24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir stjórnarfrv. því, sem hér liggur fyrir, og fórst það skilmerkilega eins og vænta mátti.

Ég vil leyfa mér að segja það í upphafi, að það er ástæða til þess að fagna því stjórnarfrv., sem hér liggur fyrir til leiðréttingar í skaftamálunum, enda þótt á sama tíma verði að geta hins, að það er mjög margt óunnið enn þá í þessum málum miðað við það, sem að hefur verið stefnt og stefna ber að.

Þó að hér séu mörg og merk og athyglisverð nýmæli til bóta í þessum málum, þá er ég ekki sammála hæstv. fjmrh. um það, að það sé fávíslegt tal, sem heyrzt hafi hjá sumum, að mþn. í skattamálum væri seinvirk. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar, að ef heilbrigður áhugi hefði verið fyrir hendi hjá þeim, sem forustu hafa haft þeirra mála, þá væri nú allverulega miklu lengra komið á þeirri braut, sem hér er gengin með þessu frv., heldur en raun ber vitni.

Hæstv. ráðh. vísaði til þess, að Danir hefðu haft til endurskoðunar skattal. sín víst í um 10 ára skeið, en sú mþn., sem nú hefur starfað, væri ekki nema tveggja ára gömul. Þess er nú að minnast, að hér var skipuð mþn. í skattamálunum á árunum 1947–43, og sat hún alllengi að verki og skilaði þá veigamiklu nál., sem að sjálfsögðu hefur síðar verið töluverður grundvöllur í þeim umr. til endurbóta skattal., sem fram hafa farið, og æ ofan í æ hafa þessi mál verið á dagskrá hjá okkur hér á Alþ. og á opinberum vettvangi hinn síðari áratug.

Ég vil svo leyfa mér aðeins að vísa nokkuð aftur í tímann í sambandi við þetta mál og byrja þá þar, að eftir að grundvallarstefnubreyting var mörkuð í fjármálastjórn ríkisins, þegar Sjálfstfl. fór einn með stjórn landsins eftir kosningarnar 1949, og á ég þar við þá stefnu, sem mörkuð var með viðreisnartill. Sjálfstfl. í efnahagsmálum, gengisbreytingu og fleira, þá töldum við sjálfstæðismenn að minnsta kosti, að það væri ekki öllu lengur hægt að verja það að fresta endurskoðun á skattal. Þá var létt ýmsum útgjaldaliðum af ríkissjóði með breyttri stefnu, svo sem greiðslum til útflutningsuppbóta og ýmsum kostnaði, er áður hafði verið vegna meira ríkiseftirlits heldur en nú var stefnt að. Þess vegna fluttum við hv. þm. Ak. þáltill., sem fól ríkisstj. að hefjast handa um heildarendurskoðun á skattamálunum, á Alþ. 1951, og sú till. var samþ. Á grundvelli hennar var skipuð sú mþn., sem starfað hefur að þessum málum, og það frv., sem hér liggur fyrir, er vissir þættir úr árangri þeirrar starfsemi, sem þar hefur verið innt af hendi. Við töldum hins vegar á síðasta þingi, að það miðaði of hægt áfram störfum mþn. Með vísun til þess fluttum við hv. 2. þm. Eyf. sérstakt skattalagafrv. Það hlaut nú ekki náð fyrir augum þingsins í fyrra, en ég get þó ekki varizt að þegar þetta frv., sem nú liggur fyrir, lítur dagsins ljós, þá blandast mönnum ekki hugur um það, að í verulegum og veigamiklum atriðum hafa verið troðnar sömu slóðir sem við vildum fara með flutningi okkar máls á s.l. þingi. Það er alveg sérstaklega áberandi, að það er tekinn sá þáttur málanna, sem við tókum sérstaklega út úr og töldum, að auðveldast væri að ná samkomulagi um og hefði átt að vera búið að ná samkomulagi um fyrr en nú, og það er skattlagning einstaklinganna eða á persónurnar. Í okkar frv. var hins vegar gert ráð fyrir að láta hinn flóknari þátt nýrra skattalaga, ákvæði um félögin, bíða, og það er eins gert hér í þessu frv., sem nú liggur fyrir, þó að engum blandist hugur um það, að ærin sé þörf og ekkert minni þörf endurskoðunar á því sviði.

Ég vil ekki, að menn misskilji það, að enda þótt ég telji, að mþn. í skattamálum hefði mátt hafa meiri hraða á, þá met ég þó til fulls það, sem áunnizt hefur, og þá veigamiklu nýbreytni til bóta, sem felst í þessu frv. Ég vil sérstaklega vekja athygli á nokkrum atriðum, sem hér skipta bersýnilega mestu máli. Það er lækkun skatta á fjölskyldufólki. Það er hinn stórhækkaði persónufrádráttur. Það eru skattfríðindin í sérstæðum tilfellum, annars vegar heimilisaðstoðarfrádráttur í sambandi við það, þegar kona vinnur utan heimilis eða aflar sérstakra skatttekna, og eins sérstakur frádráttur fyrir einstakar mæður og feður, og hins vegar er sérstakur frádráttur við stofnun heimilis. Það er í fjórða lagi einfaldari og réttlátari framkvæmd skattalaganna með því að fella niður hinn umfangsmikla umreikning á tekjum vegna verðlagsbreytinga að vissu marki og innheimta einn skatt í stað þriggja, þ.e.a.s. tekjuskattsins, viðaukaskattsins og stríðsgróðaskattsins. Og það eru í fimmta lagi ákvæði um, að við hækkun eða lækkun kaupgjaldsvísitölu skuli í samræmi við það breyta tölum skattstiga, sem hindra, að aukin dýrtíð valdi sjálfkrafa vaxandi skattþunga. Öll þessi veigamiklu atriði, sem ég nú hef drepið á og met öll mikils, voru meginþættirnir í því skattalagafrv., sem við fluttum á síðasta þingi, hv. 2. þm. Eyf. og ég, þó að ýmis einstök atriði þessa máls séu hér í nokkuð öðru formi og mér fyrir mitt leyti finnist á sumum sviðum sé gengið skemmra en skyldi.

Þá var annað skattamál, sem var til umr. hér á s.l. þingi og olli deilum. Það var frv. um skattfrelsi sparifjár, sem hv. þm. A-Húnv. var 1. flm. að og hafði flutt áður á þingi, og var þetta í annað skipti, sem það frv. var af honum flutt. Helzta fyrirstaðan gegn framgangi þess máls kom þá því miður úr herbúðum hæstv. fjmrh. og hv. form. mþn. í skattamálum, þ.e.a.s. þm. V-Húnv. En það er þeim mun meira gleðiefni nú, að meginstefna þess máls skuli vera viðurkennd í þessu frv., þó að nokkrar takmarkanir séu á ákvæðunum um skattfrelsi sparifjár í þessu frv. fram yfir það, sem var í frv. hv. þm. A-Húnv. En mín skoðun um þetta atriði er sú, að það hefði hæglega mátt taka það til meðferðar og lagfæringar strax á s.l. þingi, eins og þessum málum hefur nú verið skipað í þeim till., sem hér liggja fyrir.

Ég vil svo til viðbótar viðurkenna mörg önnur ákvæði í þessu frv., sem eru til stórkostlegra bóta, eins og hæstv. fjmrh. vék að. Það eru mjög mikið rýmkaðar heimildir til þess að draga frá tekjum iðgjöld vegna ólögboðinna lífeyristrygginga, sem er ákaflega mikils virði og eins og hæstv. ráðh. benti á stuðlar að aukinni sparifjár- eða sjóðasöfnun í landinu, og einnig er heimilt að draga frá hærri iðgjöld af lífsábyrgð heldur en áður var. Í þessu frv. er mjög veigamikið atriði einnig þau skattfríðindi, sem veitt eru leigutökum, vegna hinnar háu húsaleigu, sem margur á við að stríða og er hjá mörgum hverjum eitt erfiðasta viðfangsefnið í efnahagsmálum einstaklinganna.

Það, sem við lögðum einna mesta áherzlu á á s.l. þingi um nauðsyn endurskoðunar skattalaganna á einstaklingunum, var sú gífurlega skattahækkun, sem hin ört vaxandi dýrtíð hafði valdið, og það er viðurkennt vissulega með þessu frv. í framhaldi af yfirlýstri stefnu hæstv. ríkisstj., þegar hún var mynduð að loknum alþingiskosningum á s.l. sumri. Það er gífurlega veigamikið, jafnframt því sem girt er fyrir, að þetta misræmi haldi nú áfram að skapast. Þegar verið er að lækka hér skatta um allverulega upphæð, 29%, sem vissulega er a.m.k. mikið hjá þjóð, sem hefur séð lítið framan í skattalækkanir á umliðnum árum, þá er líka þess að minnast, að skattahækkunin hafði verið ákaflega mikil á undanförnum áratug bara vegna hinnar ört vaxandi dýrtíðar í landinu. Skal ég ekki á þessu stigi málsins eyða tíma hv. þm. í að gera nánar grein fyrir því. Það var sérstaklega rætt um það á þinginu í fyrra og er gerð grein fyrir því einnig í þessu frv. eða grg. þess.

Að öllu athuguðu finnst mér ástæða til þess að meta til fulls og fagna þeim umbótum fyrir fjölskyldufólk, einstaklingana og marga, sem við sérstakar aðstæður eiga að búa, — að meta það, sem hér hefur áunnizt til leiðréttingar í skattamálunum, þeirra vegna. Alveg eins og það var mín skoðun á s.l. þingi, að þá mundi verða umfangsmeira að ganga frá lagaákvæðunum um félögin, þó að þess væri full þörf, þá viðurkenni ég, að þau sömu sjónarmið eru fyrir hendi nú. Þeim mun fremur er hægt að treysta því, að það muni á vinnast verulega í þeim efnum á næsta þingi sem ákvæðin til úrbóta varðandi einstaklingana eru ákveðnari í því frv., sem nú þegar hefur verið lagt fyrir.

Ég vil svo aðeins að lokum leggja áherzlu á eitt, að þegar mþn. í skattamálunum var kosin á sínum tíma samkv. þáltill. okkar þm. Ak., þá var þar lögð megináherzla á þennan þátt endurskoðunarinnar, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Það er nú enn eftir sá þátturinn, sem veit að bæjar- og sveitarfélögunum, og vissulega er þörf þeirra orðin mjög brýn og aðkallandi. Hún var það þegar á árinu 1951, þegar við fluttum okkar þáltill. Þá sátu hér á rökstólum fulltrúar bæjarfélaga, eða bæjarstjórafundur svo kallaður. Þar voru bæjarstjórar úr kaupstöðum landsins ag borgarstjórinn í Rvík, og hafði verið boðað til þessa fundar vegna þess, í hversu mikið óefni var komið um fjárhag sveitar- og bæjarfélaganna. Það hlýtur þess vegna að vera eitt meginatriðið í þessu máli, þegar nú er haldið áfram að endurskoða skattalöggjöfina, að sinna þessum þætti málanna, og vil ég í lok máls míns leggja sérstaka áherzlu á það, að farsællega verði fram úr þeim þætti málanna ráðið á næsta þingi, þegar framhaldstillögur hæstv. ríkisstj. koma fyrir þingið.