16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að víkja fáeinum orðum að þeim athugasemdum, sem fram komu hjá hv. frsm. varðandi fuglaveiðasamþykktir. Það mun vera alveg rétt, sem hann tók fram, að það eru heimilaðar fuglaveiðasamþykktir í Vestmannaeyjum og í Drangey, og það er á þeim stöðum ákaflega auðvelt að boða alla þá hlutaðeigendur, sem hagsmuna hafa að gæta í þessum eyjum, þar sem er um svo smátt svæði að ræða. Sama er að segja um þá tilvitnun, sem fram kom hjá hv. frsm. varðandi stofnun veiðifélaga og fiskiræktarfélaga, sem venjulega ná til einnar ár, og þarf ekki að boða á slíka fundi meira fjölmenni heldur en þá menn, sem meðfram ánum búa, og gengur það þó eða hefur gengið fullörðuglega sums staðar á landinu að koma slíkum samþykktum á með nokkurn veginn sæmilegum hætti. Allt öðru máli er að gegna í þessu sambandi, ef ætti að setja á fuglaveiðasamþykktir, t.d. um bann gegn rjúpnaveiðum yfir stórt svæði, því að það gefur auga leið, að það er víða svo ástatt á landinu, að það væri þýðingarlaust að ætla sér að setja slíka samþykkt, nema hún næði yfir stórt svæði og venjulega þá yfir fleiri sýslur en eina. Við skulum hugsa okkur t.d., að það væri þýðingarlítið fyrir Borgfirðinga að setja sér slíka samþykkt, ef hún væri ekki einnig gildandi fyrir Mýrasýslu, og svona er viða. Það hefði næsta litla þýðingu fyrir t.d. Austur-Húnvetninga að setja slíka samþykkt, ef hún næði ekki yfir Vestur-Húnavatnssýslu líka og jafnvel stærra svæði. og þá er það áreiðanlega nokkrum örðugleikum bundið að boða allan almenning á fund til þess að ganga frá slíkum samþykktum, sem sýslunefnd kynni að setja, og hitt miklu einfaldara og eðlilegra, sem ég hef stungið upp á í mínu frv., að á slíka fundi séu ekki, þegar þannig stendur á, boðaðir nema hreppsnefndarmenn á svæðinu, eða ef um er að ræða, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, bæjarstjórnir líka. Þetta vildi ég biðja hv. n. að athuga, en ef hún fæst ekki til þess, þá mun ég freista þess við 3. umr. að flytja um þetta brtt. við frumvarpið.