08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 10. landsk. (GÍG) þrjár brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir að lokinni 2. umr. Ég get verið mjög fáorður um þessar brtt. Þær eru að efni til náskyldar brtt., sem ég flutti hér við 2. umr. málsins og náðu þá ekki fram að ganga.

1. brtt. er þess efnis, að ef skattgjald einstaklinga nær ekki fullum 100 kr. eða skattgjald hjóna ekki fullum 200 kr. samkv. þeim skattstiga, sem greinir í 4. gr., þá skuli fella skattinn niður með öllu. Ef þessi till. væri samþ., mundi það svara til þess, að af nettótekjum eða hreinum tekjum hjá einstaklingum um 12500 kr. yrði enginn skattur greiddur, og af barnlausum hjónum yrði ekki greiddur skattur af tekjunum fyrr en þær kæmust yfir 22 þús. kr. Ég tel, eins og ég tók mjög rækilega fram hér við 2. umr., að þessar tekjur séu engan veginn það háar, að réttmætt sé eða eðlilegt að leggja á þær nokkurn skatt, og við það er mín till. miðuð. Þetta hefur engin áhrif á skattstigann og breytir því í engu skattlagningu þeirra, sem eru yfir þessu marki. Það helzt óbreytt, þó að þessi till. verði samþykkt. Mér hefur ekki unnizt tími til þess að gert neina ætlun um, hversu mikilli heildarupphæð þessi niðurfelling skatts á þessum tekjustigum mundi nema, en það er augljóst, að hér getur ekki verið nema um tiltölulega mjög lága upphæð að ræða. Þó að við segðum, að hér væri um að ræða upp undir 10 þús. skattþegna, sem nytu þessara fríðinda, sem er sennilega allt of hátt, þá mundi þó ekki skattalækkunin í heild ná fullri milljón króna. Það er því augljóst mál, að fyrir ríkissjóð munar þetta sáralitlu að því er tekjurnar snertir. Hins vegar mundi þetta fækka tölu gjaldenda mjög verulega og á þann hátt létta bæði innheimtustörfum og álagningarstörfum skattsins. Það er áreiðanlegt, að eins og nú högum háttað borgar sig ekki að leggja vinnu í það að leggja á og innheimta skatt, sem nemur undir þeim upphæðum, sem hér greinir, 100 kr. á persónu. Þó að þetta yrði samþykkt, þá raskar það á engan hátt, eins og ég greindi frá áðan, skattlagningu annarra manna en þessara, en þetta mundi staðfesta þá réttmætu skoðun, að á tekjur á þessu bili ætti engan beinan skatt að leggja, og létta nokkuð á þeim mönnum, sem nú eiga að greiða þessar upphæðir, auk þess sem það sparar mikið vafstur við álagningu og innheimtu.

2. brtt. á sama þskj. er við 7. gr., og er lagt til, að upphaf 1. málsgr. verði orðað á annan veg en í frv. segir. Efnisbreyting samkv. þessari brtt. er sú, að það er gert ráð fyrir, að þeir menn og konur, sem þurfa að dvelja utan heimila sinna vegna atvinnu, ferðast til annarra staða, kaupa sér þar húsnæði og fæði, jafnframt því sem þeir halda uppi heimili á sínum fasta setustað, skal njóta sömu kjara og sjómenn á fiskiskipum, sem fá fæðiskostnaðinn dreginn frá, áður en skattur er lagður á tekjurnar. Þetta virðist í alla staði eðlilegt, að hin sama regla gildi um annað fólk, sem vegna atvinnu sinnar verður að dveljast og kaupa sér allar þarfir utan síns fasta heimilis, að það fái að draga slíkan dvalarkostnað frá tekjunum, sem það aflar þar, áður en skattur er á þær lagður. Mér þykir rétt að geta þess, að þessi till. var borin fram í hv. Nd., a.m.k. efnislega eins og þessi, og ef ég man rétt, þá munaði mjög litlu, að hún næði samþykki. Ég held hún hafi verið felld með jöfnum atkv. Þetta sýnir augljóslega, að mikill þorri þm. lítur svo á, að þetta sé sjálfsagt réttlætismál, og ég vildi mega vænta .þess, að þessi hv. d. kynni að meta nauðsyn þessa á réttan hátt og sæi sér fært að greiða þessari till. atkv.

Þá er 3. brtt., við 10. gr., að aftan við hana bætist eins og í till. segir. Þessi till. er að efni til hin sama og ég bar hér fram við 2. umr., sem sé þess efnis, að fjölskyldumönnum sé heimilt að draga frá tekjum sínum, áður en skattur er lagður á þær, ákveðinn hundraðshluta, leggja hann í sérstakan sjóð, í sparisjóði eða annarri innlánsstofnun, og binda hann við ákveðnar framkvæmdir, þær framkvæmdir að koma upp íbúð fyrir sig og sína fjölskyldu, þ.e. til eigin nota. Sé þetta fé ekki notað til þess, sem lögin ákveða, þ.e.a.s. að byggja eigin íbúð, heldur tekið út og notað til annarra þarfa, þá kemur það til skatts á því ári, sem það er tekið út. Þessi fríðindi, sem hér er gert ráð fyrir að veita þessum einstaklingum, sem eiga ekki sjálfir íbúðir yfir sig og sína, eru alveg hliðstæð við ýmis sams konar skattfríðindi, sem félög og fyrirtæki njóta, sumpart með ákvæðum um afskriftir, sem í mörgum tilfellum eru mjög rifar og óeðlilega rifar í sumum tilfellum, sumpart með till. um varasjóði og nýbyggingarsjóði, meðan sú löggjöf gilti, eins og hv. þm. öllum er kunnugt um. Ég þóttist verða þess var við umr. um till. hér við 2. umr., að ýmsir hv. dm. litu svo á, að þetta væri næsta eðlileg ósk og mjög skynsamleg ráðstöfun til þess að hvetja menn til að spara fé til að eignast sjálfir íbúð, og ég hef því talið rétt að freista, hvort ekki mætti fá þetta samþykkt hér í d. með því að lækka bæði hundraðshlutann og heildarupphæðina, sem um er að ræða, eins og gert er hér í till. Samkvæmt till. nú er gert ráð fyrir því, að ekki megi leggja meira til hliðar en 15 þús. kr. á ári mest og ekki meira en 1/4 hluta teknanna í þessu skyni skattfrjálst og upplæðin alls megi ekki fara fram úr 150 þús. kr., sem þessara skattfríðinda ætti að njóta. Hér er svo í hóf stillt að því er upphæðir snertir, að ég vænti, að hv. alþm., sem telja ástæðu til að gera slíkar ráðstafanir sem þessar, sjái sér fært að fylgja till. Áætlun um, hverju þetta nemi í lækkaðum skatti, er að sjálfsögðu ekki unnt að gera; það yrði aðeins líkindareikningur.

Áður en ég lýk máli mínu um frv., þá þykir mér rétt að vekja athygli hv. dm. á einu atriði í sambandi við skattalögin, sem hefur ekki verið drepið á hér við umr., en ég tel rétt að komi þar fram. Samkvæmt frv., eins og það nú liggur fyrir, virðist vera útilokað, að unnt sé að skattleggja í einu lagi sambúðarfólk, þ.e. karl og konu, sem búa saman eins og hjón, en ekki hafa verið vígð. En eins og öllum hv. dm. er kunnugt, þá hefur skattstofan hér í Reykjavík til þessa heimilað slíku fólki í mjög mörgum tilfellum, a.m.k. ef um barn er að ræða, að telja fram sameiginlega og leggja skattinn á í einu lagi. Ég er því alveg sammála, að sjálfsagt sé, að löggjöfin reyni að hafa áhrif í þá átt, að fólk giftist heldur á venjulegan borgaralegan hátt en að búa í slíkri sambúð sem hér um ræðir. En mér þykir þó rétt að vekja athygli á því, að hér er um verulega breytingu í framkvæmd að ræða frá því, sem nú er. En mér er kunnugt um, að þetta hefur samkvæmt skilningi skattstjóra og ég ætla fjmrn. aðrar afleiðingar, sem sé þær, að slíkt sambúðarfólk sem hér um ræðir og hingað til hefur greitt hjónaiðgjald til trygginganna eða það hefur verið skattlagt sameiginlega af skattstofunni, á nú eftir skilningi þessara stjórnarvalda að greiða einstaklingsgjald hvort fyrir sig, og það hlýtur að leiða til mjög verulegrar hækkunar á gjöldum þessa fólks, því að gjald tveggja einstaklinga, karls og konu, er stórum mun hærra en kvænts karlmanns fyrir hann og konuna. Þetta er rökrétt og sennilega óhjákvæmileg afleiðing af þessum breytingum laganna, sumpart ákvæðum, en sumpart framkvæmd þeirra. (Gripið fram í.) Ja, ekki vil ég fullyrða, að það sé rétt hjá hv. þm. Það mun hafa verið nokkuð á reiki utan Reykjavíkur. (Gripið fram í.) Hefur ríkisskattanefnd breytt því alltaf? (Gripið fram í.) Já, ég veit, að undirskattanefndir hafa ekki breytt þessari reglu undanfarið utan Reykjavíkur. En önnur afleiðing fylgir þessu einnig, að ef sambúðarkona, eins og virðist eiga að vera eftir frv., telst hjú hjá sínum sambúðarmanni, annaðhvort ráðskona eða vinnukona, þá leiðir einnig af því, að það ber að greiða vegna hennar bæði slysatryggingariðgjald og einstaklingsiðgjald. Mér þótti rétt að vekja athygli á þessu í sambandi við umræðurnar hér um tekjuskattinn, án þess að ég sjái, hvernig unnt sé að gera nokkrar breytingar, sem lúta að þessu, á því stigi, sem málið nú er, — enda er ég í sjálfu sér sammála þeirri hugsun, sem á bak við þetta liggur, að eðlilegast sé, að slík sambúð eigi sér sjaldan stað, heldur gangi þær persónur í hjónaband. En mér þótti rétt að láta það koma fram hér í umræðunum og benda á þær afleiðingar, sem þetta hefur í framkvæmd.