06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

178. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Skattanefndin svo nefnda var skipuð m.a. til þess að endurskoða löggjöfina um tekjuöflun sveitarfélaga. N. er búin að leggja í þá endurskoðun allmikið verk, en verkefnið er vandasamt og verður ekki leyst í skyndi. Samband íslenzkra sveitarfélaga hefur einnig starfandi n. við sömu viðfangsefni, og ég held, að ég megi fullyrða, að henni hafi ekki miðað hraðar en skattamálanefndinni, þótt hún hafi ekki haft önnur viðfangsefni líka eins og skattamálanefndin. Ég skal engu spá um það, hver verður niðurstaðan af endurskoðun þessari, en vegna þess að frv., sem n. samdi um breytingu á l. um tekju- og eignarskatt, felur í sér ákvæði um skattfrelsi sparifjár, varð að koma fram líka frv. til breyt. á útsvarslögum, er undanþægi spariféð útsvarsálagningu. Öllum kemur, að ég held, saman um, að annars væri skattfrelsi sparifjár ekki mikils virði, af því að skattar af því til ríkis eru litlir í samanburði við útsvörin til sveitarfélaganna. 1. gr. frv. þessa, sem nú liggur hér fyrir, er um þetta eitt og þarf ekki frekari skýringar.

2. gr. frv. er aftur á móti um það, að niðurjöfnunarnefnd sé skylt að leggja fram með útsvarsskrá skýrslu um þær reglur, sem hún hefur farið eftir við álagningu útsvaranna, svo sundurlíðaða og skilmerkilega, að hver gjaldandi eigi að geta reiknað út útsvar sitt. Einnig er niðurjöfnunarnefnd skylt að gefa sérstaklega hverjum gjaldanda, sem þess krefst, nákvæmar sundurliðaðar upplýsingar um það, hvernig útsvar hans er á lagt. Sú ævaforna regla gildir enn í l. um útsvör, að þau skuli lögð á eftir efnum og ástæðum. Þýðir þetta í raun og veru, að niðurjöfnunarnefndirnar skuli meta, hvað sanngjarnt sé að hver gjaldandi beri hátt útsvar með tilliti til alls og alls, er hann snertir fjárhagslega. Þessi regla er miðuð við það, að niðurjöfnunarmennirnir þekki vel efni og ástæður gjaldendanna. Hún getur verið og er góð regla í fámenni, og áður en farið var að telja fram til skatts, hlaut hún að vera aðalregla. En í fjölmenninu, í þeim sveitarfélögum, sem hafa marga gjaldendur, stenzt hún ekki. Þar getur hún meira að segja verið skaðræðisregla, vegna þess að þar vantar niðurjöfnunarnefndir nákvæmni kunnugleikans, og verk niðurjöfnunarnefndar hlýtur að verða meira og minna af handahófi og getur leitt af sér fjarstæður í álagningu.

Niðurjöfnunarnefndir hafa í seinni tíð myndað sér ýmiss konar útreikningsreglur við álagningu útsvaranna. Þær eru mjög sundurleitar, þessar reglur, ein aðferð höfð í þessu sveitarfélagi og önnur í hinu, en flestar miða meira og minna við skattskrár, en þó með ýmsu móti. Nálega allar niðurjöfnunarnefndir slengja svo ofan á útreikninga sína eða draga frá þeim eftir efnum og ástæðum einstakra gjaldenda, og verður þetta í stærri sveitarfélögunum, eins og t.d. stærri bæjarfélögunum, mjög ónákvæmt og handahófskennt. Af þessu leiðir svo, að, gjaldendur geta ekki fylgzt með því, hvernig útsvör þeirra eru á lögð, eða leitað réttar síns um leiðréttingar á útsvörum, eins og þó er ætlazt til að menn geti. Um þetta hafa komið miklar kvartanir til skattamálanefndarinnar og nefndin gengið úr skugga um, að þær eru ekki að ástæðulausu fram komnar, enda vita það þeir, sem við sveitarstjórnarmál hafa fengizt, að í þessum efnum hafa lausatök verið mjög víða.

Til þess að ráða hér nokkra bót á strax, lagði n. til, að ákvæði þau, sem 2. gr. frv. inniheldur, yrðu lögleidd, og ríkisstj. féllst á að bera fram þá till. n. Með þessu ákvæði, ef að l. verður, er hert á því, að niðurjöfnunarnefndir vandi verk sin, og gjaldendum tryggðar upplýsingar um álagninguna.

Í þessu sambandi tel ég rétt að geta þess, að mikið hefur verið rætt um hin svo nefndu veltuútsvör í skattamálanefndinni. Þau hafa viða verið á lögð og rétturinn til þess að leggja þau á talinn fyrir hendi. Veltuútsvarið er talið falla undir ákvæðið „ástæður“. Ef veltuútsvar verður lögleitt eftirleiðis, sem ég fyrir mitt leyti álít rétt, eða öllu heldur óhjákvæmilegt, þá kemur víst flestum saman um, að það eigi að vera frádráttarhæft við skattaframtal. Veltuútsvar er þess eðlis. Mjög kom til orða að gera veltuútsvarið strax frádráttarhæft, þ.e. að ákveða um það í þessu frv., en þá blasti við, að það gat ekki komið til framkvæmda undireins, af því að mörg sveitarfélög hafa ekki haldið veltuútsvari aðgreindu, heldur hefur það gengið inn í heildarútsvar gjaldandans, verið óákveðinn hluti af útsvari og engin skýrsla til um, hve stór hluti. 2. gr. frv., ef að l. verður, er undirbúningur þess eða leggur grundvöll að því, að hægt verði að framkvæma frádrátt veltuútsvara við skattaframtöl 1955, ef næsta Alþ. telur rétt að gera þau frádráttarhæf.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Meiri hl. fjhn. mælir með frv. óbreyttu. Um afstöðu minni hl., hv. 4. þm. Reykv. (HG), er mér ekki kunnugt.