29.11.1954
Neðri deild: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

103. mál, óréttmætir verslunarhættir

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 2. umr., gat ég því miður ekki verið viðstaddur á fundi í hv. d., þó að ég hafi verið kjörinn frsm. hv. fjhn. Bið ég hæstv. forseta velvirðingar á því, en lögleg forföll hömluðu. Það kom ekki heldur að sök, því að málinu var vísað til 3. umr. umræðulaust, enda öll hv. fjhn. sammála um að æskja þess, að málið gengi fram. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, til þess að málið færi ekki út úr d. án nokkurrar framsögu af hálfu fjhn.

Málavextir eru mjög einfaldir. Frv. fjallar um það, að viðskmrh. sé heimilt að veita þeim, sem hefur verzlunarleyfi, leyfi til að selja ýmsa listmuni á uppboði, en þessi lagabreyting er nauðsynleg vegna þess, að svo hefur reynzt fyrir dómstólum, að slík uppboð séu óheimil, og er þar vísað til danskrar tilskipunar frá 17. öld. Þetta lagaákvæði mundi ryðja þeirri dönsku tilskipun úr vegi, svo að framvegis mundu slík listmunauppboð vera talin lögleg hér, svo sem þau eru hvarvetna í nágrannalöndunum.

Þetta vildi ég láta koma fram og æski þess af hálfu fjhn., að málið megi hafa framgang í deildinni.