08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur tekið til athugunar á ný frv. það, sem hér um ræðir, ásamt þeim brtt., sem fyrir liggja, m.a. brtt. frá hv. 1. þm. N–M. á þskj. 665. Hún ræddi þessar till. alveg sérstaklega við skattstjórann í Reykjavík og við fulltrúa hans, sem sérstaklega hefur kynnt sér þessi mál og starfað að þeim. Þeir tjáðu nefndinni, að í undirbúningi væri mjög ýtarleg greinargerð eða reglugerð, sem hugsað væri að leggja fyrir allar skattanefndir á landinu og skýra ætti hinar ýmsu greinar laganna og m.a. þær greinar, sem rætt er um hér í brtt. á þskj. 665. Skattstjóri leyfði nefndinni að athuga þetta mikla verk, sem er heil bók. Hún hafði nú ekki aðstöðu til að fara verulega í gegnum allt það verk, enda kvað skattstjórinn, að það væri ekki að fullu undirbúið; það væri hugsað að senda það til ríkisskattanefndar og láta það fá athugun þar, svo ætti það að afhugast af ýmsum lögfræðingum, þannig að ákvæðin í reglugerðinni kæmu ekki í bága við ákvæði laganna. Hann taldi m.a., að þegar væri búið að gefa út þessa reglugerð, þá væri ekki eins knýjandi þörf á því að endurprenta lögin, eins og lagt er til hér í 3. brtt., og var þar á skoðun nefndarinnar, að þar sem hér væri um að ræða eingöngu endurskoðun á nokkrum hluta skattalaganna, þá væri ekki eins mikil ástæða til þess að prenta lögin upp og ef hér væri um heildarendurskoðun að ræða; það væri óhjákvæmilegt, að endurskoðunin héldi áfram, að kaflinn um félagaskattinn yrði endanlega ákveðinn á næsta þingi, og að endurskoða yrði alveg sérstaklega á næsta þingi framkvæmdarkaflann, og þegar því verki væri lokið og væri hægt að segja, að hér væri um heildarendurskoðun að ræða, þá væri að sjálfsögðu nauðsynlegt áð prenta lögin upp að nýju, en slíkt væri ekki eins aðkallandi nú og þó alveg sérstaklega vegna þess, að hann kvað mundu verða send skattanefndunum þau gögn, sem ég hef hér talað um. — Þetta var í meginatriðum það, sem skattstjóri sagði um till. í heild.

Ég vil svo í sambandi við 1. brtt., þ.e., að fyrir orðin „eða byggir hús“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. tölul. komi: „eða lýkur byggingu húss“, geta þess, að um þetta hefur verið nokkur ágreiningur í nefndinni. En skilningurinn mun nú samt verða sá, að það sé ætlazt til þess, að viðkomandi aðill hafi byggt húsið fyrir sjálfan sig, þ.e.a.s. til þess að eiga það, og að ákvæðið gildi, þó að húsbyggingunni sé ekki að fullu lokið; það sé ekki hægt að hafa ákvæði um það svo ströng, þótt t.d. vanti að dúkleggja eða eitthvað því um líkt, til þess að húsið sé íbúðarhæft, að þá mætti ekki af þeim ástæðum telja byggingunni ólokið. En ef um það er að ræða, að slík eign yrði seld með ágóða, gildir ekki undanþága fyrir slíkan ágóða af eigninni. Þetta mun vera sameiginleg skoðun nm. og það því nokkuð á valdi skattstofunnar að dæma um það, hvort húsið sé fullbúið, svo að það sé hæft til fasteignamats t.d. Hæstv. ráðherra hafði nú viljað fá inn í þessa grein eða inn í reglugerðina, að takmarkið skyldi vera, þegar búið vær í að framkvæma fasteignamatið, en það er talið óeðlilegt, því að fasteignamatið kann að dragast, þó að húsið sé fullgert, og þess vegna þykir ekki eðlilegt að láta það vera hið endanlega takmark, en sem sagt, að húsið sé þannig, að það sé orðið íbúðarhæft, að þá verði það skoðað sem hann hafi lokið þeirri byggingu hvað þetta snertir.

Um 2. brtt., við 7. gr., er það að segja, að skattstjóri tjáði n., að hann mundi haga framkvæmd reglunnar þannig, að þegar um er að ræða hjónaband, sem á sér stað á síðari hluta árs eða síðustu mánuðum ársins, þá fengi maðurinn leyfi til að telja fram sínar tekjur, og þá væri það eftir vali framteljanda, hvort frádrættinum yrði skipt á milli hjónanna til helminga eða hvort allur frádrátturinn yrði dreginn frá tekjum mannsins, og það væri einnig atriði, sem gert yrði upp á milli skattstofunnar og framteljandans, eða hvort það yrði dregið frá sameiginlegum tekjum hjónanna, ef um hjónaband yrði að ræða, sem væri stofnað til á fyrri helming ársins. Það væri ekkert óeðlilegt, að þetta færi ettir mati skattstjórans og vilja viðkomandi skattaðila, og væri erfitt að gera um þetta fastar reglur, hvort sem væri. Hitt væri líka mögulegt, að mega láta frádráttinn koma fram á tekjum næsta árs, en honum fannst það nú heldur óeðlilegra.

Í sambandi við 1. brtt. hafði ég gleymt að taka fram, að það var nokkur ágreiningur um það á milli n. og skattstjóra, hvenær eign yrði seld. Hann vildi líta svo á og láta setja það inn í reglugerðina, að undirskrift sölusamnings væri gildandi, þ.e., sá dagur, sem sölusamningur væri undirritaður, væri gildandi sem sala á fasteign. Það komu hins vegar fram mjög ákveðnar skoðanir í n., að hér ætti eingöngu að miða við afsalsdag. Eign er raunverulega ekki seld, nema afsal hafi verið gefið. Það er hægt að gera sölusamning um eign, og ef sá samningur er ekki uppfylltur, þá er eignin enn þá í eigu þess manns, sem seldi. Hann getur tekið eignina aftur, en þess að uppboð þurfi að fara fram á eigninni eða án dóms og sátta. Hafi hins vegar afsalið farið fram, jafnvel þó að ekki sé uppfyllt að greiða af þeim skuldabréfum, sem hafa verið látin upp í sem greiðsla, þá getur ekki seljandi gert sig gildandi sem eigandi yfir eigninni nema með sérstökum dómi. Þess vegna eru raunverulega eignaskiptin ekki gildandi fyrr en afsal hefur farið fram, a.m.k. kom sú skoðun fram í n., að það ætti að vera sá dagur, sem ætti að miða við, et eign yrði seld, gagnstætt því sem var skoðun skattstjóra og var í uppkasti að þeim reglum, sem hann hafði sett um þetta atriði. Ég vildi, að þetta kæmi skýrt fram í sambandi við þetta mál.

Um hin atriðin, sem hv. 1. þm. N—M. minntist á, þ.e.a.s. hvað yrðu skoðaðar langferðir og hvort ætti að draga frá kostnað í sambandi við strætisvagnaferðir eða bilakostnað á styttri leiðum á milli vinnustaðar og heimilis en 15 km, þá þykir mér rétt að upplýsa, að í þeirri reglugerð, sem skattstjóri hafði látið semja, var ákveðið takmark, að annað væri ekki skoðað langferðir en þær ferðir, sem væru yfir 200 km frá vinnustað. Nefndin leit nú svo á, að það væri tekinn til nokkuð langur vegur þar á milli, ég minntist á, hvort ekki væri rétt í reglugerðimi að færa þetta niður t.d. í 100 km. Hún vill ekkert segja um þetta í lögunum sjálfum, — það er raunverulega ákaflega erfitt, — heldur yrði þetta að vera í reglugerð, það er þá hægt að breyta því, eftir því sem mönnum þykir eðlilegt, án þess að breyta lögunum. En skattstjóri tjáði okkur, að hann mundi leggja til, að ákvæðið yrði skilið þannig, að það væru aðeins reiknaðar langferðir, sem væru 200 km eða yfir, og að frádráttarhæfur væri ekki annar kostnaður í sambandi við slíkar ferðir en fargjöldin frá og til og aðeins einu sinni á ári. Hvað snertir hins vegar félög almennt og ferðakostnað þeirra fulltrúa til útlanda í sambandi við atvinnurekstur, þá færi það eftir því, hvort skattstofunni á hverjum tíma þætti eðlilegt að taka upp ferðakostnað þeirra starfsmanna eins og hann lægi fyrir á þeirra rekstrarreikningi. og þetta ákvæði um 200 km gilti því ekki í sambandi við rekstur atvinnufyrirtækja. Það gæti t.d. vel verið, að menn hefðu umboðssala til þess að ferðast um landið til að selja vörur o.s.frv. Þetta yrði jafnan að vera á mati skattstjóranna eða skattstofunnar.

Um kostnað við 15 km ferðir eða hinar daglegu ferðir með strætisvögnum sagði skattstjóri, að kæmi sjálfsagt ekki til greina að draga þann kostnað frá, enda væri ógerlegt að geta fylgzt nokkuð með því, hvort slíkur kostnaður væri beinlínis í sambandi við atvinnuleit eða hvort hann væri þá í sambandi við eitthvað annað.

Ég held, að ég hafi þá svarað öllu því, sem hv. 1. þm. N–M. hreyfði í sambandi við þetta mál, og að fengnum þessum upplýsingum frá skattstjóra leggur nefndin ekki til, að þessar brtt. á þskj. 665 verði samþ., telur, að það sé ekki þörf á að setja það inn í lögin, heldur verði þetta reglugerðarákvæði.

Nefndinni þótti hins vegar rétt að athuguðu máli að bera fram 2 brtt. við frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 648. Önnur brtt. er við 12. gr. Það er um, að greinin falli niður, en sú grein ákveður, að 3. málsliður í 32. gr. laganna skuli falla niður. Þessi grein í frv. er um það að taka af eða stytta þann frest, sem þeir aðilar hafa til að skila framtali, sem hafa með höndum vátryggingarstarfsemi eða hafa rekstur á fleiri en einum stað. Það kom bréf frá tryggingarfélögum í Reykjavík, sem færðu fyrir því allsterk rök, að það væri mjög erfitt fyrir þá að skila á þeim tímum, sem lögin ákveða, ef frv. yrði samþ. óbreytt. Raunverulega yrðu þeir þá að færa sitt starfsár yfir á annan mánuð, þ.e.a.s. miða ekki starfsárið við áramót, heldur við september, og er þeim það að mörgu leyti óþægilegt, og þeir óskuðu því mjög eftir að mega halda þessum réttindum óskertum. Eftir að þetta hafði verið rætt við skattstjóra, þá féllst hann á, að það væri rétt að fella greinina niður og alveg sérstaklega með tillíti til þess, að framkvæmdarkaflinn yrði allur endurskoðaður á næsta þingi. Nefndin leggur því til, að þessi breyting verði gerð á skattalögunum.

Þá er einnig breyt. við 7. gr. Þar þótti nefndinni rétt að gera nokkra breytingu, þ. e.: Í stað orðanna í niðurlagi tölul. 4, staflið h „þann tíma, sem þeir eru skráðir á fiskiskipin“ komi: þann viknafjölda, sem þeir eru háðir greiðslu slysatryggingariðgjalda sem fiskimenn. — Hér er um að ræða þær upphæðir, sem menn hafa leyfi til þess að draga frá tekjum sínum í sambandi við hlífðarfatakostnað, við hvað þetta eigi að miðast. Það er sýnilegt, að það er erfitt að framkvæma ákvæðið eins og það er í frv., sérstaklega vegna þess, að menn eru ekki skráðir á minni skip yfirleitt en 12 smál. Hins vegar verða menn að gjalda slysatryggingariðgjöld, þó að þeir vinni á smærri bátum, gjalda fyrir hverja viku, sem þeir eru við slík störf. Það eru að vísu eigendur bátanna, sem greiða fyrir þá. En með þeirri brtt., sem hér er lagt til að gerð verði, á að vera örugglega hægt að fylgjast með því, hve langan tíma þessir aðilar hafa starfað við fiskveiðar, og þá um leið, hve mikla kröfu þeir eiga á frádrætti vegna hlífðarfata samkvæmt þessum fyrirmælum. Þessa brtt. mun ég bera fram skriflega fyrir hönd n. og afhenda hana hæstv. forseta.

Um brtt. á þskj. 730 hef ég ekki annað að segja en að nefndin vildi ekki taka þessar till. upp. Hv. 4. þm. Reykv. mun gera frekari grein fyrir þeim, en n. vildi ekki leggja til, að þær yrðu samþ. hér við þessa umr. Meiri hl. n. leggur til, að frv. á þskj. 648 verði samþ. með þeim breyt., sem ég þegar hef lýst og meiri hl. n. stendur að.