31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram út af ummælum hv. þm. Barð. (GíslJ), að ég get ekki litið á það sem neina skyldu ríkissjóðs að leggja fram á þessu ári fé til stofnunar þessa vistheimilis. Og þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., hefði verið fyrsta till., sem fram kom í þessu máli, finnst mér frv. ekki gefa tilefni til að álíta það. En þaðan af síður er hægt að líta svo á, þegar ákvæði í hinu fyrra frv. um skyldu ríkissjóðs til að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins er fellt niður í hv. neðri deild.

Með öðrum orðum, það virðist liggja fyrir sá vilji hv. Nd. alveg ótvíræður að leggja ekki slíka skyldu á ríkissjóð. Hitt er svo annað mál, að það kann vel að vera, að hæstv. ráðherrar, menntmrh. og fjmrh., geti komið sér saman um það að leggja fram fé til þessara framkvæmda upp á væntanlegt samþykki Alþingis. Það kann vel að vera, og ríkisstj. hefur sannarlega oft ráðizt í annað eins. Það er bara allt annað en að nú hvíli skylda á ríkissjóði til að leggja þetta fé fram samkv. því frv., sem hér er til umr. ríkisstj. ætti þá undir högg að sækja eftir á til Alþingis að fá þá fjárveitingu.