19.04.1955
Neðri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að hv. frsm. meiri hl. fjhn., hv. 5. þm. Reykv., skuli hafa viðurkennt, að gagnrýni mín á þessu frv. á kvöldfundinum í gærkvöld hafi þó verið málefnaleg og að brtt. okkar verði ekki taldar vera pólitísk yfirboð í þessu mikilvæga máli, enda ber ekki að líta þannig á þær, heldur liggur að baki þeirra einlægur vilji til þess að reyna að hafa áhrif í þá átt, að mál þetta fari þannig út úr þinginu, að það þjóni betur þeim tilgangi, sem ég skal ekki draga í efa að liggi að baki, heldur en mundi eiga sér stað, ef engin breyting fengist fram á því. Till. okkar hafa verið við það miðaðar, að þær væru auðveldlega framkvæmanlegar af hæstv. ríkisstj., jafnvei þó að ekki yrði gripið til neinna gagngerðra breytinga á efnahagsmálastefnu ríkisstj. á öðrum sviðum, þannig að samþykkt þessara tillagna ætti í sjálfu sér að geta samrýmzt meginþáttunum í stefnu stjórnarinnar í fjármálum að öðru leyti. Svo mjög er þeim í hóf stillt.

Hv. frsm. meiri hlutans hóf mál sitt að öðru leyti á því að endurtaka það, sem hann sagði í gærkvöld, að það ríkti og hefði ríkt eining um þetta mál með þeim aðilum, sem um það hefðu fjallað við undirbúning þess. Ég endurtek enn það, sem ég sagði í gærkvöld, að þetta er ekki rétt. Um þetta mál hafa átt sér stað mikil átök í sjálfum stjórnarherbúðunum og milli þeirra annars vegar og Landsbankans hins vegar. Það má segja, að uppi hafi verið þrjár skoðanir um lausn málsins: Ein af hálfu húsnæðismálanefndarinnar, sem skipuð var þó eingöngu eða aðallega fulltrúum úr stjórnarflokkunum, önnur af hálfu Landsbankans, og þriðja skoðunin virðist hafa verið uppi af hálfu ríkisstj. — og sú verst, að því er mér er næst að halda.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að það er upplýst, að húsnæðismálanefndin lagði til, að komið yrði upp stórum sjóði, húsnæðismálasjóði, sem aflað skyldi fjár til með sérstökum hætti og að sumu leyti nokkuð myndarlegum. Hann skyldi annast lánveitingar til íbúðarhúsabygginga samkv. sérstökum reglum. Þetta vildi Landsbankinn ekki fallast á, og þetta vildi ríkisstj. ekki fallast á. Sömuleiðis skal ég bæta því við það, sem ég sagði í gærkvöld, að mér er kunnugt um, að mjög hafi verið skiptar skoðanir um það milli þeirra manna, sem fjallað hafa um undirbúning málsins, hvað vextirnir ættu að vera háir. Ýmsir þeirra manna, sem tekið hafa þátt í undirbúningi þessa máls, eru mjög óánægðir með það, hversu vextirnir er ákveðnir háir í þessu frv. Um þetta hefur ekki heldur verið samkomulag við undirbúning málsins. Þá hefur enn fremur verið ágreiningur um þriðja meginatriði málsins, sem sagt það, hvern þátt ríkissjóður skyldi taka í fjáröflun til íbúðalánanna. Tillögur húsnæðismálanefndar í þessum efnum voru miklu stórtækari en till. þessa frv. Hún lagði til, að í húsnæðismálasjóð skyldi ríkissjóður leggja einu sinni fyrir allt 10 millj. kr. og að skuldabréf smáíbúðalánadeildarinnar yrðu flutt til veðdeildarinnar, enda greiddi ríkissjóður skuld smáíbúðadeildarinnar við Landsbankann. Þetta hefði þýtt skilyrði til 4 millj. kr. aukinnar lánveitingar á ári. Enn fremur lagði húsnæðismálanefndin til, að í húslánasjóð yrðu veittar 5 millj. kr. á ári í næstu fimm ár og auk þess skyldu sveitarfélög leggja 1% af tekjum sínum í hann, þannig að það er auðséð, að húsnæðismálanefndin vildi vera talsvert stórtækari til opinberra framlaga í þágu húsnæðismálanna en þetta frv. gerir ráð fyrir. Hér hefur komið til skjalanna íhaldssemi hæstv. ríkisstj. og valdið því, að opinber framlög til lausnar þessara mála hafa verið skorin niður.

Í þessu sambandi má enn fremur minna á það, sem raunar var bent á í gærkvöld, að hv. 5. þm. Reykv. hafði sjálfur fyrir nokkrum árum aðrar hugmyndir um lausn þessara mála en gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem hann gerði þá ráð fyrir því, að veðdeild Landsbankans skyldi efld á allmyndarlegan hátt og talsvert myndarlegri en þetta frv. erir ráð fyrir. Í raun og veru er það svo, að það er varla hægt að finna nokkrar till. frá undanförnum árum, að meðtöldum till. opinberra nefnda, sem eru ekki frjálslyndari og róttækari en till. þessa frv. Hver svo sem ber ábyrgð á því, þá virðist einhver íhaldshönd hafa komizt hér að og látið til sín taka.

Það var kjarninn í röksemdafærslu hv. 5. þm. Reykv., að það hefði verið byggt undanfarin ár, þótt lánin hafi þá verið enn þá lægri en gert er ráð fyrir í þessu frv. Hann andmælir í sjálfu sér ekki, að þau lán, sem hér er gert ráð fyrir, séu lítil og það sé lítil von til þess, að almennur launamaður, sem ekki á verulegar eignir, geti leyst úr húsnæðisvandræðum sínum með þeirri aðstoð, sem hér er gert ráð fyrir. En hann segir ósköp einfaldlega: Aðstoðin var enn þá minni áður, og samt var byggt, og þess vegna er hér um framfaraspor að ræða.

Ég vil nú minna hv. þm. á það, að jafnvel þó að byggt hafi verið, þá hefur samt ekki verið byggt nóg. Sönnunin fyrir því, að ekki hefur verið byggt nóg, er fólgin í þeirri staðreynd, að enn býr hátt á þriðja þúsund manns hér í herskálum, að enn býr nokkuð á annað þúsund barna innan 16 ára aldurs í herskálum hér í Rvík. Sönnunin fyrir því, að þótt mikið hafi verið byggt, hafi samt ekki verið byggt nóg, er fólgin í því, að fyrir 10 árum voru hér 1884 kjallaraíbúðir í Reykjavík, en það er vitað, að þær eru nær allar í notkun enn, þótt ekki sé vitað með vissu, hversu margir búi þar, því að áhugi yfirvalda hefur ekki verið svo mikill á húsnæðismálunum, að þeim hafi þótt ómaksins vert að kynna sér það, hversu margir búa enn í kjallaraíbúðum, sem margar hverjar voru taldar óhæfar fyrir 10 árum og eru þá auðvitað orðnar algerlega óhæfar nú.

Það er því ekki hægt að friða samvizkuna gagnvart ófullnægjandi tillögum í húsnæðismálunum með því einu, að það hafi verið byggt mikið undanfarin ár. Það, sem lofað hafði verið, og það, sem menn hafa vænzt nú, er, að loksins komi myndarlegt átak til þess, að hægt sé að útrýma herskálaíbúðunum og kjallaraíbúðunum og gera sem flestu efnalitlu fólki kleift að eignast eigin íbúð. Þess vegna urðu menn fyrir vonbrigðum, þegar menn sáu þetta frv., því að það leysir ekki vanda þessa fólks. Því fer fjarri. Nægir í því sambandi að minna á þær staðreyndir, sem ég rakti hér í ræðu minni í gær, að húsaleiga í 90 m2 íbúð mundi verða um 1871 kr. á mánuði miðað við þau lánskjör, sem hér er gert ráð fyrir. Jafnvel þó að gert væri ráð fyrir alminnstu íbúð, 200 þús. kr. íbúð, mundi húsaleigan samt sem áður verða nokkuð á fimmtánda hundrað kr. á mánuði. Það er augljóst mál, að slíkar íbúðir eru ekki við alþýðuhæfi. Þetta frv. leysir ekki vandamál þess fólks, sem fyrst og fremst þarf að leysa húsnæðisvandamálin fyrir. Það verður ekki gert án myndarlegra opinberra framlaga í þessu skyni, og það eru þau framlög, sem vantar í þetta frv.

Þá var það önnur höfuðröksemd hv. 5. þm. Reykv. í þessu sambandi, að þessu frv. væri alls ekki ætlað að leysa húsnæðisvandamál allra fátækasta fólksins; því væri ætlað að eiga aðgang að öðru lánakerfi, byggingarsjóði verkamanna. Það er einfalt að segja þetta, þegar hann veit það jafnvel og ég og allir aðrir hv. þingmenn, að undanfarin ár hefur byggingarsjóður verkamanna verið svo að segja óstarfhæfur vegna fjármagnskorts. Það fé, sem honum er séð fyrir af hálfu ríkisvaldsins, er svo lítið, að það stendur ekki undir neinum teljandi framkvæmdum, fer að verulegu leyti til að greiða mismuninn á vöxtunum af þeim litlu lánum, sem honum hefur tekizt að fá, og þeim vöxtum, sem hann hefur látið byggjendurna greiða. — Það lánakerfi, sem hv. þm. er að vísa hinum fátækustu á, er óstarfhæft, lokað. Það er svo og svo að ætla að hugga hina efnalitlu með því að segja við þá: Þetta frv. kemur ykkur að vísu ekki að gagni, en þið eigið aðgang að byggingarsjóði verkamanna, — þegar það er vitað, að hann er lokaður.

Nú skyldi maður halda, fyrst þessar tíðu ávísanir eru gefnar á byggingarsjóð verkamanna og öðru hverju farið lofsamlegum ummælum um hann og starfsemi hans, að þá væri eitthvað í þessu frv., sem tryggði honum aukið fé. En hvernig er því varið? Á það er ekki minnzt í frv. á annan hátt en þann, að veðdeildinni er heimilað, ef henni sýnist svo, að lána byggingarsjóði verkamanna eitthvert fé af því, sem inn kemur í sambandi við ráðstafanir frv. Ég tók það fram í gær, að þetta er þeim mun hastarlegra, þegar það kemur fram í grg. frv., að byggingarsjóði sveitanna hafi verið tryggðar 12 millj. kr. af þessu fé, eða liðlega 10% af því. Með tilliti til þeirrar staðreyndar er það sannarlega hastarlegt, að fullkomlega skuli vera gengið fram hjá byggingarsjóði verkamanna. Það er óverjandi, og ég endurtek það, sem ég sagði í gær, að ef úr þessu verður ekki bætt, þá er það hnefahögg framan í það efnalitla fólk í þessum bæ, sem sér einu vonina um að eignast sómasamlega eigin íbúð í því, að byggingarsjóður verkamanna verði gerður sæmilega starfhæfur.

Hv. 5. þm. Reykv. endurtók enn í ræðu sinni, að þetta frv. gerði ráð fyrir 40 millj. kr. aukningu á lánsfé til íbúðarhúsabygginga. Ég verð enn að leiðrétta þessa staðhæfingu, því að hún er til þess fallin að valda mjög alvarlegum misskilningi. Hún er til þess fallin að vekja hjá fólki tálvonir, sem er rangt og óheppilegt að vekja. Þessi 40 millj. kr. tala er í aðalatriðum fengin þannig, að gert er ráð fyrir því, að hefðu engar ráðstafanir verið gerðar, þá mundi það fé, sem smáíbúðadeildin fékk til umráða á s.l. ári, ekki hafa verið endurnýjað á þessu ári. Þannig er það fengið út, að þessar 100 millj. séu um 40 millj. kr. meira en það lánsfé, sem var til umráða á s.l. ári, að frádregnum smáibúðalánunum, sem aflað var fjár til aðeins til þess árs. En þegar menn virða fyrir sér, hvaða útlánaaukning fáist samkv. þessu frv., þá bera þeir saman það fé, sem verður til útlána á þessu ári, við það fé, sem var til útlána á síðasta ári. Þetta er það, sem menn gera auðvitað og er skynsamlegast að gera. Ef þessi samanburður er gerður, þá er útlánaaukningin í allra hæsta lagi 20 millj., — ég segi: allra hæsta lagi 20 millj., vegna þess að fyrri talan, þ.e.a.s. 60 millj. kr. án smáíbúðalánanna, er fengin þannig, að ekki er gert ráð fyrir neinum íbúðalánum hjá bönkunum. En þó að talið hafi verið, að bankarnir hafi veríð lokaðir, þá hygg ég, að óhætt sé að segja, sem betur fer, að dálítið af þeirra fé hafi — e.t.v. eftir krókaleiðum — farið til íbúðabygginga. Ég segi: sem betur fer. En mjög er hætt við því, að bankarnir muni telja endurnýjun á slíkum lánum með eða til þeirra lánveitingaloforða, sem þeir hér skuldbinda sig til, svo að þá kemur þetta fé enn til frádráttar þeim 20 millj., sem er raunveruleg útlánaaukning næstu 2 ár, miðað við árið í fyrra. Þess vegna endurtek ég það, að útlánaaukningin, sem búast má við til íbúðabygginga næstu 2 ár samkvæmt þessu frv., verður í allra hæsta lagi 20 millj. Sennilegra er, að hún verði 15 millj., kannske ekki nema milli 10–15, eftir því, hvað telja má að bankarnir hafi lánað mikið til íbúðabygginga og hversu frjálslyndir þeir verða í sambandi við mat sitt á því, hvernig fullnægja beri þeim loforðum, sem þeir gefa samkvæmt grg. þessa frv. En þetta tel ég raunar að ætti að vera hagsmunamál sjálfrar ríkisstj. að láta ekki almenning vera í neinum vafa um. Það er verið að blekkja almenning með því að segja honum, að með þessu komi 40 millj. kr. nýtt fé í lánastarfsemina. Það vekur vonir, sem ekki verður hægt að standa við.

Í sambandi við þessa — við skulum segja 15–20 millj. kr. útlánaaukningu til íbúðabygginganna er svo ómaksins vert að gera sér grein fyrir, hvaðan það fé kemur. Ég teldi, að það ætti fyrst og fremst að koma frá ríkisvaldinu og sveitarfélögunum og vera aflað með einhverjum hætti af tekjuafgangi þessara aðila, þannig að á bak við það stæði raunverulegur sparnaður hjá hinu opinbera. Það væri líka í beztu samræmi við þá fjármálastefnu, sem hæstv. ríkisstj. við ýmis tækifæri stærir sig af að fylgja. En sú er ekki raunin á. Minnstur hlutinn kemur frá ríkisvaldinu. Aðeins 3 millj., aðeins rúmlega 1/2% af árlegum ríkistekjum kemur úr ríkissjóði. Hvað mikið kemur úr sveitarsjóðunum, veit maður ekki enn þá. Afgangurinn kemur svo frá bönkunum. Og hvernig ætla bankarnir að afla sér fjár til þessara auknu lánveitinga? Það er vitað, að sparifé hefur ekki aukizt í bönkunum undanfarið, heldur hefur sparifjársöfnun þvert á móti minnkað. Hvar ætla þá bankarnir að afla þessa fjár? Svo framarlega sem ekki eiga að hljótast verðbólguáhrif af þessari fjáröflun, þá verður að draga þá ályktun, að tilgangurinn sé að draga önnur útlán saman sem þessu svarar. Kjarninn í lausn húsnæðisvandamálanna samkvæmt þessu frv. er þá m.ö.o. fólginn í framlagi bankanna, en ekki í framlagi ríkisvaldsins — þveröfugt við það, sem vera ætti, ef heilbrigðri fjármálastefnu væri fylgt, sérstaklega þegar þess er gætt, að þróunin varðandi sparifjársöfnun hefur undanfarið verið þannig, að úr henni hefur dregið, svo að þessi útlánaaukning hlýtur að þýða samdrátt í öðrum útlánum bankanna, ef ekki á að verða hætta á aukinni verðbólgu.

Við hv. 9. landsk..þm. (KGuðj), sem skipum minni hl. fjhn., teljum okkur hafa í nál. og ræðum í gærkvöld sýnt fram á, að þetta frv. er alls kostar ófullnægjandi lausn á þeim mikla vanda, sem húsnæðisvandamálið hlýtur að teljast. Það er þess vegna, sem við höfum lagt til, að það fé, sem komi til útlána, verði aukið um 30 millj. með sérstökum hætti, eins og greinir í brtt. okkar. Með sérstöku tilliti til þess, að við teljum okkur hafa sýnt fram á með óyggjandi rökum, að samkvæmt þessu kerfi getur enginn almennur launamaður byggt sér og eignazt sómasamlega íbúð, vegna þess að við teljum okkur hafa sýnt með ómótmælanlegum rökum fram á, að enginn verkamaður getur komið þaki yfir höfuðið á sér með þeim ráðstöfunum, sem hér eru gerðar till. um, þá teljum við það lágmarkskröfu, að þetta mál verði ekki afgreitt öðruvísi en þannig, að byggingarsjóði verkamanna verði gert fært að starfa á næstu 5 árum. Lágmarkskrafan í því sambandi er, að honum verði tryggt sama fé og búið virðist vera að lofa byggingarsjóði sveitanna. Það má segja, að þó að við gerum fleiri brtt. en þessar, þá sé þetta kjarni þeirra.

Ég læt það verða lok máls míns, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum af því, að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að lýsa afstöðu hæstv. ríkisstj. til þessara till., en e.t.v. á sú afstaða fyrst að koma fram við atkvgr., en þá verð ég að segja, að ef sú afstaða verður neikvæð, þá mun það efnalitla fólk hér í bæ, sem eygir það sem einu von sína til þess að koma sómasamlegu húsnæði yfir höfuðið á sér að geta byggt á vegum byggingarsjóðs verkamanna, og það fólk er margt, skoða þá afstöðu sem beint hnefahögg í andlit sér.