14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

1. mál, fjárlög 1954

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er að byrja hér 3. umr. um fjárlög ársins 1954, hin svo kallaða eldhúsdagsumr. Hin hér nú ryðjast fram til eldhúsverkanna í kvöld hver gaurinn á fætur öðrum að framleiða sinn jólabakstur, hver með sínu lagi og sniði.

Það var í þingbyrjun, að hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, lagði fjárlfrv. fram, eins og vera ber, og hafði hann þá áætlað tolla og skatta næsta árs 325 millj. kr. og tekjur af áfengis- og tóhakssölu 95 millj. kr. Samtals 420 millj. kr. Auk þess voru svo á frv. ýmis smátekjusnöp upp á 7 millj. kr., eða tekjuáætlunin alls 427 millj. kr. Gjöldin voru 38 millj. kr. lægri, og nam rekstrarafgangur þannig þeirri upphæð. Heildarniðurstöðutölur fjárlfrv. á sjóðsyfirliti voru 430 millj. kr., en þar er farið að saxast svo á 38 millj. kr. rekstrarafganginn, að hagstæður greiðslujöfnuður frv. var, þegar allt kom til alls, ekki nema rúmlega 11/2 millj. kr.

Sannast að segja var harla lítið nýstárlegt við fjárlfrv. Það var að mestu uppprentun af gildandi fjárl. þessa árs. Að vísu sýndi það 30 millj. kr. hækkun á sköttum og tollum og lækkuð framlög til verklegra framkvæmda. Það voru þeir tveir megindrættir frv., sem helzt vöktu athygli. Frv. var átakanlegt tákn þeirrar kyrrstöðustefnu, sem seinustu stjórn fylgdi. Þarna var engin fjárveiting til atvinnuaukningar og sýnilega til þess ætlazt, að öll vandamál atvinnulífsins skyldu leysast suður á Keflavíkurflugvelli. Ekki sást heldur orð eða stafur um úrlausn á stærsta vandamáli líðandi stundar, húsnæðisskortinum. Frv. hafði því vissulega ekki mikinn boðskap að flytja.

Í meðförum fjvn. hækka útgjöld og tekjur frv. um ca. 20 millj. kr., og lætur því nærri, að niðurstöðutölur fjárlaga ársins 1953 verði um 450 millj. kr. Fyrir einum 14 árum — þ.e. árið 1939 — voru öll gjöld íslenzka ríkissjóðsins tæpar 20 millj. kr. — nú 450 millj. kr., hafa þannig 23-faldazt á 14 árum. Þá var vörumagnstollurinn 11/2 millj. — er nú 24–25 millj. kr. Tekju- og eignarskatturinn var þá 2.1 millj. kr. — nú 561/2 millj. kr., og ef stríðsgróðaskatturinn er talinn með, þá er hann rétt við 60 millj. kr. Hann er þannig nærri því 30-faldaður. Fyrir 14 árum voru tekjur ríkissjóðs af áfengi og tóbaki 3.7 millj. kr. — nú verða þær um 97 millj. kr. En stærstu risaskrefin hefur þó verðtollurinn tekið á þessu tímabili, því að hann var ekki nema 1.4 millj. kr. árið 1939, en nú trónar hann sem hæsti liður fjárlaga upp á 110 millj. kr. Viðurkennir meiri hl. fjvn., að óhætt sé að áætla hann á næsta ári 117 millj. kr. En hann reynist á þessu ári ekki undir 124 millj. kr. Ég fullyrði því, að hann geti naumast orðið undir 120 millj. kr. á árinu 1954.

Hversu ótrúlegt sem mönnum kann að finnast það, þá er þó staðreynd, að verðtollurinn hefur 86-faldazt á einum 14 árum. Það verður því ekki annað sagt en að þeir hafi kunnað að ávaxta pund skatta og tolla, fjármálaráðherrar íhalds og Framsóknar, sem með völdin hafa farið seinasta hálfan annan áratug, og þegar skattamáladæmið er gert upp í heild nú í dag með fáum orðum, þá er útkoman þessi:

Skattaálögur ríkissjóðs á þegnana eru um 450 millj. kr. Þar við bætast útsvör til sveitarfélaganna, hér um bil 150 millj. kr., og að lokum eru svo tryggingagjöld upp á ca. 60 millj. kr. Samtals verður skattabyrðin á landslýðnum þannig um 660 millj. kr. Það þýðir um 20 þús. kr. að meðaltali á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Það er því ekki að furða, þó að ýmsum þyki orðið þröngt fyrir dyrum og skattpíningin gangi langt úr hófi fram, enda finna stjórnarflokkarnir það vel, að magnaður kurr er í liðinu út af sköttunum. Hafa þeir nú árum saman lofað endurskoðun skattalaga með skattalækkun fyrir augum. Átti milliþn. í skattamálum að skila af sér í fyrra, en það var svikið. Þá voru getin hátíðleg loforð og miklir svardagar hafðir um hönd fyrir kosningarnar í vor um skattalækkanir á þessu þingi, en ekkert bólar enn þá á efndunum. Má það heita furðumikil bíræfni, ef það höfuðloforð kosninganna verður enn þá svikið, því að það er þó alls ekki hægt að reikna með, að kjósendur séu alveg minnislausir eða láti bjóða sér allt eftir það, sem á undan er gengið í þessu máli.

Fyrir tæpri viku fór fram 2. umr. fjárl. Þá kom í ljós, að hv. þm. stjórnarflokkanna eru í engu sjálfum sér ráðandi til ákvörðunar um brtt. við stærsta mál þingsins, fjárlögin. Það kom í ljós, sem ég hygg að vera muni nálega einsdæmi, að engin einasta till. neins af stjórnarandstöðuflokkunum fékkst samþ. Þar með er þó ekki allur sannleikurinn sagður, því að andlega ófrelsið gekk lengra en þetta. Ríkisstj. svínbeygði fylgismenn sína enn dýpra. Hún lét þá drepa allar till. sjálfra sín líka, nema þær hefðu áður fundið náð fyrir augum meiri hl. fjvn. Svona gersamlega var stjórnarliðið handjárnað, og er það ríkisstj. sízt til sóma.

Alþfl. bar fram tili. til stórfelldra breytinga á fjárlfrv. Stefndu þær flestar í þá átt að auka framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda, félagsmála og menningarmála, án þess þó að leggja þyrfti nokkrar nýjar álögur á þjóðina vegna samþykktar þeirra, því að það var gaumgæfilega rannsakað, að ef tollar og skattar og tekjur af ríkisstofnunum væru rétt áætluð, var hægt að samþ. allar fram komnar umbótatill. Alþfl. án þess, að fjárlögin yrðu þess vegna afgreidd með tekjuhalla. En allar till. Alþfl., líka sparnaðartill. hans, voru felldar af handjárnaliði stjórnarinnar gegn atkv. stjórnarandstöðuflokkanna þriggja í flestum tilfellum. Stjórnarliðið felldi að taka inn á frv. 6.3 millj. kr. til almannatrygginganna vegna fyrirsjáanlega aukinna bótagreiðslna. Stjórnarliðið felldi að verja 5 millj. kr. til þess, að fiskveiðasjóður gæti gegnt hlutverki sínu að greiða fyrir kaupum og byggingu fiskibáta, en Alþfl. hefur mjög hamrað á því, að Íslendingar eigi sjálfir að smiða fiskibáta sína, en ekki að kaupa þá tilbúna frá öðrum þjóðum. Stjórnarliðið felldi að verja 750 þús. kr. til byggingar verkamannaskýla í hafnarbæjum gegn tvöföldu framlagi annars staðar að. Stjórnarliðið felldi að verja 1 millj. kr. til að steypa eða malbika götur í kaupstöðum og kauptúnum og ætlar aðeins til þess 100 þús. kr. eins og mörg undanfarin ár. Stjórnarliðið felldi að verja 5 millj. kr. til byggingarsjóðs verkamanna, og ætlast það til, að 1.6 millj. kr. skuli nægja til þess á öllu landinu þrátt fyrir hið hörmulega húsnæðisöngþveiti, sem allir þekkja og viðurkenna. Stjórnarliðið felldi að verja 2.8 millj. kr. til stækkunar landsspítalans, og hefði þó þurft að verja til þess miklu hærri upphæð. Stjórnarliðið felldi að verja 250 þús. kr. til almennrar slysavarnastarfsemi og 75 þús. kr. til umferðarslysavarna. Stjórnarliðið felldi að verja 100 þús. kr. til starfsemi Alþýðusambands Íslands, en síðan hefur meiri hl. fjvn. samþ. að verja til þess 75 þús. kr. Stjórnarliðið felldi að verja 1 millj. kr. til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis. Stjórnarliðið felldi að verji 100 þús. kr. til verðlauna árlega handa þremur beztu rithöfundum íslenzkum. Stjórnarliðið felldi að verja einum 300 þús. kr. til að skreyta opinberar byggingar með listaverkum. Stjórnarliðið felldi að verja 600 þús. kr. til endurbyggingar vatnsveitna í kaupstöðum og kauptúnum. Og stjórnarliðið felldi að lokum, að ríkisstj. væri heimilað að verja allt að helmingi af tekjuafgangi ríkissjóðs á þessu árí, en hann hlýtur að nema nokkrum milljónatugum, til greiðslu á skuldum ríkisins vegna skólabygginga, sjúkrahúsa og hafnarmannvirkja, en þessar skuldir munn nú nema meira en 20 millj. kr., fjölda sveitarfélaga auðvitað til mikilla vandræða. Sem sagt, hver einasta till. Alþfl. var felld. Þannig kom umbótavilji og menningarviðleitni ríkisstjórnar Íslands fram við afgreiðslu fjárl. við 2. umr. núna fyrir nokkrum dögum.

Ein af þeim sparnaðartill., sem Alþfl. bar fram við 2. umr., var um það, að hv. stjórn léti sér nægja 100 þús. kr. í staðinn fyrir 170 þús. kr. til ferðakostnaðar, en það var fellt, og enn fremur, að stjórnin reyndi að komast af með 400 þús. kr. í staðinn fyrir 500 þús. kr. vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum, en ekki þótti það heldur tækt og var kolfellt. Hefur hún þó auk þessa til umráða 200 þús. kr. upp í kostnað við alþjóðaráðstefnur á vegum annarra en utanrrn. og 500 þús. kr. vegna samninga við önnur ríki. Áður hefur Alþfl. oft lagt til, að dregið væri úr kostnaði við utanríkisþjónustuna, en það hefur jafnoft verið drepið umsvifalaust. Með risnu og svo kallaðri staðaruppbót hafa sendiherrarnir í Kaupmannahöfn og Osló um 150 þús. kr. hvor, og eru það skattfrjálsar tekjur. Svona há eru launin talin þurfa að vera vegna ægilegrar dýrtíðar í þessum löndum. Kemur þetta að vísu illa heim við það, sem almennt er álitið, að Íslendingar eigi heimsmet í dýrtíð, og ekki kemur það heldur vel heim við það, að óbreyttum starfsmönnum í þessum sendiráðum er ætlað að geta komizt af með 27–28 þús. kr. árstekjur, þ.e. mennskar og venjulegar árstekjur, miðað við íslenzka dýrtíð og íslenzk launakjör. Það virðist a.m.k. vera nokkuð gamaldags hlutfall milli launa undirmanna og yfirboðara í utanríkisþjónustu Íslands, og væri full ástæða til að endurskoða það atriði. Hér heima hafa ráðh. t.d. ekki nema tvöföld verkamannalaun, og er ekkert út á það að setja. Sendiherralaunin í Stokkhólmi og London eru nokkru hærri en í Kaupmannahöfn og Osló, eru 190 þús. kr. hjá hvorum, talin á sama hátt, og í París og Washington 293 þús. kr. hjá hvorum. Þar eru árslaun mennskra undirmanna 42 þús. kr. Yfirmaðurinn hefur þannig um sjöfalt kaup á við undirmennina. En þó tekur fyrst í hnúkana, þegar kemur að sendiráðinn í Moskvu. Ég man ekki betur en að vinir okkar, kommúnistar, hafi stundum verið að fræða okkur á því, að í ríki verkalýðsins væri dýrtið öll lækkandi, þar væri því gott að búa og láta sér liða vel, aðeins ef maður hefði sómasamleg laun, en í áætlun ráðuneytisins um kostnað við sendiráðið í Moskvu er þó gert ráð fyrir því, að sendiherra vor austur þar þurfi að fá 672 þús. kr. í skattfrjálst árskaup, auðvitað að meðtalinni risnu og staðaruppbót. Mér kæmi ekki á óvart, þó að hlustendur haldi, að ég hafi annaðhvort mismælt mig eða sé nú að fara með algerlega staðlausa stafi, en hvorugu er til að dreifa. Sendiherra vorum í Rússlandi eru ætluð 672 þús. kr. árslaun. Skrifstofustúlka hans, bifreiðarstjóri og húsvörður, sem er sennilega jafnframt lífvörður, eiga að hafa tæplega 300 þús. kr. árslaun samtals, og virðist það vera sama hlutfall og í auðvaldsríkjunum, nálægt því 1:7 milli yfirmanns og undirgefins. Kaup þessara fjögurra Íslendinga, sem við þurfum að hafa í utanríkisþjónustunni austur í Rússlandi, verður þannig 970 þús. kr., en þar við bætist 380 þús. kr. sem annar kostnaður við veru þeirra í ríki verkalýðsins. Þannig verður heildarkostnaðurinn vegna fjögurra landa vorra þar austur frá 1 millj. og 350 þús. kr.

Samkvæmt uppgjöri Hagstofu Íslands í haust var greiðslujöfnuðurinn við útlönd á árinu 1952 óhagstæður um 47 millj. og 800 þús. kr. Fljótt á litið kynnu þessar tölur ekki að þykja svo mjög ískyggilegar, en þegar betur var að gáð, höfðu þær þó nokkuð alvarlegan boðskap að flytja. Niðurstaðan byggðist nefnilega á því, að 75 millj. kr. gjafafé og 60 millj. kr. tekjur af varnarliðinu voru þá taldar til tekna. Þannig vantaði raunverulega nærri 183 millj. kr. til þess, að atvinnuvegirnir stæðu undir greiðsluhallalausum viðskiptum við útlönd á seinasta ári. Nú skyldu menn ætla, að þessi niðurstaða hefði orðið þeim, sem viðskiptamálum okkar stjórna, til aðvörunar og að þeir hefðu gert einhverjar ráðstafanir til að efla framleiðsluatvinnuvegina eða draga úr innflutningi á óþarfavarningi, en hvorugt hefur verið gert. Hæstv. ríkisstj. skorti dug til þess að framkvæma það fyrrnefnda, en vill ekki með nokkru móti draga úr innflutningi óþarfans, því að á honum byggist ofurgróði okraranna, sem stjórnin á allt líf sitt undir. Sjálfstfl. syngur bara sitt uppáhaldslag um viðskiptafrelsi, og þar við situr.

Niðurstaðan um vöruskiptajöfnuðinn 11 fyrstu mánuði þessa árs er þá líka allt annað en uppörvandi eða glæsileg. Hagstofan er rétt nýbúin að tilkynna, að hann sé óhagstæður um 313 millj. kr. „Dýpra og dýpra“, sagði viss persóna, og dýpra og dýpra sigur sífellt á ógæfuhliðina um fjárhagslegt sjálfstæði Íslands í höndum núverandi íhaldsstjórnar. Tvö dæmi nægja til að sýna, hver afstaða stjórnarinnar er til innflutningsmálanna. Hún lét í haust flytja inn a.m.k. 20 fiskibáta fyrir 12—14 millj. kr., og nú rétt nýskeð er fluttur inn enskur ostur, sem kostar rúmar 20 kr. kg í innkaupi, en er seldur hér á milli 90 og 100 kr. kg, og þetta gerist, þegar allir kjallarar mjólkurbúanna eru fylltir af 1. fl. osti íslenzkum og meðan smjörið liggur í tugum tonna undir skemmdum og ríkissjóður vor ver rúmum 45 millj. kr. til þess að örva sölu á íslenzkum landbúnaðarafurðum. Hvílík fyrirmyndarstjórn á viðskiptamálum Íslendinga og hvílík dæmalaus umhyggja fyrir íslenzkum aðalatvinnuvegum !

Þá er ekki heldur svo sem okkar unga lýðveldi sé skuldlaust. Nei, skuldirnar fara síhækkandi með ári hverju þrátt fyrir samfelld góðæri. Innanlands skuldar ríkissjóður 120 millj. kr. Hjá Alþjóðabankanum skuldar hann 70 millj. kr. Í Englandi skuldar ríkið 57 millj. kr., í Bandaríkjunum 87 millj. kr., og innlendar og erlendar lausaskuldir nema 80 millj. kr. Samtals voru skuldir ríkissjóðs í árslok 1952 þannig taldar 490 millj. kr., og eru þær nú sennilega komnar á sjötta hundrað millj. kr.

Það fer sífellt í vöxt, að ríkisstj. líti á ríkissjóðinn sem einkasjóð sinn. Fjárveitingavaldið er í verulegum atriðum komið úr höndum þingsins. Fé úr hafnarbótasjóði, raforkusjóði, brúasjóði o.s.frv. er ráðstafað mjög eftir geðþótta hvers ráðh. um sig, og því er ekki skipt af þinginu. Þetta býður hvers konar spillingu heim. Þá er forganga æðstu valdamanna í þá átt að næla sér í hvers konar smáfríðindi, sérréttindi og forréttindi alveg óþolandi og jafnframt þráðbein braut til vaxandi spillingar. Brennivinsog tóbakshlunnindin sælu náðu ekki til margra í fyrstu, en hví þá ekki að veita þeim næst, þessum og svo hinum, enda er það nú orðið svo, að það er orðinn fjölmennur hópur háttsettra embættismanna, sem fær brennivín og tóbak á innkaupsverði. Hvar átti svo sem að stöðva sig? Eðlileg og sjálfsögð mörk voru engin auðfundin. Eina færa leiðin hefði verið sú að stemma á að ósi, en það var ekki gert.

Risna tilheyrði í fyrstu aðeins embætti forsrh., að ég hygg. Nú skipta þeir embættismenn tugum, sem krefjast risnufjár og fá það. Fríir bílar fylgdu örfáum embættum fyrir fáum árum, en nú er vafasamt, að nokkur viti tölu þeirra embættismanna og undirsáta í þjónustu þeirra, sem aka í fríum bíl upp á ríkisins kostnað. Það kom fram í þingbyrjun fsp. um bílakostnað ríkissjóðs og ríkisstofnana. Slíkum fsp. á samkvæmt þingsköpum að svara eftir viku, en það hefur þvælzt fyrir blessuðum forsrh. allt til þessa að upplýsa, hvað í þessu fúasári þjóðfélagsins felist. En það er á almannavitorði, að ef sönn og tæmandi skýrsla fæst um þetta bílamál, um viðgerða-, viðhalds- og rekstrarkostnað þeirra, þá velta þau hlunnindi nú á háum upphæðum og koma víða við.

Hingað til hefur það verið talið alveg sjálfsagt, að þingflokkarnir sjálfir bæru kostnað af þingflokkafundum, en í sumar þótti það allt í einu góð latína, að ríkissjóður skyldi kosta farareyri og ferðalög þm. í stjórnarflokkunum, þegar þeir voru kallaðir hvað eftir annað til Reykjavíkur á fundi í þingflokkum stjórnarliðsins. Þetta er að rugla hrapallega saman hlutverki tveggja sjóða, sem ekki hafa sama hlutverki að gegna. Ríkissjóður á þá fyrst að koma til skjalanna, ef þingheimur allur er boðaður til fundarhalda í þarfir Alþ. sjálfs, en ekki fyrir einstaka flokka.

Ég hef áður nefnt, að söluskattur og verðtollur eru nú til samans um eða yfir 200 millj. kr. Þegar menn hafa þetta í huga, getur engum runnið það til rifja, að stóreignaskatturinn, sem auðmönnum þjóðarinnar var ætlað að greiða í sambandi við gengislækkunina vegna gróða síns allt frá árinn 1940, verður nú aðeins um 50 millj. kr., og má sú upphæð greiðast smám saman á 20 árum. En nú er upplýst, að 20 ríkustu einstaklingar og 20 ríkustu félögin í Reykjavík eiga 556 millj. kr. í eignum. 50 millj. kr. stóreignaskatturinn á alla auðmenn landsins verður því harla hlægileg upphæð, ef þetta er haft í huga. En þannig telur hæstv. ríkisstj. efalaust að dreifa eigi skattabyrðunum á ríka og fátæka á Íslandi.

En þá kemur að stærsta dæminu um spillinguna í opinberu lífi. Vegna vitlausra ákvæða í gengislækkunarl. hefur innheimta þessa skatts orðið að fáránlegu fyrirbæri. Það hefur nefnilega komið í ljós, að sumum gjaldendum þessa skatts hefur tekizt að græða á því, að lagður var á þá stóreignaskattur. Einn þeirra er hv. 3. þm. Reykv., Björn Ólafsson, fyrrverandi ráðherra viðskiptamála. Hann var svo heppinn, að á hann var lagður 126 þús. kr. stóreignaskattur vegna verksmiðjunnar, sem framleiðir Coca-coladrykkinn. Upp úr þessu hafði hann það, að hann losnaði við skúrgarm, sem rifa átti til grunna. Hann borgaði skattinn með skúrnum og kom þannig skyldunni á að rifa skúrinn yfir á ríkið. Ríkissjóður varð að borga 22 þús. kr. fyrir að rifa skúrinn, en hafði áður fengið af honum 17 þús. kr. leigutekjur. Ríkissjóður fékk þannig engan stóreignaskatt hjá þessum virðulega skattborgara og ekki heldur frá Coca-cola-verksmiðjunni. Niðurstaðan varð þvert á móti sú, að ríkissjóður fékk að borga 5 þús. kr. reikning fyrir að rífa skúrinn, sem orðinn var í vegi fyrir bæjaryfirvöldum Reykjavíkur. Annað ekki.

Þá er líka vitað, að Kveldúlfur h/f hefur borgað stóreignaskatt sinn með bryggjuræksni og fallandi húsaskriflum norður á Hesteyri í Jökulfjörðum.

Og þriðja dæmið og það ljótasta er í fáum orðum á þessa leið: Þegar Kveldúlfur hafði fengið að borga stóreignaskatt sinn með Hesteyrareignum, kröfðust Thorsbræður þess af fjmrh., að þeir fengju einnig að borga sinn persónulega stóreignaskatt með ofangreindri eign í hinu mannlausa þorpi. Þessu neitaði fjmrh. Þá fóru þeir Thorsbræður í mál við ríkissjóð. Þeir töldu sig hafa búið þannig um hnútana, þegar lögin voru sett, að fúinn og ryðið á Hesteyri yrði þeim góður gjaldeyrir, þegar til skattgreiðslunnar kæmi. Og ekki brást þeim heldur bogalistin um það. Hæstiréttur varð að fallast á, að þeir bræður mættu borga ríkinu stóreignaskatt sinn með svínastíu, kolageymslu, smiðju Kveldúlfs á Hesteyri og fleiri ámóta eignum. Og nú er bara fróðlegt að vita, hvernig hæstv. fjmrh. gengur að koma skattpeningi samráðherra síns, hæstv. forsrh., í verð. En eitt er víst, að það er dómur almenningsálitsins, og honum verður ekki áfrýjað, að svona viðskipti eiga ráðherrar allra manna sízt að eiga við ríkissjóð Íslands.

Ég get ekki að því gert, að mér kemur í hug sagan um Ólaf Tryggvason og þann rauðskeggjaða, þegar vandræðin voru með að finna kjaltréð í Orminn langa. Er þar skemmst af að segja, að ormétið var tréð, sem vísað var á. Og spilling sú, sem ég hef hér verið að fletta ofan af, bendir því miður til þess, að ormétnir máttarviðir séu og í námunda við Ólaf Tryggvason Jensen Thors, hæstv. núverandi forsrh. Íslands. En það versta er, að sú spilling kemur ofan frá, frá æðstu yfirstjórn þjóðfélagsmálanna, og sýkir svo auðvitað allan þjóðlíkamann, því að „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“.