04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

82. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Akureyrarkaupstaðar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 111 fjallar um það að sameina Akureyrarkaupstað annars vegar og hins vegar hluta af Glæsibæjarhreppi, þ.e.a.s. Glerárþorp og nokkur bændabýli, sem talin eru upp í 1. gr. frv., í eitt lögsagnarumdæmi. Eins og grg. frv. ber með sér, hefur náðst algert samkomulag milli bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps um þetta.

Þetta virðist nú í sjálfu sér ekki út af fyrir sig neitt stórmál, en þó mætti segja, að forsaga þessa frv., sem hér er nú fram borið, sé býsna löng. Ég held, að þau hartnær 5 ár, sem ég hef verið félmrh., hafi þetta mál að einhverju leyti komið til athugunar og meðferðar hjá félmrn. á hverju ári, og sannleikurinn er sá, að það voru vissir erfiðleikar á að ná fullu samkomulagi milli þessara aðila um þetta, og veldur þar ýmislegt, eins og atvinnuhættir og margt fleira, sem gerði það að verkum. En félmrn. komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri nauðsynlegt, eins og ástæður væru þarna, og hefur því leitazt við að vinna að því, að samkomulag næðist um þetta, og hefur það fengizt. Ég vil hér láta í ljós þakklæti mitt til þeirra aðila, sem að því hafa unnið, að þetta næðist, fyrst og fremst bæjarstjórnar Akureyrar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps, sem eru aðalaðilarnir, en ég vil einnig nefna þá alþm., sem hér eiga hlut að máli, alþm. Ak. og alþm. Eyf., sem allir hafa unnið að því, að samkomulag næðist um þetta mál. Ég tel það vel farið og treysti því, að þetta verði í framtíðinni til hagsbóta fyrir þetta myndarlega hérað, sem þarna er um að ræða, og báða þá aðila, sem nú hafa náð samkomulagi um þetta. Mér þykir því verulega vænt um að geta hér nú lagt fram frv. um það, að þessir aðilar hafi nú sameinazt um þetta og orðið sammála um niðurstöður þess.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. Grg. er að vísu ekki löng, en lýsir þó í raun og veru nægilega því, sem um er að ræða varðandi þetta mál. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.