15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

1. mál, fjárlög 1954

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er fáu hægt að svara á örfáum minútum. Ég var ekkert hissa á ræðu hv. þm. Hannibals Valdimarssonar í gær. Hann deildi fast á stjórnina fyrir há fjárlög, en miklu fastara þó fyrir að hækka þau ekki með því að samþ. útgjaldatill. Alþfl. — En svo fór ég að athuga sparnaðartill. Hannibals. Sú till., sem mesta athygli vakti, var að fella niður skólaeftirlitið. Hvernig stendur á þessu? spurði ég sjálfan mig. Hannibal er þó skólamaður. Ég rannsakaði málið. Í ljós kemur, að þetta skólaeftirlit hefur rannsakað Hannibal og kært hann fyrir að taka á einu ári 30 þús. kr. fyrir að gegna ekki skólastjórastörfum. Svona piltar ættu ekki að prédika siðfræði hér á Alþingi.

Út af rafmagnsmálunum segi ég það eitt, að ég get fullyrt, að báðir stjórnarflokkarnir lögðu megináherzlu á þau mál, og ég tel annað þarfara en að ráfast um, hvorra hlutur er stærri eða áhugi meiri í þeim efnum.

Út af ummælum hv. þm. Bergs Sigurbjörnssonar um húsaleigu utanríkisráðherra vil ég upplýsa, að ég krafðist þess sem forsrh., að utanríkisráðherra væri tryggt húsnæði utan Tjarnargötu 32, sem nú er orðið opinbert móttökuheimili ríkisstjórnarinnar. — Út af þingfararkaupi hæstv. utanrrh. vísa ég til þess, sem hæstv. fjmrh. upplýsti í gær. — Það var ekki von, að hv. þm. Bergi Sigurbjörnssyni þætti mikið koma til minnar ræðu hér í gær. Hún var nefnilega öll um málefni.

Ég hef komið illa við hv. þm. Gils Guðmundsson. Hann getur sjálfum sér um kennt. Hann talaði hér í gær um útveginn af meira yfirlæti en þekkingu, og ádeila hans var órökstudd og illvíg. Ég sýndi fram á, að árásir hans beindust allar að því, sem bjargað hefur sjómönnunum og verkamönnunum frá atvinnuleysi og hörmungum. Ég lagði fyrir hann nokkrar spurningar, sem ræða hans gaf tilefni til, og ég bað um svör í dag. Ég bað hann m.a. að sanna þau ummæli, að sjómenn hefðu tapað á bátagjaldeyrinum eða að Samband ísl. fiskframleiðenda hagnaðist á lágu fiskverði. Ég vissi auðvitað, að þetta var aðeins rugl eða blekkingar, en ég spurði til þess að afhjúpa þennan hv. þm. Það hefur tekizt. Í öllu glamrinu heyrðist ekki eitt orð um þessar fullyrðingar þingmannsins. Hann kaus þann kostinn að þegja, og það var líka sæmst. Ég skal nú enn hrella hann með því að upplýsa, að það var rangt, sem hann sagði, að bátagjaldeyririnn hefði aðeins hækkað fiskverð til sjómanna um 10 aura. Fiskverðið hækkaði ekki um 10 aura, heldur um 30 aura, úr 75 aurum í kr. 1.05. Fáir ljúga meira en um helming, segir máltækið. Ég skal líka hrella þennan hv. þm. með því að fræða hann um það, að fiskverðið í Noregi orsakaðist af aflabresti. Kaupendur hafa stórskaðazt vegna hins háa kaupverðs, og ríkið hljóp þá líka undir bagga með þeim með stórkostlegu framlagi til þess að lækka eða minnka skaða þeirra að nokkru leyti.

Mætti ég aðeins vera að því að stunda þennan þingmann eins og prestur stundar fermingarbarn, þá mundi mér án efa takast að sýna honum, hvílíkur endemis vaðall flest af því, sem hann er að fara með hér, er. En aðalatriðíð er það, að ég sannaði, að stefna stjórnarinnar í atvinnu- og fjármálum, og þá einkum málum útvegsins, hefur bægt böli frá dyrum almennings. Ég sannaði, að vegna aðgerða ríkisstj. ættu landsmenn nú við betri kjör að búa en nokkru sinni fyrr. Ég skoraði á þennan þingmann að svara því, hvort hann þyrði að hverfa frá þessari stefnu, og segja þá, hvað í staðinn ætti að koma. Heyrði nokkur hann svara þessu? Nei, áreiðanlega enginn, af því að hann gerði það ekki. Hann þagði um þetta eins og flest annað, sem máli skipti. En út af brigzlyrðum hans í minn garð um svík við sjómennina skal ég af fullri einurð segja honum það, að munurinn á honum og mér er sá, að hann hefur lifað af sjómönnunum, en ég hef reynt að leggja mig í líma til þess, eftir fremstu getu, að aðstoða þá í lífsbaráttunni, enda eiga þeir ekki annað skilið af mér.

Ég lét þennan hv. þm. sýna fleira af innræti sínu heldur en hann kærði sig um. Undir yfirskini kurteisinnar felst nokkuð óvenjulegt innræti. Það sýndi öll ræða hans hér í kvöld. Dylgjurnar um, að skyldfólk ráðherranna nyti einhverra sérstakra fríðinda, og annað svipaðs eðlis, sem var meginkafli ræðu hans, er með því lágkúrulegasta og rætnasta, sem heyrist í opinberum umræðum á Íslandi. — Ég afhjúpaði þennan þingmann loks í því, að hann kveinaði undan því, að kommúnistunum líkaði vel við mig og litu mig hýru auga. Ja, hann má bezt vita þetta, því að sjálfur hefur hann verið og er kommúnisti, og þá skil ég vel, hvernig á því stendur, að hann er svona sár við mig og vill heldur finna lófa minn en handarbak. Það er af því, að forsmáð ást er alltaf sár.

Mér varð á að brosa, meðan ég í tilhlýðilegri andakt hlýddi á ræðu hins sterka stjórnarliða. hv. þm. V-Húnv., Skúla Guðmundssonar. Mér fannst hann vera að plokka fjaðrirnar af stjórninni, enda hefur verið mjög vísað til ræðu hans. Hann sagði, að það væri að vísu gott og blessað að létta dálítið þunga beinu skattanna, en það væri nú svona og svona að vera að lækka skatta, ríkið gæti kollsteypzt. Mér leizt ekki á hjálparhelluna. En þá mundi ég, að Skúli er formaður í mþn., sem hefur tekið að sér að deila þessum fríðindum, tuttugu prósentunum, réttlátlega niður á milli skattþegnanna. Ágætt, hugsaði ég, og ég stakk þessari fallegu og nýstárlegu skattalækkunarfjöður aftur beint í stjórnarhattinn.

Þá sagði Skúli Guðmundsson víst meira um verzlunarmálin en hann ætlaði sér. Hann hafði allt á hornum sér út af því, að fjárhagsráð skuli vera lagt niður: eiginlega væri nú ekkert nýtt spor stigið, lagabreyting væri óþörf, reglugerð hefði nægt, verzlunarfrelsi fengju menn ekki nú af þeirri einföldu ástæðu, að það hefði þeim hlotnazt með stjórnarsamningnum 1950. Ég hneigi mig f.h. Sjálfstfl. og þakka fyrir þá viðurkenningu, sem felst í þessum síðustu ummælum hv. þm. Skúla Guðmundssonar, því eins og allir vita, voru stjórnarsamningarnir 1950 aðeins samningar um að lögfesta og framkvæma hið mikla frv. minnihlutastjórnar Sjálfstfl. um gengisskráningu o.fl. Þetta hól Skúla Guðmundssonar er því alveg verðskuldað. Hitt stendur eftir, að eins og Salómon konungur fann móðurina, þegar hann sá, hvor kvennanna, sem deildu um barnið, elskaði það, þannig geta menn skilið skyldleikann milli frelsishugsjónar okkar sjálfstæðismanna annars vegar og Skúla Guðmundssonar hins vegar í ræðu hans hér í gær. En Skúli ætlar nú samt að styðja verzlunar- og byggingarfrelsisfrumvarpið. Ég þakka honum fyrir það, og ég met það miklu meira en nöldrið og sting þá líka þessari fjöður aftur í stjórnarhattinn.

Hins vegar hafði nú þessi hv. þm. fengið ofurást á frelsi varðandi sölu á útflutningsafurðunum. Ég segi Skúla Guðmundssyni og öðrum það í mesta bróðerni, að útgerðarmenn eru ekki félagslyndar í menn en svo, að þeir mundu ekki nær allir sem einn, og þar með hv. þm. Lúðvík Jósefsson, standa að þessum samsölum sínum, ef þörfin þrengdi þeim ekki saman. Ég var að fara á fjörurnar í haust um að gefa vissar vörur alveg frjálsar, svo sem skreið, ísfisk o.fl. Ég leitaði umsagnar framleiðendanna. Þeir mótmæltu allir. Og varðandi saltfiskinn, sem Skúli Guðmundsson talaði mest um, vil ég aðeins mínna hann á það, að í Portúgal, Spáni, Ítalíu og Grikklandi, þ.e.a.s. öllum löndum, sem kaupa nær .allan íslenzka fiskinn, fer aðeins einn maður með innkaupin. Ég spyr nú hv. þm.: Dettur honum eða dettur nokkrum óvitlausum manni í hug, að Íslendingar græði á því, að margir aðilar fari að bjóða íslenzka fiskinn þessum eina kaupanda? Þegar margir bjóða, en aðeins einn kaupir. endar sagan alltaf á sama hátt: Kaupandinn græðir. Þetta vita allir útgerðarmenn, og það er einmitt vegna þessarar vissu, sem þeir halda dauðahaldi í sín samtök.

Þessum umr. er nú að ljúka. Ég er volkinu vanur, og ég hef nær þrjá áratugi staðið í eldhúsverkum, ýmist til sóknar eða varnar. Ég minnist sjaldnast að hafa heyrt stjórnarandstöðu jafnvesæla og auma sem nú. Ég er ekki að gera lítið úr ræðumönnunum, en það er þá eitthvað bogið við málstaðinn.

Umræðurnar skilja eftir mynd af mönnum, sem ekkert hafa að segja, en vilja þó ekki þegja, innbyrðis fjandsamlegum, þreyttum og getulausum mönnum, máletnasnauðum og hugsjónalausum. Þeir hafa engan nýjan boðskap að flytja þjóðinni, yfirleitt engan boðskap að flytja; þeir ætla ekkert, vilja ekkert, vita ekkert og geta ekkert, eða vita a.m.k. ekkert, hvað þeir vilja, og geta þess vegna ekkert. Ekkert. Það er litið, en það er allt. Þessir neikvæðu menn geta ekkert fyrir þjóð sína gert. Ekkert. Ekkert nema rífast hver við annan og rífa niður það, sem aðrir byggja upp. ekkert. Á þeim er því ekkert að byggja. Þangað sækir enginn neitt. Ekkert. Og haldi þeir þannig áfram, þá munu þeir bráðlega sanna það, að til kjósenda landsins eiga þeir sjálfir ekkert erindi. Ekkert.

Gegn þessum þunnu fylkingum stendur breiðfylking stjórnarliðsins, að sönnu ekkert kærleiksheimili, en þó ekki barnlaus fjölskylda. Við erum eins og hjón í kaldri sambúð, sem elska þó börnin sín. Stór verketni tengja okkur saman. Við ætlum að slíta viðjar og höggva hlekki. Við ætlum að afhenda þjóðinni athafnafrelsi sitt að nýju. Við viljum gera þetta með þeim mesta hraða, sem auðið er, vegna þess að við vitum, að þjóðin elskar frelsið og þráir það. Og við vitum líka, að frelsið er aflgjafinn mikli, sem einn megnar að sigra óblíða náttúru og sækja í skaut hennar þann auð, sem falinn er þar, auðinn, sem bíður þess framtaks og þreks; sem frelsið leysir úr læðingi. Þennan auð munum við sækja, því að okkur vanhagar um hann. Með honum ætlum við að bæta úr lánsfjárþörf útvegsins. Með honum ætlum við að sigra myrkur og færa ljós og yl inn á hvert heimili landsins. Með honum munum við rífa braggana og byggja yfir þá, sem þar hafa búið, og stofna ný heimili, þar sem unga kynslóðin getur mótazt. Með honum munum við bæta kjör þeirra, sem í dreifbýlinu búa. Með honum viljum við halda jafnvægi í bæ og byggð. Með honum vonum við að varðveita gamla íslenzka menningu og herða hana í eldi þess, sem skærast lýsir í þekkingu hins nýja tíma. Allt þetta og margt fleira ætlum við að gera, jafnframt því sem við reynum að verja þjóðarskútuna áföllum, þegar stormsveipar óvæntra atburða steypast yfir hana.

Við ætlum yfirleitt margt, og það er einmitt það, að við ætlum, munum, vonum og viljum, sem í bili skilur okkur og stjórnarandstöðuna, sem ekkert ætlar. Ekkert. Hreint ekkert. Það er þessi vilji okkar til að koma einhverju góðu til leiðar, sem mun tengja landsfólkið við okkur föstum böndum vona og trausts. Og það er sá ylur og sú birta, sem hvert loforð, sem efnt er, hver hugsjón, sem rætist, færir inn í líf okkar stjórnmálamannanna, sem því veldur, að þrátt fyrir erjur og kalda næðinga er hlutskipti okkar öfundsvert, líf okkar auðugt og gleðiríkt.

Jólin fara nú að nálgast. Mér finnst, að hv. stjórnarandstæðingar verðskuldi það af mér eftir frammistöðuna, að ég óski þeim gleðilegra jóla. Ég geri það af heilum hug. Ég óska þeim og öllum öðrum gleðilegra jóla. — Góða nótt.