03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur lagt fram brtt. á þskj. 711 við frv. það, sem hér er tekið til umr. Brtt. eru þessar:

1) Við 2. gr. Á eftir 1. tölul. bætist nýr tölul., svo hljóðandi: Framlag ríkissjóðs, 2 millj. kr. á ári, í fyrsta sinn á árinu 1956.

2) Við 6. gr. Fyrir „6%“ komi: 51/2%.

Er frv. þetta var til 2. umr. hér í hv. d., gat ég þess, að sjútvn. mundi við 3. umr. flytja brtt. um, að ríkissjóður legði sjóðnum nokkurt árlegt framlag. Var þessa einnig getið í nál. sjútvn. á þskj. 515. Án efa væri æskilegt, að þessi fjárhæð, sem hér er lagt til, 2 millj. kr. á ári, og ríkissjóður á að leggja fram fiskveiðasjóði til eflingar, hefði getað ákveðizt nokkru hærri, en til þess treysti n. sér ekki að þessu sinni. Það er vitað, að fiskveiðasjóður þarf á miklu fé að halda, ef hann á að geta fullnægt, þótt ekki sé nema að nokkru leyti, þeirri miklu eftirspurn eftir lánum, sem útgerðarmenn og aðrir aðilar beina til sjóðsins í æ ríkara mæli. Þá er og vitað, að eftir að þetta frv. er orðið að lögum, aukast skyldur sjóðsins til útlána í þarfir sjávarútvegsins, eins og kveðið er á um í 4. gr. frv.

Í 3. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskveiðasjóður má taka lán til starfsemi sinnar, þegar þörf krefur að áliti sjútvmrh. Er ríkissjóði heimilt að ábyrgjast lán fyrir sjóðinn í þessu skyni, allt að 50 millj. kr.“

Það er vitað, að margir útgerðarmenn og ýmis útgerðarfyrirtæki hafa á s.l. ári og það sem af er þessu ári gert samninga um smíði á fiskiskipum í trausti þess, að smíði þeirra verði lokið fyrir næstu vetrarvertíð. Þá treysta þessir aðilar einnig því, að fiskveiðasjóði verði tryggt nægilegt fjármagn til að lána út á þessi nýju fiskiskip eins og heimilað er í frv. því, sem hér er til umr. og væntanlega verður lögfest á þessu þingi.

Hæstv. ríkisstj. mun hafa að undanförnu unnið að útvegun lánsfjár á erlendum vettvangi, fyrst og fremst til að tryggja byggingu sementsverksmiðjunnar og í öðru lagi fyrir fiskveiðasjóð. Ekki veit ég fyllilega um árangurinn af lánsútveguninni, en treysti því hins vegar, að hæstv. ríkisstj. finni leiðir til þess að sjá fiskveiðasjóði fyrir nægilegu starfsfé, svo að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, þurfi ekki að bíða verulegan hnekki vegna skorts á lánsfé til nýsmíði skipa og til annarra framkvæmda í sambandi við hann.

Brtt. sjútvn. á þskj. 711 stendur n. óskipt að. Vænti ég þess, að hv. d. samþ. þær og afgr. þar með frv. til hv. Ed.