12.02.1954
Neðri deild: 46. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil reyna með fáum orðum að svara langri ræðu.

Það er fundið að því, að sett skuli hafa verið brbl. um þetta efni. Ég skal viðurkenna, að ég átti von á því og bjóst við, að það mundi verða

gert, því að það er heldur óvenjulegt, að sett séa brbl., meðan Alþ. er í fríi. En þó eru dæmi til þess. Það hefur verið gert, — ég hef af handahófi tekið hér tvö dæmi, — það var 1935, að tvisvar sinnum voru sett brbl., meðan Alþ. var í fríi. Málið var þannig vaxið, að við töldum það svo aðkallandi að setja lögreglustjóra á völlinn, að það mætti ekki dragast, því þó að komið væri með frv. til Alþingis, eftir að það kom saman aftur, þá mundi það taka nokkurn tíma, þangað til það hefði verið samþykkt. Hinu mætti finna að, að við skyldum ekki koma því í verk að koma slíku frv. í gegn, áður en Alþ. fór í frí. En um það er bezt að segja, að störfin voru þá svo mörg og mörg þessi verkefni voru enn á reiki, að því var ekki komið í verk. Ég ætla ekki að fjölyrða um það meira.

Það var einnig annað atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. setti út á, en það er orðalagið á 1. gr., þar sem stendur:

„Umdæmi Keflavíkurflugvallar miðast við samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 tekur til og eru eign ríkisins.“

Svo er mál með vexti, að ríkið hefur lagt til land undir þau svæði, sem Bandaríkjamenn dvelja á, og er þar fyrst að nefna allt það svæði, sem er undir Keflavíkurflugvelli sjálfum, og það svæði, sem alls konar önnur starfsemi er á, sem tilheyrir varnarliðinu. Auk þess er svæði, sem radarstöð hefur verið reist á nálægt Sandgerði fyrir utan flugvallarsvæðið. Enn fremur hygg ég, að komið geti til mála svæði það, sem loftskeytastöð hefur verið reist á, en því miður er ég ekki nógu kunnugur því. Stöðin mun þó ekki vera talin á samningssvæðinu enn. Umdæmið nú er því svæði flugvallarins og svæðið í kringum radarstöðina hjá Sandgerði.

Þessi brbl. eða þessi lagasetning er bein afleiðing af forsetaúrskurði þeim, sem var auglýstur í haust um starfaskipti milli ráðherra ríkisstjórnarinnar. Með þeim úrskurði voru utanrrn. yfirleitt falin öll þau mál, sem snertu varnarliðið. Samkv. skilningi hæstv. dómsmrh. heyra einnig öll dómsmál, sem snerta Keflavíkurflugvöll, varnarliðið og menn, sem starfa þar, undir utanrrn., þ.e.a.s., að utanrrh. er einnig dómsmrh. í þeim málum, sem snerta Keflavíkurflugvöll og önnur samningssvæði, svo að því leyti eru lögin ekki að koma með neina nýjung.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um það, að hér væri verið að fara inn á nýjar brautir, það væri verið að taka hér svæði út úr og set,ja þau undir sérstaka tegund af löggæzlu. En ég get ekki fundið, að það sé rétt hjá honum. Við vitum, að það hafa iðulega veríð tekin svæði út úr öðrum löggæzlusvæðum, t.d. Keflavík sjálf var með lögum tekin út úr Gullbringu- og Kjósarsýslu, og það var settur sérstakur lögreglustjóri þar á sínum tíma. Það eru mýmörg dæmi hér á landi, svo að það er ekki neitt sérstakt við þetta og engin undirmál við það, þó að lög séu sett um sérstakan lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli. Ástæðan er blátt áfram sú, að á Keflavíkurflugvelli er saman komið margt fólk, bæði herlið, erlendir starfsmenn og fjöldi af íslenzkum mönnum, sem eru búsettir og vinnandi þarna á vellinum, og þar sem margt fólk er saman komið, má búast við, að ýmsir árekstrar verði og þar sé meiri löggæzlu þörf en á fámennum svæðum. Þetta eru einfaldlega ástæðurnar fyrir því, að lögreglustjóri hefur verið settur á Keflavíkurflugvelli. Á hinn bóginn hefur bæjarfógetinn í Hafnarfirði bent mér á það sjálfur, að það væri erfitt fyrir embætti hans að anna því að sjá um störfin á Keflavíkurflugvelli, bæði löggæzlu og framkvæmd dómsmála. Tilgangurinn með því að setja lögreglustjóra þarna var sá að reyna að fá harðari löggæzlu og tollgæzlu. — Það eru ýmis fleiri mál, eins og verkaskiptingarúrskurðurinn tekur fram, og yfirleitt öll mál, sem snerta flugvöllinn, sem heyra undir utanrrn. — Ég held, að ég hafi þá upplýst hv. 2. þm. Reykv. um það, sem hann spurði um þessi atriði. Hann skaut hér fram, hvort lögreglustjórinn mundi hafa eftirlit með gjaldeyri á vellinum. Ég geri ráð fyrir því, að svo sé, og ef hann kemst að brotum á gjaldeyrislögunum, þá sé hans hlutverk að hindra þau og gæta þess, að gjaldeyrislögunum sé hlýtt eins og hverjum öðrum landslögum. Það, sem hv. 2. þm. Reykv. spurði um olíusölu á vellinum, þá geri ég ráð fyrir, að það eftirlit heyri undir gjaldeyriseftirlit bankanna.

Ég sé nú ekki, að það sé fleira, sem ég þurfi að svara í sambandi við þetta. En hv. 2. þm. Reykv. blandaði hér inn í eða spurðist fyrir um samningana við Bandaríkjamenn. Ég verð að segja, að ég er ekki viðbúinn að gefa neinar verulegar upplýsingar um það atriði núna. Slíkt yrði þá að koma í fyrirspurnarformi. Ég bjóst ekki við, að því yrði blandað inn í þetta mál. En hann spurði, hvort undirnefnd utanrmn. hefði verið látin fylgjast með samningunum, og ég verð að svara því játandi. Hún hefur verið kölluð saman á fund og verið látin vita um, hverjar kröfur við gerum á hendur Bandaríkjamönnum. Annars álít ég, að hér hafi ekki verið farið fram með neinni leynd, því að í þeim ræðum, sem ég flutti hér á þingi í desember, var minnzt á öll aðalatriðin úr okkar kröfum, sem síðar voru svo borin fram í nótu til Bandaríkjanna. Það er því engin leynd yfir þessum málum. En hitt hlýtur hv. 2. þm. Reykv. að skilja, að meðan er verið að semja um viðkvæm atriði, þá er ekki gott að vera að flíka þeim út um borg og bý og láta þau koma í blöðunum. Því miður verð ég að segja, et hans flokksblað fengi eitthvað af slíkum upplýsingum, þá mundi það ekki túlka þær svo vinsamlega, að heppilegt væri. Ég vil benda honum á, að hans blað hefur fengið tilkynningar frá ráðuneytinu eins og önnur blöð, og venjulega, því miður, er snúið út úr þeim og þær faldar inni í umbúðum, sem ritstjórinn skrifar sjálfur um þær, eins og t.d. núna nýlega, þá er tilkynnt var um það, að Bandaríkjamenn af einhverjum ástæðum hefðu hætt við flutninga eða skipti á hermönnum í flugvélum, en í stað þess látið skip koma hingað fyrst um sinn, sennilega einungis yfir vetrarmánuðina, þá var þessi frétt öl] úr lagi færð í blaðinu. Hann þarf því ekki að undra það, þó að við séum ekkert ginnkeyptir fyrir því yfirleitt að hlaupa með viðkvæm mál í blöðin og þau komi í blaði hans með mjög óvingjarnlegum túlkunum og rangfærslum. Ég get lofað Alþ. því hér, að þegar samningarnir eru komnir það á leið, að við getum um það sagt endanlega, hvað úr þeim verður, þá mun ekkert verða dulið fyrir Alþ. og engin leynd höfð á um þá. Ég get aðeins gefið þær upplýsingar, að að mínu áliti ganga samningarnir að sumu leyti betur en ég hefði þorað að vona. Ég hef ef til vill verið örlítið svartsýnn, þegar á þeim var byrjað. Að minnsta kosti held ég, að óhætt sé að fullyrða, að samningarnir ganga betur en samningarnir í Berlin núna. En sem sagt, það er mjög langt í land, að þeim sé lokið. Atriðin eru mörg, sem um þarf að ræða, en um sum atriðin álit ég að hægt sé að fullyrða, að við fáum okkar vilja framgengt. Um þær ráðleggingar, að segja samningnum upp og byrja nýja, er það að segja, að það er allt annað mál og allt annar hugsanagangur, sem liggur þar á bak við.

Ég vona, að hv. þm. hafi þá fengið þær upplýsingar, sem hann óskaði eftir eða ég get látið honum í té um þessi atriði.