25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

172. mál, landshöfn í Rifi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og þskj. það, sem hér um ræðir, ber með sér, þskj. 452, þá er hér um að ræða hækkun á framlagi ríkissjóðs úr 3 millj. kr. upp í 12 millj. kr. til þessarar ákveðnu framkvæmdar. Sumpart vegna þess, að hér er um veruleg fjárframlög að ræða, og sumpart vegna þeirra umræðna, sem fóru fram í Sþ. nú fyrir tveimur dögum í sambandi við þetta mál, þykir mér, sem hef átt frá byrjun sæti í landshafnarstjórninni, rétt að gefa hér nokkurt yfirlit yfir þetta verk og nokkrar upplýsingar í sambandi við afgreiðslu málsins.

Eins og kunnugt er, var borin fram í Sþ. fsp. á þskj. 467, sem hæstv. atvmrh. hefur svarað, en ég vil þrátt fyrir það segja nokkur orð um þetta mál, og þá er fyrst: Hvers vegna var eiginlega Rifshöfn valin sem landshöfn? Ein af ástæðunum til þess, að Rifshöfn var valin sem landshöfn, er sú, að það var verið að bjarga þorpi, sem var að fara í eyði fyrir atvinnuleysi, en þar bjuggu um eitt skeið um 400 manns. Það var sýnilegt, að ef ekkert yrði gert fyrir þetta þorp, mundu allar eignir þar verða verðlausar og fólkið flytjast í burtu til annarra staða. Þetta var ein af ástæðunum fyrir því, að valin var Rifshöfn sem landshöfn.

Annað atriðið var, að þar er stytzt á miðin, sem nota má lengstan tíma af árinu, og enginn staður á landinu hefur betri skilyrði en einmitt Rif á Snæfellsnesi, því að þótt ýmsar aðrar hafnir liggi vel við fiskveiðum, þá er engin höfn, sem liggur svo vel við veiðisvæðum, sem hægt er að nota jafnlangan tíma af árinu og veiðisvæðin undan Snæfellsnesi.

Þriðja ástæðan er, að þar er ótakmarkað landrými til útþenslu fyrir margvíslegar atvinnugreinar í framtiðinni.

Í fjórða lagi: Með þessu var dreift stóriðju út á landsbyggðina frá fjölbýlinu og gerð tilraun til þess að stöðva straum fólksins til Faxaflóabyggðanna og þó einkum til Rvíkur og Hafnarfjarðar, eins og kunnugt er. En það er vitað, að undanfarin ár hefur streymt mikið af fólki frá veiðistöðvunum kringum allt land hingað til Faxaflóa.

Í fimmta lagi var verið með þessu að bæta mjög þróunarmöguleika Ólafsvíkur. Þótt merkilegt sé, þá hefur þetta verið lagt út á allt annan veg en rétt er, því að með því að fullbyggja Rifshöfn, eins og hugsað er, og leggja akfæran veg á milli Rifshafnar og Ólafsvíkur, þá mætti nota miklu betur alla aðstöðu í Ólafsvík en annars væri hægt.

Í sjötta lagi er með því verið að létta allmiklum þunga af veiðisvæðunum í Faxaflóa. Það er vitað, að hin síðari ár hafa veiðisvæðin í Faxaflóa verið svo ásett, að það hefur þótt alveg nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir, ef unnt væri, til þess að létta af þeim þunga, sem þar hvílir á, og það yrði gert langbezt með því að geta notað höfnina á Snæfellsnesi.

Sjöunda: Með því var verið að koma upp lífhöfn fyrir allan þann fjölda skipa, sem er á leið til Suðurlandsins frá Vesturlandi og hreppir óvænt og óviðráðanleg illviðri við Snæfellsnes og á engan kost á því að leita sér skjóls, hvorki til austurs, vesturs né suðurs, og ég hygg, að þetta hafi kannske ráðið hvað mestu um, að Rif á Snæfellsnesi var valið.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að ég persónulega átti ferð með einu slíku skipi þann 3. des. 1940. Eftir að við höfðum sleppt landvari frá Vesturlandinu, farið yfir Látraröst og yfir Breiðafjörð, skall á slíkt veður, að það var ekki hægt fyrir nein skip að halda áfram, og það var engin höfn, sem hægt var að flýja til á öllu Breiðafjarðarsvæðinu. Kl. 8 um morguninn þennan dag fékk þetta skip áfall, svo að ekkert var upp úr annað en stýrishúsið, þar sem viðkomandi menn stóðu þó í hné í sjó, og svo skorsteinninn, og þannig lá skipið undir áföllum í meira en klukkutíma. Á þessum sama klukkutíma fórst rétt skammt frá okkur togarinn Sviði, eins og kunnugt er, sem sjálfsagt hefur fengið álíka áfall og hin önnur skip, sem þar voru, en þau lágu undir áföllum í meira en sólahring. Þetta opnaði ekki hvað sízt fyrir mér augu um það, hversu nauðsynlegt væri að koma upp skipahöfn á þessum stað, sem gæti forðað sjómönnum frá þeirri hættu, sem því er samfara að vera ýmist á ferðinni eða á veiðum á þessu svæði í illviðrum. Það er vitað um ýmis önnur skip, sem hafa farizt ýmist þarna eða í Faxaflóa einmitt vegna þess að ekki hefur verið hægt að taka neina höfn við Breiðafjörð í slíkum veðrum:

Ég hygg, að það séu mjög mikil rök fyrir því, að rétt sé að eyða allmiklu fé í þessa höfn, m.a. þau, sem ég hef hér minnzt á. Ég hygg nærri því, að hvert þeirra væri nægilegt til þess, að rétt sé að eyða því fé, sem þarf til þess að koma þessari höfn áleiðis, hvað þá öll saman.

þykir mér rétt að benda einnig á, hvaða aðrar hafnir á landinu hafa sams konar skilyrði og Rif, og ber þá fyrst og fremst að nefna Vestmannaeyjar. Þaðan er hægt að sækja á sambærileg veiðisvæði, og er þó lengra að sækja á veiðisvæði frá Vestmannaeyjum en frá Rifi, sér í lagi ákveðna tíma ársins. Það mundi víst engum manni detta í hug að ásaka þá menn, sem hafa haft forsjálni til þess að verja mjög miklu fé í að koma upp höfn í Vestmannaeyjum, því að það er vitað, að það er ein af allra stærstu útflutningshöfnum landsins. En Vestmannaeyjar hafa á engan hátt meiri möguleika til þess að verða útflutningshöfn en Rif, þegar búið er að byggja höfnina í Rifi að fullu, nema síður sé. Þar að auki hafa Vestmannaeyjar ókost, sem Rif hefur ekki, og það er, að þar vantar allt uppland. Er sýnilegt, að fjölgi fólki í Vestmannaeyjum frá því, sem nú er, þá þrýtur þar ekki einungis land, heldur og mjólk, auk þess sem þar hefur aldrei verið nægilegt vatn, en allt þetta hefur Rif: ótakmarkað land, ótakmarkað vatn og ótakmarkað athafnasvæði.

Næsti sambærilegi staðurinn er Þorlákshöfn. Vitað er, að Þorlákshöfn hefur nákvæmlega sömu skilyrði og Rifshöfn, og ef búið væri að gera álíka mikið í Þorlákshöfn í dag og búið er að gera í Vestmannaeyjum, er víst, að Þorlákshöfn yrði eins mikil útflutningshöfn og Vestmannaeyjar, enda hefur hún alla sömu möguleika til þess að verða það.

Þriðji staðurinn er Grindavík. Þar er að verða mjög mikil veiðihöfn, en hún hefur þó þann ókost, að þangað er ekki hægt að sigla inn flutningaskipum, og þess vegna getur hún aldrei orðið útflutningshöfn. Þó er aðstaðan í Grindavík í dag orðin slík, að það er sótzt eftir því í miklu stærri mæli en hægt er að uppfylla að gera þaðan út báta, og það eins fyrir því, þó að þeir verði að greiða 2% af aflanum í hafnargjöld, sem er langt fyrir ofan nokkur hafnargjöld annars staðar á landinu. Sýnir það, hversu eftirsóknarvert það er fyrir útgerðarmenn og fiskimenn að geta komið sér fyrir í slíkum höfnum, þar sem svo stutt er á miðin og aflavonin slík eins og þar er, og olíueyðslan er ekki nema brot af olíueyðslu skipa, sem stunda veiðar frá öðrum verstöðvum. Allt þetta sýnir, hversu viturlegt það hefur verið að berjast fyrir því, að Rífshöfn á Snæfellsnesi yrði byggð upp sem fiski- og útflutningshöfn.

Fjórða höfnin er svo landshöfnin í Njarðvíkum, sem vitað er að hefur nú orðið slíkar tekjur, að öll líkindi eru til þess, að hún geti sjálf staðið undir öllum sínum kostnaði í framtíðinni. — Næstu sambærilegu hafnirnar eru svo bæði Reykjavík og Hafnarfjörður, sem liggja að vísu nokkru fjær miðunum, og svo Akranes og Sandgerði, en það má segja það sama um Sandgerði og Grindavík, að Sandgerði getur aldrei orðið útflutningshöfn, vegna þess að hún getur aldrei tekið inn stærri skip, sem flytja þungavöru að höfninni eða frá henni.

Aðrar sambærilegar hafnir eru svo Bolungavík, því að það er vitað, að ef hægt væri að gera Bolungavík örugga höfn, þá er hún einhver allra bezta fiskveiðahöfnin, sem hægt er að hugsa sér á Vesturlandi. Sama mætti segja um Selárdal í Arnarfirði, ef hægt væri að verja fé í þá höfn, því að báðir þessir staðir liggja nálægt veiðisvæðunum, og það sem meira er um vert, að þaðan er hægt að sjá svo vel til veðurfarsins, að það er allt annað að sækja þaðan sjó en innan frá Ísafirði og Bíldudal.

Síðan koma Hornafjörður á Austurlandinu og Patreksfjörður á Vesturlandinu, sem verða þó engar sambærilegar veiðihafnir við Bolungavík eða Selárdal, ef þar væri sett upp fiskihöfn.

Aðrar Breiðafjarðarhafnir eru miklu verr settar, eins og kunnugt er. Hversu miklu fé sem varið væri í Ólafsvík, gæti hún aldrei uppfyllt þau skilyrði, sem Rif getur uppfyllt, m.a. vegna þess, að landrýmið er svo þröngt þar, að það þolir ekki allmiklu meiri byggingar en þegar eru þar eða allmiklu meiri framkvæmdir en þar hafa þegar verið staðsettar.

Á Norðurlandinu eru svo ýmsar hafnir, eins og Sauðárkrókur, Hofsós, Ólafsfjörður, Raufarhöfn, Húsavík og svo Þórshöfn, sem allar væru hinar ágætustu fiskihafnir, en geta samt sem áður ekki komið að notum jafnlangan tíma af árinu og Rif á Snæfellsnesi, eins og ég hef þegar bent á.

Það var minnzt á það í hv. Sþ., hvað það mundi kosta að ljúka Rifshöfn að fullu, og þeir, sem gagnrýndu framkvæmdirnar, litu svo á, að það væri óverjandi, að Alþingi fengi ekki um það miklu betri grg. en fyrir lægi, hvað slíkt mannvirki mundi kosta ríkissjóðinn, þegar því væri að fullu lokið. Ég skal í þessu sambandi leyfa mér að upplýsa, að það, sem fyrst hefði þurft að gera í Rifi, var að ljúka byggingu brimbrjótsins, þ.e. hafnargarðsins, sem átti að verja höfnina að fullu og öllu fyrir hafáttinni. Það hafa þegar verið byggðir af honum 550 metrar, sem hafa kostað um 1 millj. kr., eins og upplýst hefur verið, en eftir er að gera af þessu mannvirki nærri 800 metra. Það verður ekki hægt að segja um það í dag, hvað það kostar, m.a. vegna þess, að enginn veit, með hvaða verðlagi er hægt að reikna í náinni framtíð, hvað þá langt fram í tímann, og ekki einu sinni hægt að segja neitt um það jafnvel á þessu ári, en það mætti mjög bæta þetta mannvirki með t.d. 3–4 millj. kr. framlagi, og hefði raunverulega þurft að leggja á það megináherzlu að lengja þann garð a.m.k. um helming. Það var hins vegar álitið af hafnarstjórninni, að vegna aðkallandi nauðsynjar á að koma höfninni í notkun væri hægt að búa við garðinn eins og hann er nú og leggja heldur það fé, sem fengist, til þess að gera fært fyrir bæði báta og önnur smærri skip að hafa samband við höfnina, byggja þar bryggju, dýpka þar innsiglinguna o.s.frv., svo að hægt væri að taka höfnina til notkunar sem allra fyrst, væntanlega á þessu ári. Það er þess vegna, sem fénu var varið til þessara framkvæmda í stað þess að halda áfram byggingu garðsins, og var því ekki hægt að ljúka garðinum á sama tíma. En einmitt vegna þessarar ráðstöfunar var lagt í þá áhættu, að sandur, sem dælt var út fyrir garðinn, kæmi aftur inn í höfnina, og það er það, sem skeði á s.l. ári, að ákveðið magn af þeim sandi, sem dælt var út fyrir og hafði áður jafnharðan borizt í burtu út í flóann með straumnum og því reiknað með, að það mundi einnig verða svo framvegis, barst inn í höfnina aftur í norðanstormi, sem skall þar á, og varð því að vinna þetta verk á ný. Höfnin verður aldrei fullkomin höfn fyrir hvaða stærð skipa sem er, fyrr en búið er að ljúka þessu mannvirki, þ.e. 800 metra garðinum, sem mun kosta, eins og ég segi, allmargar milljónir. Er ekki hægt að segja í dag, hver endanlegur kostnaður verður, en hins vegar er þetta verk þannig, að það má smátt og smátt lengja garðinn, án þess að það trufli nokkuð aðrar framkvæmdir, og hver metri, sem kemur í viðbót, mun gera höfnina betri. Það, sem næst liggur svo að gera, er að mynda uppfyllingar og athafnasvæði inni í höfninni, og fer það vitanlega eftir því, hve höfnin er notuð mikið, hve miklu fé þarf að eyða í það. Ef aðeins á að nota höfnina fyrir lítinn ákveðinn hóp báta, þá fer lítið í þetta. Eigi hins vegar að uppfylla allar þær óskir, sem ég veit að munu verða gerðar til Rifshafnar, þegar hún er komin í það ástand, að hægt sé að hafa þar viðlegu báta og hefja þaðan veiði, þá er enginn vafi á því, að það er eftir að setja margar milljónir í þessa höfn, þangað til henni er að fullu lokið, alveg eins og vitað er, að það varð að setja margar milljónir í Vestmannaeyjahöfn, eftir að búið var að byggja þar garðana, og það þurfti að setja margar milljónir í Reykjavíkurhöfn, eftir að fyrstu framkvæmdunum var lokið. En ég er líka viss um það, að hverri krónu, sem varið er til þess að ljúka höfn í Rifi, er vel varið. Rifshöfn er sumpart undirstaðan undir því að auka framleiðslu landsmanna í stórum stíl og sumpart undir því að dreifa fólkinu frá fjölbýlinu og aftur út á þá staði, sem fólkið nú er að flýja frá, og hún er enn fremur til þess að minnka þau slys, sem hafa orðið í kringum þennan stað, og skapa enn meira öryggi fyrir alla þá aðila, sem stunda ýmist veiðar eða ferðir á þessu svæði, eins og ég hef minnzt á.

Ég álít því, að því fé, sem varið er til þess að ljúka við þetta mannvirki, sé vel varið og þess vegna beri að sameinast um, að til hafnarinnar verði veitt fé eins ört og hægt er, eins og ríkissjóðurinn þolir, til þess að koma þessu verki áfram.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram hér í sambandi við þessa umræðu.