23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

167. mál, tollskrá o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. frsm. fyrir að gefa skýringar á því, hvernig þessi mál hafa gengið í n., og viðurkenni, að þar er rétt skýrt frá.

Það er rétt, að hann persónulega reyndi miðlun í þessu máli, sem ég gat ekki fallizt á af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var mér kunnugt um, að milliþn., sem hafði fjallað um þetta mál. vildi ganga lengra til móts við þá menn, sem hér um ræðir, heldur en till. hv. 1. þm. Eyf. var. Ég sá enga ástæðu til þess að ganga þar af leiðandi skemmra heldur en þeir menn, sem höfðu fjallað um þetta í milliþn., vildu gera og vildi þá heldur lúta þeim kosti, að till. mínar yrðu felldar og málið lægi óafgreitt, þar til hægt væri að taka það upp síðar. Hin ástæðan — og hún er veigameiri — er sú, að það er upplýst í málinu, að milliþn. hefur farið inn á þá braut að lækka í il hálfs 'hálfunnið efni, sem flutt er inn í landið til iðnaðar. Á ég þar við tölul. 14 í tollskrárfrv., kakaódeig. Það kom erindi um þetta atriði til fjhn., mótmæli frá 5 verksmiðjum, sem sjálfar vinna hér úr kakaóhnetum slíkt kakaódeig eins og hér um ræðir, brenna hneturnar sjálfar, vinna kakaódeigið og telja, að gengið sé hér mjög á sinn rétt með því að fella niður helminginn af þeim verndartolli, sem verið hefur. En það kom einnig inn annað erindi frá eiganda einnar verksmiðju, sem hefur ekki haft löngun, fjárhagslega möguleika eða hyggindi til þess að kaupa sér nægilegar vélar í sína verksmiðju til þess að vinna úr slíku hráefni. Milliþn. hefur litið meira á hag þessa eina manns, sem þannig hefur búið í haginn í sambandi við sinn iðnað, og lagt til, að felldur verði niður helmingurinn af innflutningstollinum, til þess að hann gæti haft hag af því fyrir sína verksmiðju, gegn hagsmunum hinna fimm, sem eru miklu lengra komnir á þessu sviði. Ég ætla ekki að gera nefndinni, nm. eða flokkunum og sízt af öllu hæstv. fjmrh. getsakir um það, að hér sé að verki sérhagsmunasjónarmið vegna gjaldkera Framsfl., sem hefur fengið þessi fríðindi, sem þó sjálfstæðismönnum er neitað um. Ég ætla ekki að gera þeim það upp, að því sé þannig varið. En ákaflega slær það mann illa, þegar svona er gengið frá einstökum málum í sambandi við afgreiðslu frv. Ég ætla þá ekki heldur að gera þeim það upp, að það sé vegna þess, að einn áhrifamikill framsóknarmaður er forstjóri fyrir dósaverksmiðjunni, að svo fast er haldið í verndartoll á hálfunnum dósum. En þegar málið er skoðað í þessu ljósi, verður það óneitanlega dálítið einkennilegt, að það skuli hittast svona á, að það skuli verið að verja hér ákveðna sterka flokksmenn eins ákveðins pólitísks flokks og fara alveg öfugt að í hvoru tilfellinu sem er, eins og ég hef bent á. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls.