16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við frv. um fuglafriðun, sem hér liggur fyrir til umr.

Þær till., sem ég geri til breytinga, eru í samræmi við erindi, sem félag bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum hefur sent Alþ. og liggur fyrir á lestrarsal, og eru þar allnákvæmar grg. fyrir hverju um sig af þeim atriðum, sem hér er gerð brtt. við.

Ég vil láta þess getið, að ég vantreysti á engan hátt þeim ágætu mönnum, sem frv. hafa samið. Þeir eru margir hverjir ágætir vísdómsmenn í fuglafræði og vita góð skil á þeim hlutum, sem þeir hafa hér fjallað um. Ég tel þó, að vel fari á því að auka við þeirra tillögur því, sem hinir reyndustu menn hafa við að bæta og miðar að því að vernda stofn íslenzkra nytjafugla. Í félagi bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum eru ýmsir af þeim mönnum, sem hafa hvað mesta og lengsta reynslu að baki í því efni, hvernig fugl getur orðið bezt til nytja, og hafa að sjálfsögðu sem slíkir fullan áhuga á því, að ekki sé gengið á fuglastofninn.

Lagafrumvörp, sem samin eru út frá almennum sjónarmiðum, taka í sumum tilfellum ekki nægilegt tillit til sérstöðu þeirrar, sem á hverjum stað kann að vera, og því hagar einmitt þannig til í sambandi við veiði lunda og annarra nytjafugla í fuglabjörgum úteyja, að frv. virðist öllu meira sniðið við nytjar af æðarfugli og öðrum þeim fugli, sem fremur sést til af alfaraslóðum.

En hér eru sem sé breytingar, sem gera ráð fyrir því, að nýting fugls í fuglabjörgum í eyjum við strendur landsins geti orðið sem fullkomnust, og vitna ég að öðru leyti til grg. þeirrar, sem Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja undir forustu þess fróða og ágæta manns, Árna Árnasonar símritara, hefur sent Alþ. og liggur fyrir á lestrarsal.