12.11.1954
Neðri deild: 17. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

33. mál, búseta og atvinnuréttindi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær brtt. á þskj. 145 við þetta frv. Það má segja, að það sé ekki mikils um þær vert. Þær raska ekkert efni frv.

Í frv. er talað um neyzlu réttinda. Þetta finnst mér dálítið óviðkunnanlegt orðalag. Nú mætti vitanlega setja annað orð þarna í staðinn fyrir neyzlu, en mér sýnist fullljóst við athugun frv., að það missi ekkert af gildi sínu eða breytist neitt efnislega, þó að orðin „eða neyzlu slíkra réttinda“ verði felld úr frumvarpsgreininni og fyrirsögninni, og legg því til, að svo verði gert.

Í frv. segir, að það sé um afnám ákvæða í lögum, sem binda atvinnuréttindi íslenzkra ríkisborgara „eða neyzlu slíkra réttinda“ við búsetu. Nú liggur það í augum uppi, að ekki er hægt að nota réttindin, nema þau hafi verið veitt og séu fyrir hendi, og verður því ekki séð, að efni frv. breytist, þó að þessi orð verði niður felld.

Önnur brtt. mín er einnig aðeins orðalagsbreyting.