05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

3. mál, ríkisborgararéttur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Í nál. hv. allshn. stendur:

„Ýmsir nefndarmenn hefðu viljað gera breytingu á 2. gr. frv. í samræmi við brtt. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. á þskj. 498, en vilja ekki tefla frv. í tvísýnu með því að bera hana fram nú, þar eð mikill ágreiningur er um hana í hv. Nd.

Ég verð að lýsa óánægju minni yfir því, að þeir nm., sem álitu þessa brtt. réttmæta, skyldu ekki taka hana upp, og mér finnst það ekki vera frambærileg ástæða, úr því að frv. er sent til hv. Nd. hvort sem er, að bera við ótta við þá deild. Ed. hefur alveg fullan rétt til þess að láta skoðun sína koma fram, og þá er alveg eins mikil ástæða fyrir Nd. til þess að tefla frv. ekki í tvísýnu, ef slík till. hefði verið samþ. hér, með því að senda það aftur hingað. Ég sé ekki, að hv. Ed. þurfi ætíð að láta í minni pokann eða móta afstöðu sína af því, hvað Nd. vill vera láta.

Ég álít, að þessi brtt. Gylfa Þ. Gíslasonar sé ákaflega sanngjörn. Eins og menn kannske muna, er hún aðeins um það, að þeir útlendingar, sem öðlast ríkisborgararétt, fái að halda nöfnum sínum sjálfir, en að börn þeirra verði að taka upp íslenzk heiti. Ég er ekki við því búinn að samþykkja 2. gr. frv., býst við, að ég nú við þessa umr. greiði atkvæði á móti henni, en geri jafnvel við 3. umr. tilraun með svipaða brtt. og þá, sem er á þskj. 498.

Mér finnst ákaflega hart aðgöngu fyrir þessa menn að þurfa að breyta nafni sínu, kannske rosknir. Nafn mannsins er svo að segja hluti af honum sjálfum, og það er eiginlega eins og að týna sjálfum sér að þurfa að breyta nafni sínu. Mér finnst það ekki, eins og hv. frsm. (LJóh) var að tala um, að þjóðin gerði þessa menn að kjörbörnum sínum, — mér finnst ekki neitt sérstaklega vel tekið á móti þeim með því að kúga þá til að breyta nafni sínu. Það er undarlegt, að það skuli þá ekki fylgja að banna ættarnöfn á Íslandi. Nú sitja hér menn á Alþ., sem bera ættarnöfn, og það hefur enginn neitt við það að athuga, og meira að segja sá maður, sem mest mun berjast fyrir þessu í þinginu, notar ættarnafn. Ég held, að ef menn vilja halda svo fast í þetta, þá ætti að banna ættarnöfn á Íslandi alveg. Það er ekkert meira fyrir Íslendinga að leggja niður ættarnafn heldur en þá, sem öðlast ríkisborgararétt.