vera að skilja svo, að þeirri upphæð ætti að skipta jafnt á milli félaganna, þó að það sé ekki beinlínis tekið fram. En þó að ég sé þakklátur fyrir þessa litlu viðleitni, þá verð ég að segja það, að mér finnst þetta ekki með öllu sanngjarnt. Nautgriparæktarfélag Árnesinga hefur, eftir því sem ég bezt veit, áður fengið verulegan styrk, en félagið í Eyjafirði ekki. Og úr því að þetta kom til orða hér að gefnu tilefni frá hv. 3. landsk. þm., þá vil ég upplýsa það, sem ef til vill hefur verið gert áður hér á hinu háa Alþ., — ég hef ekki hlustað á allar ræður, — að Nautgriparæktarfélag Eyfirðinga rekur kynbótabú. Þetta kynbótabú er rekið á leigulandi og í leiguhúsnæði, og það er í bæjarlandi Akureyrarkaupstaðar. Nú er búizt við því, að innan mjög skamms verði félagið að víkja með þessa starfsemi úr bæjarlandinu, því að það mun ekki þykja hæfa, þegar byggð bæjarbúa eykst í kringum þetta, að það sé inni í kaupstaðnum. Þá verður félagið að kaupa sér jörð og koma þar upp húsum eða kaupa land, sem hús eru ekki á, rækta það og koma sér upp húsum. Þess vegna er það, að þessi styrkur, sem hv. fjvn. leggur til að veita þarna og mér skilst að verði sennilega 100 þús. kr. til Nautgriparæktarfélags Eyfirðinga, er að sjálfsögðu allt of lítill í þessu skyni, þó að ég hins vegar sé ekki að vanþakka till. um þetta, þvert á móti. En ég ber þó ekki fram brtt. um þetta efni af þeim ástæðum, sem ég hef þegar víkið að, að ég tel mér ekki fært að gera till. yfirleitt um aukin útgjöld, sem nokkru nema, vegna afgreiðslu fjárl. í heild, því að mér finnst yfirleitt, að hv. þm. þurfi að hafa hugfast að spenna þar ekki bogann of hátt.