24.03.1955
Efri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

172. mál, landshöfn í Rifi

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi var flutt í Nd. af sjútvn. þeirrar hv. deildar. Efni þess er, að í stað 3 millj. kr. heimildar, sem nú er í lögum, komi 12 millj. kr.

Eins og öllum er vafalaust ljóst, er landshöfnin í Rifi byggð með það fyrir augum að auðvelda bátum not af auðugum fiskimiðum þar í nágrenninu. Það er þegar búið að verja til landshafnarinnar um 5 millj. kr., en samkv. lauslegum áætlunum vitamálaskrifstofunnar er talið, að 12 millj. þurfi samtals til að skapa þarna viðunandi skilyrði fyrir fiskibáta.

Frv. fylgdi allýtarleg grg. Og með því líka að hæstv. forsrh. gaf mjög ýtarlega skýrslu um þetta mál í gær í Sþ., þá sé ég ekki ástæðu til að lengja framsögu mína nú. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur sem sagt athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.