18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu fjhn. til þessa máls, en geri þó ekki ráð fyrir að þurfa að vera langorður um það.

Eins og hv. þm. sjá, hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það er, en minni hl. hefur hins vegar skilað allverulegum brtt.

Þetta frv. um húsnæðislánamálin er búið að eiga nokkuð langan aðdraganda, eins og hv. þm. er kunnugt um, allmikill undirbúningur átt sér stað í sambandi við samningu frv., og það sjálft, eins og það nú liggur fyrir, felur í sér þær niðurstöður, sem orðið hafa í þessu máli innan húsnæðismálanefndarinnar eða þeirrar mþn., sem vann að undirbúningi málsins f.h. ríkisstj., innan ríkisstj. og í samningum við banka, fyrst og fremst Landsbankann, og svo aðra banka, sem einnig eiga hlut að máli, eins og fram kemur í grg. frv.

Þegar um jafnumfangsmikið og flókið mál er að ræða og hér, þá getur menn að sjálfsögðu greint á, bæði um leiðirnar að því marki, sem stefnt er að, og einnig verður vafalaust lengi hægt að halda því fram um slík mál eins og þetta, að úrlausnir þeirra séu ekki fullnægjandi, miðað við þær þarfir, sem fyrir hendi eru. En ég tel veigamest í þessu sambandi að festa sjónir við það, að á undanförnum árum hefur ríkt verulega mikið skipulagsleysi á sviði þessara mála. Það er að vísu svo, að við og við hafa stjórnarvöldin, Alþ. og ríkisstjórnir, gert nokkrar úrbætur í sambandi við lánsfjáröflun til íbúðabygginga, en allt hafa það verið bráðabirgðaráðstafanir, sem ekki hafa haft það markmið að leysa varanlega úr eða leggja grundvöll að frambúðarlausn þessara mála eða koma á almennri skipan fasteignalánakerfis í landinu. Þannig var t.d., þegar gengisbreytingin varð síðast, varið nokkru af gengishagnaðinum til ýmissa sjóða til íbúðabygginga. Af tekjuafgangi ríkisins hefur stundum verið varið tilteknum upphæðum til íbúðabygginga. En þetta hafa allt saman verið bráðabirgðaúrlausnir. Eins má segja um lánadeild smáíbúða, sem starfað hefur síðustu árin og fengið alls til sinnar ráðstöfunar um 36–40 millj. kr. Hér er hins vegar gerð tilraun til þess að leggja grundvöll að frambúðarlausn málsins, þannig að það komist í kerfi eða komist á föst skipan veðlána til íbúðabygginga og með þeim hætti, sem frv. nánar tiltekur.

Að sjálfsögðu má búast við því, að erfiðleikarnir verði meiri í upphafi, að fyrst í stað verði erfiðast að fullnægja þeirri þörf, sem fyrir hendi er um lánsfé, en ef að líkum lætur, þá hygg ég, að slíkt veðlánakerfi eins og hér er lagður grundvöllurinn að ætti að geta átt það fyrir sér að vaxa og eflast og í framtíðinni að verða þess þá fremur umkomið að sinna hlutverki sínu, og jafnvel mætti hugsazt, að það gæti orðið þess megnugt að sinna viðtækari verkefnum en nú er um að ræða, þar sem aðeins er miðað við íbúðabyggingar eða lán til nýrra íbúða.

Meginþættir þessa frv. eru þrír. Sett er á stofn almennt veðlánakerfi í landinu, og það má segja, að Landsbankinn hafi tekið að sér forgöngu og forustu þeirra mála. Það er gert ráð fyrir að setja á laggirnar húsnæðismálastjórn, sem sinni ýmsum aðkallandi verkefnum í sambandi við íbúðamálin, bæði varðandi fjárhagshlið málanna og einnig tæknihlið málanna. Í sjálfu sér eru þetta óaðskiljanlegir hlutir, því að þegar verið er að reyna að afla fjár til íbúðabygginga, þá skiptir auðvitað miklu máli, að um leið séu gerðar tilraunir til þess að færa byggingarkostnaðinn niður í landinu, þannig að notist betur að lánsfénu, og að öðru leyti að tileinka sér þær tækniframfarir, sem á hverjum tíma eiga sér stað, og verður það aðalverkefni þessarar húsnæðismálastjórnar að hafa forgöngu á því sviði. Loks er gert ráð fyrir í þriðja kafla tilteknum afskiptum og framlögum af hálfu ríkisvaldsins til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum.

Ég sagði áðan, að menn gæti sjálfsagt greint nokkuð á um leiðirnar, þegar slíkt mál liggur fyrir, og einnig mundu sjálfsagt heyrast raddir um, að þær úrlausnir, sem hér eru reyndar, séu ekki fullnægjandi. Án þess að ég skuli nokkuð gera að umtalsefni sérstaklega þær brtt., sem fram koma frá minni hl., og hugleiðingar hans í nál., þá er það þó áberandi, að hv. minni hl. sýnist, að hér sé ekki nógu langt gengið, það þurfi bæði að afla meira fjár til íbúðabygginganna og með betri kjörum. Ef þessu er stillt upp eins og gert er af hv. minni hl., það sé byggt svo og svo mikið, þurfi að byggja svo og svo mikið og þetta fé, sem hér um ræðir, hrökkvi ekki nema fyrir það litlum hluta af þessum byggingarkostnaði, þá má auðvitað sýna fram á, að það verði kannske erfitt að byggja allar þessar nauðsynlegu byggingar með ekki meira lánsfé en þessu. En á hitt er réttara, held ég, að líta, að hér hefur verið byggt gríðarlega mikið á undanförnum árum, og ekki sízt í höfuðstað landsins, þar sem fólksfjölgunin hefur verið mest, en einnig í næsta nágrenni Reykjavíkur og í ýmsum öðrum kaupstöðum á landinu, og við þær aðstæður, að menn hafa ekki haft aðgang að neinni almennri lánsstofnun. Ég tel þess vegna, að það sé fremur ástæða til að festa sjónir við þær breytingar, sem frv. felur í sér frá núverandi fyrirkomulagi.

Þegar Reykjavíkurbær hóf byggingarframkvæmdir í smáíbúðahverfinu, undirbjó þar lóðir, þá var þannig ástatt á peningamarkaðinum, að það var ekki hægt að gefa þessu fólki, sem þarna hófst handa um byggingar, ávísanir á neinar almennar lánsstofnanir eða sjóði. Síðar, eins og ég sagði, var að vísu stofnuð lánadeild smáíbúða, sem hefur haft til ráðstöfunar um 40 millj. kr. og lánað það allt saman út. En það gerði nú ekki meira en það, að lánin frá þessari stofnun voru takmörkuð við 25 þús. kr. utan Reykjavíkur og held ég 30 þús. í Reykjavík. Þegar litið er á slíkar tölur eins og þessar og ef ætti að hafa þá aðferð, sem ég sé að hv. minni hl. hefur, þá er erfitt að koma heim og saman, hvernig í ósköpunum var hægt að byggja þessar íbúðir allar með ekki meira lánsfé, en eftir stendur sú staðreynd, að risið hafa upp í þessum bæjarhluta á örskömmum tíma eitthvað nálægt 600 íbúðir, og mundi áreiðanlega margur, sem hefur lagt hart að sér við byggingar á undanförnum árum þar og annars staðar, hafa orðið feginn, ef þeim hefði þá gefizt kostur á því lánsfé, sem ætlað er nú með þessu frv. að veita mönnum aðgang að.

Menn hafa fett fingur út í það hér við 1. umr., og einnig kemur það fram í minnihlutaálitinu, að lánin séu ekki með nógu hagstæðum kjörum, vextirnir of háir og lánstíminn kannske of stuttur, og auðvitað hefði verið æskilegt að hafa vextina lægri og lánstímann lengri. En hér verður að miða við þær aðstæður, sem eru í þjóðfélaginu í dag, og ég fyrir mitt leyti, sem hefði mjög lagt áherzlu á og gerði það við undirbúning málsins, að lánstíminn væri lengri og vextirnir lægri, hef orðið að taka tillit til þeirra sjónarmiða, að eftir því sem vaxtakjörin eru hagstæðari, vextirnir lægri, og lánstíminn lengri, þá má einnig ætla, að erfiðara væri um vík að afla fjár til þessa veðlánakerfis. Verður þá að meta það, hvort menn kjósa heldur að hafa hagstæðari lán og minna lánsfé til úthlutunar eða óhagstæðari lán að þessu leyti varðandi vexti og lánstíma, en líkur fyrir meira lánsfé en ella mundi vera. Og það eru slík sjónarmið, sem úrslitum hafa ráðið um þann lánstíma og þau vaxtakjör, sem hér er boðið upp á.

Það er rétt, að eftir þessu frv. eiga allir yfirleitt að sæta sömu kjörum við lánveitingar, og í húsnæðismálanefndinni, sem vann að undirbúningi þessa máls, var einmitt byggt á þeirri hugsun að koma á veðlánakerfi og þá með þeim kjörum, að ætla mætti, að almenningur gæti greitt afborganir og vexti af þessum lánum af þeim launum, sem menn hafa í dag, m.ö.o. greitt fyrir þá þjónustu, sem hér er um að ræða, en hér væri ekki um neins konar styrktarlán að ræða, þar sem vextirnir væru allt aðrir og miklu lægri en almennir vextir í viðskiptalífinu eru. Hins vegar er það svo, að það er misskilningur, sem fram kemur hjá minni hlutanum, að það sé sniðgengin sú staðreynd, að efnahagur manna sé svo misjafn, að það sé ástæða til þess af hinu opinbera að létta undir með þeim, sem höllum fæti standa, vegna þess að það eru önnur lög, sem gilda um lánveitingar einmitt til þeirra, sem búa við erfiðari aðstöðu og sérstaklega eru efnaminni, og á ég þar sérstaklega við lögin um byggingarsjóð verkamanna og svo einnig byggingarsjóði sveitanna, sem bjóða upp á allt önnur lánskjör og aðra vexti en hér er um að ræða, enda sjá menn í hendi sér mjög auðveldlega þann mikla mun á því að byggja í sveitum landsins eða í kaupstöðunum, þar sem verðmætin hafa stigið og menn geta á hverjum tíma selt sínar íbúðir, og á undanförnum árum ævinlega fyrir hækkandi verð frá því, sem byggingarkostnaður var, og er þar allt öðru til að jafna í sveitunum og aðstaða að öðru leyti erfiðari.

Þegar skoðuð eru kjör þau, sem þetta frv. býður upp á, og þau síðan miðuð við lægstu launin, verkamannalaunin, eins og gert er hjá hv. minni bl. fjhn., og sýnt fram á, að það verði erfitt fyrir þá, sem lægst laun hafa, að standa undir þessum lánum, þá fær þessi samanburður ekki staðizt af þeim sökum, að löggjafinn ætlast til þess, að þeir lægst launuðu hafi aðgang að öðrum lánum og með öðrum kjörum en hér er um að ræða. Það er gert ráð fyrir því í frv., að bæði byggingarsjóðum sveitanna og verkamanna verði lánað fé það, sem rúmast í þessu veðlánakerfi, og er þess vegna þess að vænta, að byggingarsjóður verkamanna, sem á undanförnum árum hefur skort fé til sinnar starfsemi, fái með þessu aukið fjármagn og geti betur en áður sinnt þörfum þeirra, sem lægt launaðir eru, og með þeim kjörum, sem þar er boðið upp á og eins og kunnugt er hafa verið 2% vextir og 40 ára lán eða 42 ára lán, en er nú lagt til í öðrum frv. hér, að vextirnir séu hækkaðir um 11/2%.

Ég tel í sambandi við frv., sem hér hefur verið á dagskrá í dag um vaxtakjörin hjá byggingarsjóði verkamanna, að það væri kannske ástæða til að endurskoða ákvæði þeirra laga meira en aðeins snertandi vaxtakjörin, sérstaklega með það fyrir augum, að um allar lánveitingar úr þeim sjóði sé það tryggt, að þeir sitji fyrst og fremst fyrir, sem lægstu launin hafa og mesta ómegðina. Hins vegar hefur mjög frá því verið brugðið á undanförnum árum, og er enginn vafi á því, að stofnun, sem býður upp á þau kjör, sem þar er boðið upp á, verður að gæta þess einmitt, að þeir njóti þeirra kjara, sem mesta þörf hafa fyrir að njóta þeirra fríðinda, sem þar er boðið upp á.

Það kemur fram í frv., að byggingarsjóði sveitanna eru ætlaðar úr þessu veðlánakerfi 12 millj. kr. á næstu árum. Það er hins vegar ekkert tekið til um það, hvað ætlazt sé til að lánað sé til byggingarsjóðs verkamanna, og má vissulega að því finna, eins og gert er í nál. minni hl. Varðandi þarfir byggingarsjóðs sveitanna lá það nokkuð fyrir, hverjar þarfir hans mundu vera til þess að fullnægja eftirspurninni eftir lánsfé til íbúðabygginga í sveitunum á næstu árum. Það hefur ekki legið fyrir við undirbúning málsins á sama hátt varðandi byggingarsjóð verkamanna, enda mun sennilega erfiðara að átta sig á því, hvað mikið fé þurfi til að tæma þarfir hans, því að þar tel ég að væri ekki rétt að miða við þá eftirspurn, sem verið hefur á undanförnum árum og fer miklu lengra en að vera einskorðuð við þá lægst launuðu verkamenn í landinu.

Byggingarsjóður verkamanna hefur lánað 4 millj. kr. á ári núna síðustu árin, og ég veit ekki um 12 millj., eins og stungið er upp á af minni hl., hvort það sé endilega víst, að það sé sú upphæð, sem hann þurfi að fá, en að sjálfsögðu er rétt að leggja áherzlu á, að sá byggingarsjóður eflist í sambandi við þetta veðlánakerfi, en þá held ég líka að þyrfti að hafa framkvæmdina í fastari skorðum en verið hefur um lánveitingar úr byggingarsjóði verkamanna. Þá ber fyrst og fremst, eins og ég sagði, að leggja höfuðáherzlu á þessi tvö atriði, að þeir, sem lægst launin hafa, njóti þeirra fríðinda, sem þar er boðið upp á, og þeir, sem búa við mesta ómegð.

Það má segja, að það sé nokkuð undir hælinn lagt, hvernig þetta frv. verði í framkvæmd, og vissulega er það svo, að ef þau úrræði, sem hér er boðið upp á, reynast ekki eins vel og til er stofnað, þá á auðvitað Alþ. þess kost, eftir að hafa fengið nokkra reynslu, að taka þessi mál til endurskoðunar, þegar það kemur saman aftur.

Eins og grundvöllurinn er lagður að þessu frv., þá tel ég, að það hvíli mjög mikill þungi fyrst og fremst á þeirri forustu, sem þjóðbankinn eða Landsbanki Íslands hefur heitið í þessu máli, og að það fari mjög eftir því, hvernig hann bregzt við, hversu rösklega gengur um að koma á þessu veðlánakerfi og í hve stórum stíl.

Mér finnst í sjálfu sér, að það sé veigamikið atriði í sambandi við þetta mál, að um það hefur ríkt mikill einhugur, bæði milli þeirra manna, sem undirbjuggu málið, innan ríkisstj. og þeirra banka, sem við þetta mál voru riðnir, að leggja grundvöllinn að nýju veðlánakerfi, sem mætti orka verulega til þess að draga úr húsnæðisskortinum í landinu. Þegar það fer saman að segja má, að það hafi lítil] ágreiningur um þetta ríkt í undirbúningi málsins og ríkisstj. hefur sér við hlið við framkvæmd þessa máls jafnákveðin fyrirheit Landsbankans og um er að ræða, þá tel ég, að það sé full ástæða til þess að vænta þess, að þetta frv., þegar að lögum verður, megi beri góðan ávöxt og kannske eftir leiðum þess megi þá nást meiri árangur en menn álíta í fljótu bragði að verða muni.

Ég vil aðeins um síðasta þátt frv. segja það, þar sem ræðir um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, að enda þótt mönnum finnist kannske, að 3 millj. kr. framlag næstu 5 árin frá ríkinu í þessu sambandi á móti jafnháum framlögum frá bæjunum sé helzt til knappt og helzt til lítið, — og get ég vel verið í hópi þeirra, sem hefðu viljað óska, að þetta framlag væri meira, — þá eru þó hér raunhæfar ráðstafanir til þess að liðsinna nokkuð í þessu efni, og það er miklu meira virði en hitt, þó að sett sé á pappírinn löggjöf um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, eins og gert var 1946, en reyndist algerlega óraunhæf og varð að fresta framkvæmd hennar rúmu ári eftir að hún var sett og hefur þar með fáum orðið að liði fyrst í stað og síðar engum.

Ég tel, að með þessu framlagi næstu árin frá ríkinu og með sömu framlögum frá bæjunum eigi að vera hægt að ná verulegum áfanga í útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Bæjarstjórn Reykjavíkur, sem fyrir sitt leyti hefur þegar hafizt handa um byggingarframkvæmdir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis í trausti þess, að ríkisstj. veitti nokkurn atbeina af sinni hálfu, eins og fram kemur nú í þessu máli, bæði með lánveitingum og styrkveitingum, hefur gert þá áætlun, að með þeim framlögum, sem hér er um að ræða, og þeim lánveitingum og annarri aðstoð frá bæjarfélaginu megi útrýma öllum braggaíbúðum í Reykjavík á næstu 5 árum, en eins og kunnugt er, þá eru þær rúml. 500 að tölu. Og ég tel, að það mundi vera mjög viðunandi lausn, ef sá árangur næðist. Auðvitað eru fleiri heilsuspillandi íbúðir en herskálaíbúðir, og verður að hafa hliðsjón af því við framkvæmd þessa máls.

Þegar allt kemur til alls, þá hygg ég, að menn muni almennt fagna þeirri löggjöf, sem hér er á leiðinni, og þykist viss um það, að hún muni bæta mikið úr frá því, sem verið hefur, og í aðalatriðum má segja, að það sé nýr þáttur að hefjast í lánastarfsemi hér á landi, þar sem almenn fasteignalánastarfsemi hefur að verulegu leyti legið niðri á undanförnum árum, en er nú verið að endurvekja hana með nýju veðlánakerfi, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.