24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að fjölyrða neitt um þessa brtt. mína, sem ég flyt hér við 20. gr. Ég vék að því atriði við 2. umr. málsins og taldi ekki þörf á að gera það nú sérstaklega að umræðuefni. En fyrst hv. þm. Ak. leggur það mikið kapp á, að þessi breyting verði ekki gerð, og fer að vitna til samninga, sem gerðir hafi verið eða er í ráði að gera um þetta efni, sínu máli til stuðnings, að það óhapp hendi nú ekki hv. deild að stytta þennan frest, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni, þá er rétt að víkja að þessu nokkrum orðum.

Hvort sem það eru margir eða fáir samningar, sem gerðir hafa verið um þetta efni og með eins löngum uppsagnarfresti og hér er gert ráð fyrir í frvgr., 6 mánaða uppsagnarfresti, miðað við 15. okt., þá skiptir það engu máli fyrir mig og þarf ekki að skipta neinu máli fyrir þessi félög. Þeim getur ekki staðið það á neinu, þannig að það raski þeim áætlunum, sem þau gera, eða starfsemi þeirra, að þau þurfi með margra mánaða fyrirvara að vita um það, hvort eitthvert bæjareða sveitarfélag gengur frá þeim hvað tryggingarnar áhrærir. Nú vitnaði hann til samninga, sem hann segist hafa séð og Samvinnutryggingar hafi gert, þar sem sé sami frestur og hér er gert ráð fyrir í frv. Þetta varðar mig ekkert um, ekki hið minnsta. En það er nærtæk skýring, hvers vegna Samvinnutryggingar kunna að hafa sett eitthvað í uppkast að samningum eða samninga, ef það er búið að ganga frá þeim, að hér liggur fyrir Alþ. frv., sem ráðgerir þennan uppsagnarfrest. Skyldi það ekki geta verið ástæðan til þess, að Samvinnutryggingar setja nú þennan frest, að þetta er í þessu frv., sem lagt hefur verið fyrir Alþ., og Samvinnutryggingar kæra sig ekki um að grípa inn í hvað þetta ákvæði áhrærir, svo að m.a. sé ekki hægt að segja, að Samvinnutryggingar séu í neinu kapphlaupi við Brunabótafélag Íslands um að stytta þennan frest, sem ráð er þarna fyrir gert í frv. Ég er í litlum vafa um það, án þess að ég hafi haft vitneskju um þetta, fyrr en hv. þm. Ak. kemur með það, að þarna er orsökina að finna. Samvinnutryggingar hafa ekki kunnað við annað. Vel má vera líka, ef það hefði sýnt sig, að Samvinnutryggingar hefðu verið farnar að gera samninga um tryggingar og haft þennan uppsagnarfrest skemmri, að þá hefðu þær hlotið ákúrur fyrir það. En sé það eitthvað, sem Samvinnutryggingar óska eftir og vilja gjarnan hafa þennan frest til uppsagnar fyrir sig jafnlangan og hér er gert ráð fyrir í 20. gr., þá skiptir það mig ekki neinu. Það er hæfilegt, að tveggja mánaða uppsagnarfrestur sé um þetta atriði. Þetta er ekki svo margbrotið. Og nú vona ég, til þess að við gerum báðum aðilum jafnt undir höfði, að nú fallist hv. dm. á mína till. Þá eru óskir hvorugs félagsskaparins uppfylltar, og jöfnuður góður allur er. Ég ímynda mér, að þetta gæti allvel farið.

Nú vona ég, að þegar hv. þm. Ak. áttar sig betur á þessu, veiti hann mér lið og samþ. þessa till. Það er þá hægt að segja a.m.k. á eftir, eftir þeirri vitneskju, sem hann er búinn að fá, að ekki hefur þarna verið látið eftir óskum Samvinnutrygginga, og þá eigum við samleið. (Gripíð fram í.) Fyrir Samvinnutryggingar? Hvernig spyr hv. 3. þm. Reykv.? Göfugur er vitaskuld félagsskapurinn og góður, en þótt svo sé, sem ég viðurkenni fullkomlega, þá er hann þó ekki settur ofar lögum og rétti í þjóðfélaginn. Nóg mundi nú einhverjum þykja samt, þó að svo væri ekki.